Ráð til að styrkja samband foreldra við uppkomin börn sín – Félagsráðgjafi svarar

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Sæl !

Mig langaði að athuga hvort þú gætir gefið mér góð ráð varðandi börnin mín tvö sem eru uppkomin ? Ég er ekkja og bý ein og finnst eins og þau forðist samskipti við mig.  Mér finnst þetta mjög erfitt því ég er einmana og væri svo til í að fá oftar að njóta félagsskapar við þau og barnabörnin.  Þau til dæmis nenna mjög sjaldan að hjálpa mér og fara með mér þangað sem mér langar til að fara.   Ég er alltaf til staðar fyrir þau en þau eru ekki til staðar fyrir mig.

Kveðja

Sæl og blessuð !

Takk fyrir fyrirspurnina.  Ég  get kannski ekki svarað þér ítarlega út frá þessari stuttu en áhugaverðu fyrirspurn en get gefið þér nokkur almenn ráð sem geta hentað til að styrkja samband foreldra við uppkomin börn sín.

Nú eru börnin þín orðin fullorðin og lifa sínu eigin lífi, þá er gott að setja sig í þeirra spor og rifja upp hvort samskipti þín við foreldra þína minnkuðu ekki aðeins þegar þú fórst sjálf að halda heimili.  Það er eðlilegt og partur af þroskaferli lífsins.  Þú ert ekki lengur í því hlutverki að setja barni lífsreglurnar, nú þarftu að átta þig á að börnin lifa sínu eigin lífi.  Ég ráðlegg þér að halda aftur af neikvæðum athugasemdum og ráðum um hvernig best sé fyrir þau að lifa lífinu.  Þau eru komin á þann aldur að finna út úr því sjálf. Dóttir þín veit örugglega af því ef henni hefur mistekist í skipulagningu á veislunni og sonur þinn veit örugglega líka af því ef hann átti að vera búinn að fara með bílinn í skoðun en er ekki búinn að því.   

Einbeittu þér frekar að því að hrósa börnunum þínum fyrir það sem þau eru að gera vel.  Þú gætir mögulega hrósað þeim fyrir að standa sig vel í barnauppeldinu, fyrir að standa sig vel í vinnunni, fyrir að elda góðan mat, fyrir persónueiginleika þeirra osfrv.  Ef þau biðja þig um ráð þá skaltu gefa þeim ráð en láta það ógert ef þau eru ekki að biðja um leiðsögn.  Segðu þeim frá því að þú sért til staðar fyrir þau, það er ekki víst að þau átti sig á því.  Hlustaðu eftir því sem þau segja án þess að dæma. 

Með samskipti milli foreldra og fullorðinna barna þeirra gildir gullna reglan um virðingu í samskiptum.  Sýndu þeim og þeirra lífstíl virðingu og þá aukast líkurnar á að þau sýni þér virðingu og vilji eyða meiri tíma með þér.  Bjóddu þeim heim og biddu þau um að gera skemmtilega hluti með þér án þess að biðja þau einungis um að hjálpa þér.  Þú veist hvað þeim finnst skemmtilegt að gera og það hefur ekki endilega breyst svo mikið þó þau séu orðin fullorðin.  Það gæti verið góð hugmynd að bjóða þeim í uppáhaldsmatinn þeirra og spila uppáhaldsfjölskylduspilið með þeim. Eða fannst þeim kannski bara skemmtilegast að sitja og spjalla í rólegheitunum við mömmu sína ?  Það eru góðar líkur á að þau verði meira til staðar fyrir þig og verði viljugri til að hjálpa þér með hin ýmsu viðvik ef þessum grunnþáttum er fylgt.  Það má a.m.k láta á það reyna

Gangi þér vel

Bestu kveðjur

Sólrún

Tengdar greinar