Beinþynning er algengur sjúkdómur hjá eldra fólki. Beinþynning stafar af ójafnvægi milli beinmyndandi og beineyðandi ferla og felur m.a. í sér skort á kalki í beinagrind. Beinþynning er þögull sjúkdómur þar til viðkomandi dettur og beinbrotnar. Algengustu beinbrotin sem beinþynning veldur eru í framhandlegg, lærleggshálsi, og í hryggsúlu. Við 75 ára aldur hafa um 40% íslenskra kvenna fengið slík brot og um 20% íslenskra karla1. Færni og lífsgæði fólks skerðast verulega eftir slík brot og endurhæfing getur tekið langan tíma.

Mælingar á beinþéttni

Beinþéttni er mæld með tæki sem notar röntgengeisla til að meta magn steinefna beins. Tæknin kallast DEXA (Dual-Energy X-ray Absorptiometry). Slík tæki mæla beinþéttni í hrygg og mjöðm og eru til á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Læknar heilsugæslu geta  vísað í slíkar mælingar. Aðrar stofnanir sem bjóða upp á beinþéttnimælingar með ýmsum aðferðum eru t.d. Hjartavernd og Heilsuklasinn.

Lífstíll hefur áhrif á beinþynningu – fyrirbyggjandi aðferðir

Lífsstíll hefur áhrif á beinþynningu og getur flýtt fyrir þróun hennar. Ýmsir sjúkdómar og lyf hafa einnig áhrif. Vannæring og hrumleiki eru dæmi um þetta en einnig raskanir á kalsíum og D-vítamínbúskap, skjaldkirtlisvandamál, kynhormónabúskapur, ýmis krabbamein og sykursterar (t.d. prednisolon) geta aukið beinþynningu. Til að fyrirbyggja beinþynningu er mikilvægt að stunda líkamsrækt þar sem högg verður á beinin við hreyfingu eins og göngur og styrktarþjálfun, borða næringarríkan mat ríkan af kalki og d-vítamíni og sleppa því að reykja.

Þegar beinþynning er komin getur styrktarþjálfun og jafnvægisþjálfun minnkað líkurnar á byltum og dregið úr beinbrotum. Mælt er með að eldra fólk fylgi ráðleggingum Landlæknisembættisins um inntöku D-vítamíns. Fyrir undir 70 ára er mælt með 15 μg (600 AE) og fyrir 71 árs og eldri 20 μg (800 AE)2. Hægt er að lesa ganglegar upplýsingar í afmælisriti Beinverndar frá 20173.

Notkun lyfja sem meðferð

Þegar beinþynning er komin er mælt með notkun lyfja. Algengustu lyfin eru bisfosfónöt sem hindra niðurbrot beina (dæmi Alendronat, Ostacid) sem eru tekin á fastandi maga einu sinni í viku eða með innrennslislyfjum einu sinni á ári (dæmi Zoledronic). Innrennslislyfin henta vel ef erfitt er að taka lyfin fastandi eða slæm magavandamál eru til staðar. Nýrnastarfsemi verður að vera nægilega góð til að nota bisfosfónöt.

Önnur lyf sem eru stundum notuð eru hormónauppbótarmeðferð hjá konum, kalkhormón (Forsteo) sem eykur nýmyndum beins og svo líftæknilyfið Denosumab (Prolia®). Lyfið er dýrt en það dregur úr niðurbroti og endurmyndun beins aðallega í frauðbeini (hrygg) sem veldur því að beinið styrkist og brotnar síður. Prolia® er gefið með sprautu undir húð á sex mánaða fresti eða tvisvar á ári og einstaklingar mega hafa verri nýrnastarfsemi en þegar bisfosfónöt eru notuð3.

1https://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/fraedsluefni/beingisnun-og-beinthynning/

2https://island.is/d-vitamin

3https://www.landspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Gagnasafn/Fraedsla/Byltur-og-byltuvarnir/T%C3%8DMARITSGREINAR_Afmaelisrit_%20Beinverndar_2017.pdf

Tengdar greinar