„Allir eru að vinna að því sama og þá myndast einhver samheldni“

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Í gær birtum við viðtal við þjálfara í heilsueflingarverkefni fyrir 65 ára og eldri í Eyjum. En við ræddum líka við nokkra þátttakendur í verkefninu og heyrðum hvað þeir höfðu að segja um lífið í ræktinni og árangurinn af heilsueflingunni

“Held þetta hafi alveg bjargað mér í gegnum veikindin við að ná upp þreki aftur”

Þorsteinn Ingi Guðmundsson sem verður 70 ára í vor er búinn að vera í tvö ár í heilsueflingunni og segist finna rosalegan mun “Annars hef ég alltaf hreyft mig mikið og labbað á hverjum degi. Það er mikill munur eftir að þetta kom sérstaklega að vetrinum til að geta æft inni” segir Þorsteinn.

Doddi í fótapressu undir leiðsögn Erlings Richardssonar þjálfara

Þorsteinn segir að á miðju tímabilinu hafi hann lent í veikindum og þá hafi verið svolítið erfitt að koma sér af stað aftur en það hafi þó gengið hratt og hann hafi verið kominn á fullt áður en hann vissi af og það hafi verið gott að geta byrjað. Ég held þetta hafi alveg bjargað mér í gegnum veikindin við að ná upp þreki aftur segir Þorsteinn.

Er er munur á mælingum ? Ég datt náttúrumlega aðeins niður en ég er búinn að ná því upp aftur, það er hellings munur og líkamlega hef ég breyst, það eru meiri vöðvar og minna skvap og fita. Þetta hefur færst til segir Þorsteinn kíminn. Og svo reynir maður að laga mataræðið líka því það er farið í gegnum það.  Félagsskapurinn skiptir svo gríðarlega miklu máli, eins og yfir vetrarmánuðina þegar tíðarfarið er bölvanlegt og ekkert hægt að komast  neitt. En í vondu veðrunum hefur maður þó alltaf reynt að berjast í göngur og við látið okkur hafa það.

Þorsteinn hætti að vinna fyrir 5 árum síðan, var á sjó í yfir 40 ár og var svo að halda utan um stéttarfélagið Jötunn í 4 ár. Meðan maður er sæmilega hress er líka gott að geta notið þess aðeins, það er of seint þegar maður er búinn að slíta sér alveg út segir Þorsteinn að lokum og heldur ótrauður áfram við æfingarnar.

“Þá bara pússaði ég tækin en nú nota ég þau”

Elísabet Guðný Einarsdóttir 70 ára er búin að vera síðan verkefnið byrjaði eða á fjórða ár. Hún er búin að þurfa að taka sér aðeins hlé vegna veikinda en stendur alltaf upp aftur, ég mæti eins og Marteinn Mosdal hérna enn á ný segir Elísabet og hlær. Aðspurð hvað henni finnist þetta verkefni hafa gert fyrir sig segir Elísabet: Þetta styrkir mann allan bæði andlega og líkamlega. Félagsskapurinn er frábær, ég  er ekki alltaf í sama hóp, fer eftir hvenær ég vakna því við megum mæta þegar við viljum.  Hef nú verið að skutla stundum barnabörnunum í skólann í vetur þegar mesti snjórinn var og þá hef ég bara drifið mig af stað. 

Beta í tækjasalnum

Við þá sem eiga erfitt með að koma sér af stað segi ég: Fyrsta skrefið er rosalega erfitt en það gerir þetta enginn fyrir mann svo maður verður bara að gera þetta sjálfur. Ýta rassinum út fyrir þröskuldinn, þröskuldurinn er mishár en bara koma sér af stað.  Stundum sér maður ekki út fyrir þröskuldinn. en það þarf bara að halda áfram segir Elísabet.

Elísabet hætti að vinna 2019-2020 en hún var að vinna í íþróttahúsinu þar sem hún æfir núna. Þá bara pússaði ég tækin en var ekkert að fikta í þeim. Nú er ég að nota þau segir Beta eins og hún er jafnan kölluð.

“Búinn að styrkjast mikið á stuttum tíma”

Sigurður Georgsson 69 ára byrjaði í haust í heilsueflingunni. Hann vinnur hálfan daginn mest við flísalagnir og segir erfitt að hætta öllu í einu, það sé ekki alveg fyrir hann. Aðspurður hvort hann finni mun á sér eftir að hann byrjaði segir hann að þetta sé bara allt annað og þó hann sé að  vinna þessa vinnu að þá hafi vantað að hreyfa aðra liði. „Þetta breytir helling og ég er búinn að styrkjast mikið á svona stuttum tíma“.

Siggi tekur á því

Við erum að mæta í þreksalinn tvisvar í viku, höfum verið í Herjólfshöllinni en út af veðrinu höfum við líka verið í litla salnum í íþróttahúsinu og það er bara betra.  Svo eru æfingar í salnum hjá Ólu þjálfara í salnum á mánudögum. Þetta er mjög fínn hópur segir Siggi jákvæður og segist ekki hafa yfir neinu að kvarta

“Þetta er svo hvetjandi og félagsskapurinn skiptir næstum 100 % máli.”

Sigurrós Ingólfsdóttir er 72 ára,  Hún er búin að æfa síðan verkefnið byrjaði ásamt eiginmanni sínum Tómasi Njáli Pálssyni og finnur hún mikinn mun, þetta er æðislegt segir hún glöð í bragði og segir verkefnið mjög hvetjandi við að koma sér af stað, hún segist ekki viss um að hún myndi gera neitt ef hún ætti að koma sér sjálf og hefði ekki hvatninguna.

Ég er miklu styrkari og svo er ég svoldið kappsöm, þarf ekki alltaf að vinna en skora oft á sjálfa mig. Félagsskapurinn skiptir næstum 100 % máli, ég er ekki mikið út á við en það er svo yndislegt fólk hérna, allir eru að vinna að því sama og þá kemur einhver samheldni í þetta. Það eru allir að horfa á sama markmiðið og þetta er bara æðislegt. Það sannast líka hér að aldur er bara tala sagði Sigurrós að lokum.

Tengdar greinar