Aldur er bara tala – kveðja frá Espergærde í lok árs 2022

eftir Guðni Friðrik Gunnarsson

Eins og ég áður hef lofað, kemur hér smá pistill um árið, sem senn er liðið hjá okkur Heldri borgurum frá Eyjum,hér í Espergærde á Norður Sjálandi.

Eftir að takmörkunum var aflétt hér í Danmörku v/COVID hefur lífið orðið eðlilegra og skemmtilegra.

Margs er að minnast frá árinu, gestum til okkar frá Íslandi fjölgað og einnig fórum við í 8 daga ferð til Íslands í byrjun september, fyrst til Eyja og síðan til Reykjavíkur.  Gistum í Reykjavík hjá Guðný Stellu ,sem nú er læknir á HSU.  Hún flutti til Íslands í byrjun júlí.

Í lok ársins  endurnýjuðum við samband við líkamsrækt og reynum að halda við því, sem  Janusarverkefnið í Eyjum gaf okkur.

Ég fór í aðgerð á fæti í byrjun júlí, sem tókst mjög vel, lagt  var af stað í þá vegferð í apríl og málið klárað í júlí.  Fyrsta sjúkrahúsferð og aðgerð hjá mér síðan í kirtlatöku í Eyjum, yngri en 10 ára.  Gaman að kynnast heilsugæslunni hér. Á árinu vorum við kölluð inn, eins og aðrir eldri borgarar í flensusprautu, 4 COVID sprautuna og annað árlegt eftirlit.

Við höfum verið mjög virk í starfi Heldri borgara hér í Köben, sem og Íslendingafélagsins.

JÓNSHÚS sem er miðstöð alls starfs Íslendinga hér. Þeir,sem komu frá Akoges geta staðfest að starfið hér er ótrúlegt. Við vorum á Jólahlaðborði Heldri borgara í byrjun desember í Jónshúsi.

Jólahlaðborð heldri borgara í Köben

Skötuveisla  Íslendingafélagsins var síðasta sunnudag í húsi Færeyinga við Vesterbrogade, ásamt tengdasyni og einu barnabarni,  gaman að halda í hefðir 

Fyrir stuttu hittum við 40 eyjamenn, félaga í Akoges og maka, æðislega skemmtileg stund í Jónshúsi.

Í síðustu viku fórum við, hluti Heldri borgara í bátsferð um höfnina/síkin með hópi Heldri borgara frá Norðurlandi, aðallega frá Akureyri. Skemmtileg ferð og gaman að sjá miklar breytingar við t.d. Íslandsbryggju.  Við 53 árgangurinn hér á Sjálandi héldum árgangsmót í einn dag og áætlum að hittast aftur í byrjun árs 2023.

Við Peta erum mjög rík ,eigum átta barnabörn , 6 hér  í nágrenni við okkur og 2 á Íslandi og ef allt gengur eftir bætast 2 við í mars/apríl 2023.

Horfum fram til 2023 með þá von í brjósti að, hörmungum í Ukraínu linni  og rafmagns- og hitareikningar lækki

Bestu Jóla- og áramótakveðjur til eyjamanna, með þakklæti fyrir allt gamalt og gott

Guðni Friðrik Gunnarsson og Petrína Sigurðardóttir (Peta)

P.S komst að því á árinu að við erum enn, útsvarsgreiðendur í Eyjum, sá hluti staðgreiðslu okkar  fer til síðasta skráða lögheimilis á Íslandi

Tengdar greinar