Ert þú að hlusta nógu vel ?

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Virk hlustun er undirstaðan í góðum samskiptum og djúp tengsl myndast vart án virkrar hlustunar.

Hlustun er svo mikið meira en bara það að heyra hvað er sagt. Það er alveg ástæða fyrir því að við erum með tvö augu, tvö eyru en bara einn munn. Þú hefur kannski upplifað að einhver hefur sagt við þig “Það var gott að tala við þig, mér líður betur núna” þegar kannski það eina sem þú gerðir var að hlusta af athygli án þess að segja þína skoðun eða gefa ráð. Viðkomandi fékk þá kannski óskipta athygli frá þér og það dugði því stundum verður allt skýrara þegar fólk getur tjáð sig upphátt og upplifir skilning.

Sá sem leggur áherslu á að vera góður hlustandi er í leiðinni betri maki, betra foreldri, betri samstarfsmaður, betri vinur og betri félagi.

Það er samt ákveðin kúnst að kunna að hlusta og það þarf að leggja sig fram og æfa sig í að hlusta af athygli. Þegar við hlustum vel heyrum við ekki bara orðin heldur leggjum okkur fram við að ná fram og skilja hvað viðmælandi okkar á við í raun og veru. Góður hlustandi er óhræddur við þagnir og leyfir viðmælandanum að tala.

Hér eru nokkur góð ráð ef þú vilt æfa þig í að vera betri hlustandi og þar með betri í samskiptum :

  • Ná augnsambandi við þann sem talar og vera í sömu hæð, t.d ekki standa yfir þeim sem talar ef hann situr Það er óþægilegt að tala við einhvern sem ekki horfir á mann, heldur horfir bara út um gluggann á meðan
  • Hlusta af athygli og sýna skilning. Að meðtaka það sem er sagt og gefa það til kynna með því t.d að kinka kolli og jafnvel spyrja spurninga til að átta sig á að maður sé að skilja viðmælandann rétt. Ekki vera í símanum eða tölvunni á sama tíma og þú ert að hlusta. Sýndu fulla athygli.
  • Umorða það sem þú heyrir með eigin orðum til að vera viss um að vera að skilja rétt og veita endurgjöf s.s “ertu þá að meina að….?”, “er það rétt skilið hjá mér að….”? “það hljómar erfitt….”.
  • Forðast að grípa fram í. Hver kannast ekki við að vera að segja einhverjum sögu sína og viðkomandi hefur sig þá frammi og hefur lent í tvöfalt meira og stærri sögu en sagt er frá ? Ekki vera sá aðili  
  • Sýna hlutleysi og bera virðingu. Góður hlustandi ber virðingu fyrir viðmælandanum og er ekki í dómarasætinu. Það þurfa ekki allir að hafa sömu skoðun á hlutunum og stundum má maður geyma aðeins að segja sínar skoðanir þegar hlustað er.

Tengdar greinar