Maki á hjúkrunarheimili, á ég rétt á uppbót á greiðslur ? – fyrirspurn til félagsráðgjafa

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Sæl !

Nú hefur það stóra og erfiða skref verið stigið að eiginmaðurinn minn er kominn inn á hjúkrunarheimili. Ég er búin að kynna mér hvaða áhrif þetta hefur á hans lífeyrisgreiðslur.

En eftir stendur spurningin hvort ég eigi rétt á einhverri uppbót á mínar greiðslur frá Tryggingastofnun því eðlilega er erfiðara að sjá ein um reikningana á heimilinu ?

Kveðja X

Sæl og blessuð !

Takk fyrir að senda fyrirspurn á Aldur er bara tala. Já þú getur átt rétt á heimilisuppbót frá TR að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimilisuppbót er greidd til þeirra lífeyrisþega sem búa einir eða ef maki er á hjúkrunarheimili eða stofnun. Óskert heimilisuppbót getur í dag numið 77.787 kr á mánuði. Sótt er um á mínum síðum hjá TR eða í næsta útibúi Tryggingastofnunar. Nánari upplýsingar færðu með því að ýta HÉR .

Annað sem ég hvet þig til að skoða er hvort réttur sé til framlengingu lífeyrisgreiðslna eiginmanns þíns. Eins og þú hefur þegar kynnt þér falla greiðslur frá TR niður að mestu þegar hann hefur verið skráður á hjúkrunarheimilið.

Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum er hægt að sækja um að hann haldi fullum greiðslum í 3-6 mánuði en það er m.a ef mánaðarleg greiðslubyrði ykkar er umtalsverð. Ég hvet þig til að skoða hjá TR hvort þetta geti átt við í ykkar tilfelli.

Gangi ykkur sem allra best í að takast á við þessar breyttu aðstæður í lífinu

Kærar kveðjur

Sólrún

Tengdar greinar