Eru einhver vítamín sem geta hægt á öldrunarferlinu ? – svar öldrunarlæknis við fyrirpurn

eftir Guðný Stella Guðnadóttir

Sæl Guðný Stella !

Eru einhver vítamín eða bætiefni sem er mikilvægt að taka sem hægt geta á öldrunarferlinu? Ég er 60 ára gömul og er að reyna að gera það sem ég get til að verða hress á efri árum. Ég fer í gönguferðir daglega og borða holla fæðu en langar að vita hvort það sé eitthvað sem ég get bætt við ?

Kveðja

Sæl og takk fyrir spurninguna !

Niðurstöður flestra rannsókna benda til að inntaka vítamína og fæðubótarefna hægi ekki á öldrunarferlinu hjá einstaklingum eftir sextugt ef að viðkomandi borðar almennt holla fæðu og hreyfir sig reglulega. Stór evrópsk rannsókn á yfir 2000 manns hefur skoðað samband D-vítamíns og omega-3 og styrktarþjálfunar á 5 svið heilbrigðis hjá einstaklingum yfir sjötugt. Þau svið sem voru skoðuð voru áhrif á slagbilsþrýsting, þanbilsþrýsting, beinbrot vegna beinþynningar, líkamlegt atgervi, sýkingartíðni og vitræna getu. Niðurstöður benda ekki til að vítamin bæti við árangur holls matarræðis og líkamsþjálfunar til að bæta vitræna getu, líkamlegt atgervi og blóðþrýsting (1). 

Inntaka vítamína er nauðsynleg ef um skort er að ræða og á þetta sérstaklega við D-vítamin og B12 vítamín. Hjá fólki sem býr norðarlega á hnettinum líkt og á Íslandi og fær ekki mikið sólarljós er D-vítamín skortur það algengur að mælt er með inntöku þess til að stuðla að betri bein- og vöðvaheilsu. Landlæknisembættið mælir með 20 μg (800 AE) af D-vítamini á dag fyrir fólk yfir sjötugt (2). Ein teskeið af íslensku þorskalýsi inniheldur um 10 μg af D-vítamíni. 

Við minniskerðingu eða ef fæði er mjög einhæft hjá fólki á níræðisaldri og tíræðisaldri mæli ég með læknisskoðun hjá heimilislækni, þar sem farið er yfir matarræði og vannæringu og að vítamín og steinefni séu mæld i blóði þegar mat bendir til vannæringar.

Það er áhugavert núna á tímum kórónuveirunnar að sama rannsókn og rætt er um að ofan benti til að inntaka D-vítamíns og omega-3, sem lýsi er ríkt af, vinni hugsanlega á móti tíðni og alvarleika sýkinga.

Algengasta orsök lögblindu á Íslandi er hrörnun í augnbotnum. Vota afbrigðið felur í sér nýmyndun æða í augnbotni og blæðinga og veldur snöggri versnun á sjón. Ef að einstaklingur er með staðfesta þurra hrörnun í augnbotnum getur inntaka ákveðinna vítamína og andoxunarefna varið gegn þróun yfir í vota augnbotnahrörnun (3). Mælt er með að taka ákveðna skammta af C- og E-vítamínum, Zinki, Kopari og Beta Karóteni í samráði við augnlækna. 

Heimildir:

  1. https://cordis.europa.eu/article/id/428452-vitamin-d-and-omega-3-could-help-elderly-fight-the-coronavirus-and-other-infections
  2. https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item21468/Nyir_radlagdir_dagskammtar_(RDS)_fyrir_vitamin_og_steinefni
  3. https://www.laeknabladid.is/2005/07/nr/2065

Tengdar greinar