Opinn fundur vegna heildarendurskoðunar á framtíð þjónustu við eldri borgara á Íslandi

eftir Ritstjórn

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra hafa boðað til opins kynningarfundar mánudaginn 5. desember nk. kl. 11:00-13:00 á Hilton Reykjavik Nordica vegna heildarendurskoðunar á framtíð þjónustu við eldra fólk á Íslandi. Fundurinn er einnig í streymi á netinu fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Efni fundarins er kynning á drögum að aðgerðaáætlun til fjögurra ára sem lögð verður fram á Alþingi vorið 2023. Áætlunin er unnin af verkefnastjórn um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.

Um er að ræða eitt af stærri verkefnum ríkisstjórnarinnar sem hverfist um að tryggja skuli eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um er að ræða heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu, á forsendum fólksins sjálfs, á réttu þjónustustigi og á viðunandi tíma.

Fyrr í haust stóð verkefnastjórnin fyrir vinnustofu með hagaðilum til að undirbúa gerð aðgerðaáætlunarinnar og hafa niðurstöður hennar verið nýttar við gerð þeirra afurðar sem kynnt verður á fundinum 5. desember. 

Auk kynningar á drögum að aðgerðaáætluninni verða flutt stutt erindi um samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu og tími gefinn fyrir spurningar og umræður.

Nánari upplýsingar og skráning er hér á www.oldrun.is

Tengdar greinar