Má fara í afneitun gagnvart alzheimersjúkdómnum ?

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Mér náinn aðstandandi greindist með alzheimersjúkdóminn.  Viðkomandi var kominn á hjúkrunarheimili og mig sveið þetta sárt, ég hafði erfiða reynslu af sjúkdómi annars fjölskyldumeðlims og var bara ekki tilbúin í þetta.  Til að byrja með var ég upptekin af því að afsanna þessa greiningu.  Ég fór í heimsókn og var með yfirheyrslur. Hvað var í matinn í dag? Hefur einhver komið í heimsókn í dag? Hvernig var veðrið í gær? Niðurstaðan var bara sú að samtölin ollu vanlíðan hjá þessum aðila sem var faðir minn og ekki síður hjá mér sjálfri. Ég vissi líka innst inni að frá þeim afmælisdegi sem faðir minn hafði hætt að hringja í mig að eitthvað var ekki eins og það átti að vera.

Ég valdi samt að vera bara áfram í afneitun, hætta að hugsa um þennan Alzheimer og njóta stundanna með honum. Ég valdi að hafa stundirnar jákvæðar og skemmtilegar.  Fara í bíltúra, tala um gamlar skemmtilegar minningar. Setja græjurnar í bílnum í botn og hlusta á íslensk sönglög og Kristján Jóhannsson uppáhaldssöngvarann okkar beggja.  Við áttum minningu um að hafa farið á tónleika saman á Akureyri með honum og ræddum það oft. Við ræddum um skellibjöllulætin í mér þegar ég var lítil stelpa. Ég sagði honum sögur af börnunum mínum eða tók þau með. Hann sagði mér sögur af sjósundinu sem hann stundaði sem ungur maður og frá því þegar hann var að stríða systrum sínum. Við hlógum og höfðum gaman, það þurfti ekki að ræða það sem var að gerast fyrr í dag eða í gær, það skipti nákvæmlega engu máli.  Húmorinn skipti miklu máli í okkar samskiptum og minningarnar sem eftir standa eru ljúfar. 

Já það má vera í afneitun, það er auðvitað ekki alltaf hægt en það má alveg stundum setja sjúkdómsgreininguna til hliðar, einblína á einstaklinginn sjálfan og njóta þess sem hægt er að njóta þá stundina, í gleði og kærleika.  

Tengdar greinar