Ertu á stöðugu narti eftir máltíðir ?

eftir Thelma Rut Grímsdóttir

Kannast þú við að borða máltíð og þegar hún er búin og þú finnur fyrir seddu að þig vantar samt ennþá eitthvað? Það vantar einhverja fyllingu. 

Sumir fara þá á nartið og ekkert virðist duga.

Það getur verið að einhverjir séu einfaldlega ekki að borða nóg í máltíðinni eða yfir daginn. Það sem er líklegra er að ef þú finnur fyrir nartþörf sé ástæðan að samsetning máltíðarinnar hafi ekki verið rétt.

Til þess að máltíðir standi vel með okkur, veiti okkur góða orku, næringu og gleði er gott að hafa nokkra punkta í huga.

  • Þegar við setjum saman máltíð er gott að hafa í huga að hafa eitthvað úr hverjum flokki hér að neðan. Þetta er ekki tæmandi listi yfir matvæli í flokkunum, heldur einungis hugmyndir. Gott er að reyna að huga að þessu fyrir flestar máltíðir dagsins. 
  • Öll þessi orkuefni gefa okkur orku og næringarefni. Við fáum mismunandi næringarefni úr mismunandi matvælum og þá er gott að huga að fjölbreytni. 
  • Það þarf líka að taka tillit til langana ef okkur finnst máltíðirnar sem við borðum ekki vera að gefa okkur næga fyllingu. Ef við hlustum aldrei á það sem okkur langar í þegar við borðum eru meiri líkur á að detta í nartið eftir máltíðir. 
  • Mörg matvæli eru blanda af þessum flokkum, en það getur verið gott að hafa þessa mynd sem viðmið. Tilbúnir réttir eru stundum samsettir með öllum þessum flokkum, en stundum þarf að bæta við t.d. grænmeti eða próteingjafa.

Nokkur dæmi um það hvernig er hægt að setja saman máltíð úr þessum flokkum: 

  • Heilkornabrauð + hummus + paprika 
  • Hafragrautur + hnetusmjör + banani 
  • Kartöflur + fiskur + grænmeti + smjör  
  • Vefja + kjúklingur + grænmeti + sósa
  • Baunaréttur: Hrísgrjón + baunir + grænmeti 

Prófaðu næst þegar þú setur saman máltíð að athuga hvort þú sért með eitthvað úr þessum flokkum !

Tengdar greinar