„Þið munið sjá trén, grasið og blómin vaxa á ný“. Hughreystandi skilaboð Ernu til íbúa La Palma

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Eins og flestir vita stendur nú yfir eldgos á spænsku eyjunni La Palma. Gosið er í eldfjallinu Cumbre Vieja og hefur það valdið gífurlegri eyðileggingu og hafa þúsundir eyjaskeggja þurft að yfirgefa heimili sín. Ákveðin líkindi eru með eldgosinu á La Palma og gosinu á Heimaey í Vestmannaeyjum árið 1973 þar sem þúsundir manna þurftu að yfirgefa heimili sín. En sem betur fer byggðist eyjan upp aftur þó íbúafjöldinn hafi aldrei náð þeim fjölda sem var fyrir gos.

Á spænska fréttamiðlinum www.elpais.com má finna umfjöllun um Heimaeyjargosið og mjög hjartnæm og uppörvandi skilaboð frá Ernu Jóhannesdóttur til íbúa La Palma. Erna og Egill Egilsson eiginmaður hennar þurftu að flýja heimilið sitt ásamt barnungum syni sínum árið 1973 og flytja frá Vestmannaeyjum, þau segja það hafa verið dálítið skelfilegt. Þau höfðu þá hafið húsbyggingu en voru vakin upp með þeim fréttum þann 23. janúar 1973 að það væri farið að gjósa á eyjunni. Í kjölfarið þurftu þau og aðrir íbúar Vestmannaeyja að hraða sér niður á bryggju, í báta og flýja eyjuna. Goslokum var lýst yfir þann 3.júlí sama ár og eftir það fór fólk að týnast til baka og hefja uppbyggingu. Ekki allir komu þó tilbaka enda útlitið og staðan á eyjunni ekki góð og margir sem höfðu misst heimili sín.  Af 1350 húsum bæjarins, fóru 417 eignir undir hraun og aðrar 400 skemmdust að einhverju eða miklu leyti. Erna og Egill komu tilbaka ári eftir gos.

Erna segir við íbúa La Palma að hlutirnir verði betri, þetta verði allt í lagi.

„Ég hef séð hvað er að gerast á La Palma. Ég veit að þetta verður betra. Það lítur ekki vel út núna þegar hraunið flæðir en þetta verður í lagi, fólk mun sjá eyjuna sýna á ný. Þau munu sjá trén, grasið og blómin vaxa á ný. Þetta verður svart og mun ekki líta vel út í nokkur ár en þetta mun allt vaxa aftur, ótrúlega fljótt. Það er það sem við sáum hér. Hér var allt svart og aska út um allt en eftir nokkur ár fórstu að sjá græna litinn og nú er allt grænt“ sagði Erna í viðtalinu.

Hér að neðan má sjá viðtalið við Egil og Ernu á ensku með spænskum texta, viðtalið byrjar á mínútu 0:49 en á undan segir Páll Zóphaníasson sem var bæjartæknifræðingur í eyjum 1973 frá. Það er ljóst að samstaða fólks á engin landamæri og Erna og Egill skynja og skilja vel það sem íbúar La Palma þurfa að takast á við í dag og næstu árin.

Hér má sjá fréttina í heild og m.a viðtal við Kristínu Jóhannsdóttur forstöðukonu Eldheima-safnsins í Vestmannaeyjum

Tengdar greinar