Áherslur Vinstri grænna í öldrunarmálum

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Vinstri grænir framboð eru einn af þeim flokkum sem svarað hafa spurningum Aldur er bara tala um áherslur í öldrunarmálum fyrir komandi kosningar.

Hvaða áherslur hafið þið varðandi lífeyrismál eldri borgara ?

Við viljum halda áfram að gera úrbætur á almannatrygginga- og lífeyriskerfinu til að auðvelda sveigjanleg starfslok og gerum fólki kleift að vinna lengur ef það vill og getur. Það þarf að draga úr skerðingum í þessum kerfum, enda eiga þau að grípa fólk, en ekki vera því til trafala.

Hvaða áherslur hafið þið varðandi þjónustu við eldri borgara í heimahúsum þegar færnin minnkar ?

Þjónusta við eldra fólk þarf að vera mun fjölbreyttari og fela í sér að fólk geti búið heima hjá sér með reisn. Umbylta þarf kerfinu þannig að aukin áhersla verði á heimahjúkrun og heimaþjónustu og dagdvalar- og hvíldarúrræði. Við þurfum að auka við sveigjanlega dagþjónustu og dagþjálfun á forsendum þeirra sem nota þjónustuna. Þessar breytingar munu draga úr þörf á hjúkrunarrýmum þó auðvitað verði áfram að tryggja nægt framboð þeirra. Þetta mun gera heilbrigðisþjónustu við eldra fólk bæði betri og skilvirkari.

Eru þið með áherslur hvað varðar forvarnir- og endurhæfingu fyrir eldri borgara til að halda færni sem lengst ?

Hæfing og endurhæfing eru lykilatriði hér, auk þess sem byrja þarf snemma að hvetja fólk til lífsstíls sem hvetur til virkni. Við viljum fjölga endurhæfingarúrræðum fyrir eldra fólk, og koma sjúkraþjálfun í ríkara mæli beint inn á heilsugæslustöðvarnar. Þá hafa vinstri græn í sveitarstjórnum hvatt til þess að sveitarfélögin hugi sérstaklega að tækifærum eldra fólks til hreyfingar og líkamsræktar.

Eruð þið með á stefnuskránni að fjölga hjúkrunarrýmum eða gera einhverjar breytingar hvað hjúkrunarheimili varðar ?

Tryggja þarf nægt framboð hjúkrunarrýma samhliða þess sem þjónsta í heimahúsum er efld. Það þarf að halda áfram að bæta núverandi húsnæði hjúkrunarheimila þannig að allir sem vilja búa í einbýli eigi kost á því. Þá er tímabært að endurskoða færni og heilsumats kerfið og samræma það meira en nú er alls staðar á landinu.

Tengdar greinar