Hver ræður?

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Þegar árin færast yfir finna margir fyrir vaxandi áhuga barna sinna og fjölskyldu til að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru s.s í hvernig húsnæði sé best að búa. Spurningar eins og: Er nú ekki kominn tími til að minnka við sig? Er ekki best að fara að minnka við sig dótið? Er ekki best að fara að sækja um að fara á elliheimili? Borgar sig nokkuð að vera að þvælast ein í langt ferðalag? Slíkar spurningar eru algengar. Spurningar sem eru oftast eingöngu sprottnar af umhyggju en hljóma stundum sem forræðishyggja.

Það hafa raunverulega verið gefnar út bækur um hvernig best sé að eiga samskipti við eldri borgara.  Þá er ekki verið að tala um samskipti við einstaklinga sem vegna andlegs heilsufarsbrests þurfa á leiðsögn að halda, heldur stálhraust eldra fólk.  En ættu samskiptareglur ekki í grunninn að vera þær sömu sama á hvaða aldri sem fólk er?  Góð samskipti á öllum aldursskeiðum byggjast á virðingu fyrir skoðunum og sjálfsákvörðunarrétti annarra og tillitsemi. Líka við þá sem eldri eru. 

En ættu samskiptin að breytast þegar árin færast yfir?  Eiga hinir eldri ekki bara skilið ennþá meiri virðingu eftir að hafa fara í gegnum þroskaferlið sem árin færa þeim og miðlað af sinni visku inn í líf þeirra sem yngri eru?  Skyldi ég verða annar persónuleiki eftir 20 ár og hugsa öðruvísi?  Eða verð ég sami persónuleikinn með sömu tilfinningar, vonir og þrár, bara eldri?  Hver skyldi þá fá að ráða yfir mér?  Ég sjálf takk fyrir, því aldur er bara tala. 🙂

Tengdar greinar