Bibbi í Neista – 96 ára og byrjaður að baka fyrir jólin

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Brynjúlfur Jónatansson eða Bibbi í Neista eins og hann er jafnan kallaður, er fæddur 23. júní 1924 og er því 96 ára gamall. Hann er með elstu mönnum í Vestmannaeyjum og býr enn á sínu eigin heimili. Bibbi missti eiginkonu sína Lilju Þorleifsdóttur fyrir 12 árum og býr í dag einn í fallegu fjölbýli í miðbæ Vestmannaeyja. Þau hjónin eignuðust 7 börn og ólu auk þess upp eitt barnabarn.  Bibbi er menntaður rafvirkjameistari og stofnaði ásamt Boga félaga sínum rafmagnsverkstæðið Neista í Eyjum og rak það í 49 ár.  Bibbi er ríkur maður, því alls telja afkomendur hans 50 manns.  Á einstaklega fallegri hillu á heimili hans er hann með mynd af þeim öllum. Okkur lék forvitni á að vita hvað væri galdurinn af því að vera í svona góðu formi kominn hátt á tíræðisaldur og fengum að heimsækja Bibba í stundarkorn að viðhafðri tveggja metra reglunni að sjálfsögðu.

Börn, barnabörn og barnabarnabörn Bibba telja alls 50 manns.

Hvað gerir Bibbi til að halda sér í góðu formi?

„Ég geri bara ekki nokkurn skapaðan hlut, ég er bara svona.“ svarar Bibbi kíminn.  En hann tjáði okkur síðan að hann hefði aldrei tekið nein meðul fyrir utan glákudropa sem hann væri búinn að nota í 40 ár.  Annars hafi hann aldrei verið með neitt hjartavesen, magavesen eða hvað þetta heitir nú allt saman. Hann segist aldrei hafa reykt og drukkið brennivín í hófi, en hann sé ekki á neinu sérstöku mataræði „Maður át bara fisk í gamla daga.“ sagði Bibbi. Bibbi fer reglulega í göngur í miðbænum þegar vel viðrar.  Hann hefur einnig tekið virkan þátt í félagsstarfi eldri borgara og mætti alltaf á spilakvöldin áður en veiran setti strik í reikninginn. Bibbi heldur sér líka vel við andlega, er á Facebook og notar bæði spjaldtölvu og grúskar og skoðar vefmiðlana í glæsilegu tölvuherbergi.

Tölvuherberbergið hjá Bibba er ekki af verri endanum.

Drakk sjó sem ungur peyji

Aðspurður um uppskriftina af langlífi og því að vera svona hress á þessum aldri sagði Bibbi að auðvitað vildi hann getað gefið þá uppskrift.  Hann rifjar þó upp að þegar hann var smástrákur hafi hann alltaf verið veikur á veturna, hann lagðist á haustin og fór ekki í skóla fyrr en hann var 12 ára.  Hann var svo alltaf hress á sumrin. Það var búið að prófa allt mögulegt og læknirinn stóð á gati yfir því hvað gæti amað að.  Rétt áður en læknirinn flytur í burtu frá Vestmannaeyjum í kringum 1932-1933 hittir hann pabba hans á götu og þeir fara að ræða málin og hann sagðist alveg orðinn bit á þessu.  En læknirinn ráðleggur pabba hans sem var sjómaður að næst þegar hann færi á sjó að fara með flösku og taka sjó í hana þegar hann væri kominn langt út á sjó.  Hann skyldi síðan gefa syninum reglulega að drekka sjó þegar í land væri komið.  Bibbi segir að það hafi verið mjög vont fyrst en hafi vanist.

Hann alla vega hresstist við með tímanum og hefur aldrei fengið flensu og aldrei misst einn dag úr vinnu alla sína tíð síðan.  Bibbi segir óvíst hvort þetta virki á nýju flensuna okkar og á þá við kórónuveiruna og hlær við.   Hann segist aldrei hafa fengið að vita hvaða speki var á bak við það að drekka sjó sér til heilsubótar en víst er að það er ekki ráðlagt í dag.

Bibbi kíkir í uppskriftabókina.

Jólin og baksturinn

Bibbi segist ekki viðhafa neinar sérstakar jólahefðir lengur, það hafi verið meira þegar börnin voru heima.  Hann segir helstu breytinguna á jólum í dag og áður fyrr vera þá að áður fyrr var allt heimagert og sem minnst aðkeypt.  En það hafi alltaf verið gefnar jólagjafir svo lengi sem hann man.   Bibbi er byrjaður að baka fyrir jólin og segist helst vera að baka smákökur og jólaköku og svoleiðis dótarí.  Hann byrjaði að baka eftir að konan hans féll frá og er í ár búinn að baka dýrindis piparkökur.  Hann sýnir okkur ævaforna matreiðslubók sem hann segist stundum glugga í.

Bibbi smakkar piparkökurnar góðu.

Bibbi segir bara um tvennt að velja í dag það sé annað hvort að verða 100 ára eða deyja ella og hlær við en okkur sýnist nú góðar líkur á að hann nái a.m.k hundrað árunum.  Bibbi óskar að lokum öllum gleðilegra jóla enda aðventan að byrja og jólin verða komin áður en við vitum af. 

Tengdar greinar