Aðgengileg ráðgjöf og upplýsingar á landsvísu fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur

eftir Ritstjórn

Upplýsinga- og ráðgjafaþjónusta fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þess hefur verið opnuð hjá Alzheimersamtökunum. Þjónustan er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum eldra fólks: Gott að eldast. Markmið aðgerðarinnar er að auðvelda aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf um hvað eina sem varðar heilabilun, svo sem varðandi þjónustu og sérhæfðari ráðgjöf.

Alzheimersamtökin hafa um árabil veitt ráð vegna fólks með heilabilun en ekki haft stöðugildi fyrr en nú til að sinna upplýsinga- og ráðgjafaþjónustu. Þjónustan verður opin öllum landsmönnum og verður fólki að kostnaðarlausu. Hún verður veitt í húsakynnum Alzheimersamtakanna, í fjarviðtali eða í gegnum síma – eftir því hvað hentar best. 

  • Hægt er að panta tíma í ráðgjöf í síma 520-1082 eða með því að senda póst á netfangið radgjafi@alzheimer.is

Ásta Kristín Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi MA, er verkefnastjóri upplýsinga- og ráðgjafaþjónustunnar. Hún útskrifaðist með starfsréttindi í félagsráðgjöf árið 2012. Hún hefur starfað á Landspítalanum, bæði á geðdeild og á Landakoti. Einnig hefur hún starfað við félagslegan heimastuðning í Reykjavík.

„Það er í þágu alls samfélagsins að óformlegir umönnunaraðilar njóti stuðnings við sitt mikilvæga hlutverk og að þeir fái viðurkenningu á því álagi sem fylgir hlutverkinu. Með því að tryggja aðgengi að  réttum upplýsingum og almennri ráðgjöf frá fagaðila með einföldum hætti er það von mín að fólk um allt land finni að verið sé að byggja upp þéttari ráðgjöf til framtíðar,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

„Við erum bæði stolt og þakklát fyrir að vera treyst fyrir þessu mikilvæga verkefni. Álag á aðstandendur einstaklinga með heilabilun er mikið og því gríðarlega mikilvægt að þau hafi greiðan aðgang að upplýsingum og ráðgjöf frá sérfræðingum. Þetta er mjög gott skref í átt að betri þjónustu og mun sú þekking sem myndast nýtast vel við að efla enn frekar um land allt,“ segir Guðlaugur Eyjólfsson, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna.

Frétt á vef Stjórnarráðsins www.stjornarradid.is

Tengdar greinar