Er hægt að sækja um styrk til að kaupa heyrnartæki ? – fyrirspurn til félagsráðgjafa

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Sæl !

Èg er farin að heyra mjög illa og var sagt af læknir að ég þyrfti að fá mér heyrnartæki. Í fyrstu var ég í afneitun, kannski vegna þess að ég hef ekki mikil fjárráð. Ég hef nú gert mér grein fyrir því að þetta er víst nauðsynlegt en spurning mín er sú hvort heyrnartæki séu niðurgreidd ?!

Kveðja X

Sæl og blessuð og takk fyrir að leita til Aldur er bara tala.

Sjúkratryggingar Íslands veita styrk að upphæð 120.000 kr ef keypt eru heyrnartæki fyrir bæði eyru. Helmingi lægri greiðslur eru fyrir tæki í annað eyra.

Þú þarft að fara í heyrnarmælingu hjá seljanda sem hefur rekstrarleyfi frá heilbrigðisráðuneyti s.s Heyrðu, Heyrn, Heyrnartækni eða Heyrnarstöðin. Þeir hafa ákveðin viðmið sem þarf að uppfylla til að réttur sé á heyrnartækjum.

Seljendur senda síðan umsókn rafrænt ásamt reikningi fyrir kaupunum og heyrnarmælingu og þú færð niðurgreiðslu inn á reikninginn þinn.

Ef þú kaupir tæki hjá Heyrnar og talmeinastöð Íslands er styrkur SÍ dreginn af kostnaðarverði og þú greiðir mismuninn.

Fjölmörg félagasamtök og stéttarfélög veita einnig styrk vegna kaupa á heyrnartækjum. Ég mæli með að þú hafir líka samband við stéttarfélagið þitt ef þú ert á vinnumarkaði til að kanna hvort þú eigir rétt á styrk vegna kaupa á heyrnartækjum.

Gangi þér vel og bestu kveðjur

Tengdar greinar