Öruggar útskriftir af sjúkrahúsum

eftir Guðný Stella Guðnadóttir

Í framhaldi af greininni um hvernig hrumt eldra fólk tapar oft færni á sjúkrahúsum og missir trúnna á að það geti bjargað sér heima við er mikilvægt að skoða hvernig hægt er að gera útskriftir öruggar. Einn af fimm einstaklingum sem eru 65 ára og eldri þarf endurinnlögn innan 30 daga eftir stutta dvöl á bráðamóttöku1 og eftir lengri dvöl að spítala allt að einn af fjórum – einn af þremur2.

Mín reynsla er að tímabilið eftir útskrift er oft mjög erfitt fyrir eldra fólk, sérstaklega þá sem eru hrumir og fjölveikir. Margir eru ennþá með sjúkdómseinkenni og þurfa meiri aðstoð en fyrir innlögn.

Þjónustunni heima við er skipt upp í annars vegar félagslega heimaþjónustu (stuðningsþjónustu) og hins vegar heimahjúkrun og á stórum hluta af landinu er þessi þjónusta ekki samþætt. Einnig er sjaldgæft að læknar hér á Íslandi fari í vitjanir sem veldur því að hrumir og langveikir eru oft sendir á bráðamóttöku við versnandi ástand.

Mikilvægt að huga að endurhæfingu samhliða bráðum veikindum

Til að gera útskriftir öruggari þarf að byrja inniliggjandi og tryggja að viðkomandi fái endurhæfingu samhliða bráðum veikindum, sem og eftir bráðafasa ef þörf krefur.

Hafa þarf samráð við sjúkling og ættingja og við heimahjúkrun og félagsþjónustu, svo aukinni þjónustuþörf sé mætt eftir útskrift. Inniliggjandi heildrænt öldrunarmat með meðferðaráætlun minnkar líkur á endurinnlögn3.

Í Reykjavík er búið að samþætta þjónustu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu og starfandi er endurhæfingarteymi í öllum byggðum sem tekur við meðferð einstaklinga strax eftir útskrift.

Árið 2020 voru 35% sjálfbjarga með enga þjónustu eftir slíka endurhæfingu og 53% voru sjálfbjarga að hluta og þurftu minni þjónustu en í upphafi4. Í endurhæfingarteymunum starfa iðjuþjálfar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, íþróttafræðingar, sjúkraliðar og félagsliðar ásamt möguleika á ráðgjöf frá næringarfræðingi. Einnig er hægt að koma viðkomandi að í endurhæfingateymi við versnun á færni. Svona teymi víðar myndu auka öryggi við útskriftir.

Mikilvægt er að tryggja læknisþjónustu í heimahúsum

Tryggja þarf aðgang að læknisþjónustu í heimahúsum. Sumir geta farið á sína heilsugæslustöð en stór hluti hrumra og langveikra getur það ekki eða á mjög erfitt með það.

Hægt væri hér á landi að vinna líkt og gert er með Heimaspítalanum í Borgholm í Svíþjóð sem ég hef áður skrifað um (sjá: Framtíðin er hér: Borgholmsmódelið sem fyrirmynd í heilbrigðisþjónustu við fjölveika aldraða5). Þar er forgangur á læknisþjónustu við hruma og langveika og alltaf hægt að tryggja vitjun læknis innan sólarhrings. Tekinn er frá klukkutími á dag milli 13 of 14 sem heimahjúkrun og sjúkraflutningafólk getur bókað í fram til 9.00.

Með slíkri þjónustu er hægt að skipuleggja vitjanir til áhættusjúklinga innan viku frá útskrift og auka öryggi útskrifta. Jafnvel má þá bjóða vitjun læknis í stað flutnings á bráðamóttöku þegar það á við.

Alþingi samþykkti nýlega aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024–20286. Það verða valin nokkur svæði á landinu til að prófa mismunandi tegundir af samþættri þjónustu og endurhæfingu í heimahúsum. Auk þess samþykkti ríkisstjórnin nýlega aukið fjármagn til heimahjúkrunar.

Við erum því að fara inn í nýja tíma í þjónustu heima við sem spennandi verður að taka þátt í.

Heimildir

1M. Klinge 2020: Readmission of older acutely admitted medical patients after short-term admissions in Denmark: a nationwide cohort study

2M.K. Pedersen 2017. Risk factors for acute care hospital readmission in older persons in Western countries: a systematic review

3M.H. Lin 2021. Factors associated with 14-day hospital readmission in frail older patients: A case-control study

4Reykjavíkurborg. Endurhæfing í heimahúsi. Samantekt á þjónustu 2020. https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/arsskyrsla_2020_endurhaefing_i_heimahusi.pdf?fbclid=IwAR0Ml1PCqtprWxMmuqa0UCBeE9bB7eQrgXOVNplfBmt_NP7X_6sq8XXMAI0

5https://www.aldurerbaratala.is/lifogheilsa/framtidin-er-her-borgholmsmodelid-sem-fyrirmynd-i-heilbrigdisthjonustu-vid-fjolveika-aldrada/?fbclid=IwAR339tkExvsY3FQgVA7SN7oJRNVSv7ZFiUoE8RJQntcopZjNfF2v6ZF63Rk

6https://www.althingi.is/altext/153/s/1351.html

Tengdar greinar