Að halda dampi í ólgusjó nútímans

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að halda andlegri heilsu í öllum þessum hörmungum sem yfir heimsbyggðina hafa dunið síðustu misseri ?  Eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á hafa allir fréttatímar, alla daga verið yfirfullir af fréttum um veiruna. Nákvæmar tölur um fjölda smitaðra, fjölda andláta, lokanir hér og þar, getgátur um horfur osfrv. Endalausar fréttir um vont veður og síðan stríð leggjast þungt á marga.

Er hægt að deyja úr leiðindum ?

Mynd: shutterstock.com

Heimsfaraldurinn hefur ekki hvað síst bitnað á okkar elstu aldurshópum, margir hafa verið í sjálfskipaðri einangrun af ótta við að veikjast illa af veirunni, fólk hefur jafnvel ekki verið að hitta sitt nánasta fólk og á hjúkrunarheimilum hafa heimsóknir aðstandenda verið skertar og jafnvel ekki heimilaðar á tímabilum.  Vissulega hefur okkur íslendingum gengið ágætlega miðað við önnur lönd að berjast við veiruna skæðu og fyrir það ber að þakka. Andlát hafa verið hlutfallslega færri en í mörgum öðrum löndum og gengið hefur vel að vernda okkar viðkvæmustu hópa gegn heilsufarslegu tjóni af völdum veirunnar með miklum samfélagslegum takmörkunum.

En það er líka hægt að deyja úr leiðindum.  Félagsleg samskipti við nánustu aðstandendur hafa gríðarlega mikið að segja hvað lífsgæði varðar. Leiðindi eru ekki sjúkdómsgreining en ætti kannski að vera það því félagsleg heilsa skiptir mjög miklu máli, afleiðingar leiðinda geta svo valdið ýmsum kvillum og sjúkdómseinkennum sem á endanum draga úr lífsþrótti. 

Ég held að við þurfum að passa okkur að fara ekki svo langt í að vernda viðkvæma fólkið okkar að það deyji úr leiðindum. Sem betur fer horfir nú til betri vegar og takmarkanir víðast hvar afnumdar og fólk farið að hittast á ný sem er yndislegt. Við þurfum samt sem samfélag að læra af því tímabili sem við höfum gengið í gegnum undanfarin tvö ár og vega og meta hvernig við ætlum að takast á við félagslega hlutann og halda góðum andlegum lífsgæðum ef veiruógn sækir á okkur á nýjan leik.  Það er enginn tilbúinn í annað tímabil lokunar og mikillra takmarkana.

Að búast við því besta og taka því sem kemur

Mér er svo minnistætt viðtal sem ég tók við reyndan hjúkrunarfræðing hana Nönnu Rósu á fyrstu mánuðum faraldursins og hefur verið ofarlega í huga mér síðustu tvö árin.  Hún sagði að það væri bara best að búast við því besta og taka því sem kemur, það hafi alltaf verið farsóttir og nú sé meira vitað og meiri líkur á að eitthvað finnist við veirunni.  Hún hafði auðvitað rétt fyrir sér og bóluefni var þróað með ótrúlegum hraða og meðferð við veirunni hefur fleygt fram dag frá degi.  En Nanna Rósa sem nú er fallin frá var svo gott dæmi um þrautsegju, yfirvegun og bjartsýni okkar eldra fólks sem man tímana tvenna.  En þrátt fyrir þessa eiginleika reyna takmarkanir og erfiðleikar eins og á hafa dunið í samfélaginu og heiminum á alla.

Stríð er skollið á

Þegar loks sá svo til sólar í kórónaveirufaraldrinum, allt samfélagið fór að opnast á ný og fólk gat farið að hittast skellur á hörmulegt stríð Rússlands (Pútíns) sem beinist að Úkraínu.  Við heyrum stanslausar fréttir af því í öllum fréttatímum í útvarpinu, á netmiðlum og í sjónvarpi. Við upplifum sorg yfir örlögum fólksins í Úkraínu og samkennd með almenningi í Rússlandi sem dregst inn í atburðarrás sem það hefur enga stjórn á og óskaði ekki eftir. Það getur valdið kvíða, við höfum áhyggjur og það hefur áhrif á andlega heilsu, við upplifum vonleysi því það er svo lítið sem við getum gert.  Ekki nóg með það heldur dynja á okkur endalausar lægðir og óveðursfréttir.

Hvað getum við þá gert til að halda dampi og andlegri heilsu ?

Við þurfum fyrst og fremst að hlúa að sjálfum okkur, hlúa síðan að okkar nánasta fólki og ekki hvað síst þeim sem búið hafa við einangrun og takmarkanir.  

Það er gott að minnka allt íþyngjandi áreiti, það er alveg nóg að horfa á kvöldfréttirnar, við getum ekki breytt stríðinu frekar en veðrinu og því óþarfi að hlusta á endurteknar fréttir allan daginn. 

Það er gott að einbeita sér að þeim jákvæðu hlutum sem við getum haft stjórn á og höfum gaman af og gera meira af þeim.  Ef dagurinn í dag var ekki góður, reyndu þá að hafa daginn á morgun góðan

Svo er mikilvægt að efla samskiptin við okkar nánasta fólk og vinna upp dýrmætan tíma sem mögulega glataðist í veirufaraldrinum.  Mikilvægt er að passa svefninn, mataræðið og hreyfinguna sem er það sem allir vita en ekki allir ná að passa upp á.

Það er því aldrei mikilvægara en nú að hugsa vel um sjálfan sig, halda í jákvæðnina og auðvitað passa svo að deyja ekki úr leiðindum.

Það styttir alltaf upp og lygnir !

Tengdar greinar