Fann upp orðið hrekkjavaka

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Þetta viðtal birtist á fésbókarsíðu Hjúkrunarheimilis Markar. Guðbjörg R. Guðmundsdóttir tók viðtalið

Ragna Ragnars er þýðandi og túlkur. Hún var í Frakklandi og lærði ýmsar hliðar á málinu svo sem þýðingar og lauk þar prófi frá Sorbonne háskóla.

Það er skemmtilegt að segja frá því að hún er sú sem kom með íslenska nafnið yfir halloween eða hrekkjavöku. „Ég þýddi í fjöldamörg ár bíómyndir fyrir sjónvarpið og þar var þetta orð, halloween, ítrekað að koma fyrir og mér fannst bara að ég þyrfti að finna eitthvað íslenskt orð sem ætti við. Ég hugsaði málið um stund og þegar ég var komin með orðið hrekkjavaka hringdi ég í vin minn sem var prófessor við íslenskudeild háskólans og spurði hvernig honum litist á. Hann sagði að hrekkjavaka væri fínt orð og þá var farið að nota það í kjölfarið.“

Aldrei haldið upp á hrekkjavöku

Þegar Ragna er spurð hvort hún hafi haldið upp á hrekkjavöku segist hún aldrei hafa gert það. „Ég bjó lengi í útlöndum en aldrei vestanhafs. Maðurinn minn Ólafur Egilsson var sendiherra og við vorum búsett bæði í London, París, Brussel, Kaupmannahöfn, Moskvu og Peking. Á þessum stöðum minnist ég þess aldrei að haldið væri upp á hrekkjavöku. Ég hef hinsvegar séð að þessi siður hefur á undanförnum árum blossað upp hérlendis. En ég hélt oft upp á öskudaginn sem er að hluta til sambærilegur og þá með að hengja öskupoka á kennarana og að slá köttinn úr sekknum.

Eftirminnilegast að búa í Moskvu

Áður en við sleppum Rögnu spyrjum við hvar hafi verið eftirminnilegast að búa á ferðum hennar um heiminn með Ólafi. Hún þarf ekki lengi að hugsa sig um. „Það var lang eftirminnilegast að búa í Moskvu.Við fluttum þangað um 1990 og þá var austurblokkin að falla og allt á hausnum. Þrátt fyrir það var menningarlífið öflugt, konsertar, listsýningar og leikhúslíf blómlegt og fólkið einstaklega gott og skemmtilegt. Heimilið okkar var bæði gamalt og sérlega fallegt en best var að flytjast heim með hausinn fullan af minningum.“

Tengdar greinar