Sorgin í aðdraganda jóla

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Margir eiga um sárt að binda á þessum dimma tíma ársins. Aðventan og jólin eru syrgjendum oft erfiður tími og jólaljósin ná ekki að lýsa öllum, þau ná ekki að lýsa þeim sem sakna og syrgja á sama hátt og hinum. Það er eðlilegt að í aðdraganda jóla verði söknuðurinn sárari og þeir sem nýlega hafa misst finna hvernig sorgin eykst með hverjum deginum þegar líður nær jólum.

Ekkert verður eins og það var og allar hefðirnar minna oft svo áþreifanlega á þann sem er farinn. En það má breyta hefðunum. Leyfðu þér að gera hlutina eftir þínu höfði og skapa þínar eigin hefðir. Rifjaðu upp góðu minningarnar og leyfðu þér að fara í gegnum þær tilfinningar sem koma. Það má alveg gráta, það hjálpar til við úrvinnslu sorgarinnar.

Gott er að nota aðventuna til að hlúa að sér og reyna að njóta þess sem hægt er að njóta. Þennan tíma má t.d nota til að kveikja á kertaljósum, horfa á góðar myndir, skoða myndaalbúmin, gera vel við sig í mat og drykk og dekri. Það þarf ekki að baka eða þrífa allt. Gerðu bara það sem þú treystir þér til en leyfðu öðrum að aðstoða þig. Við þurfum öll á stuðningi að halda til að komast í gegnum erfiða tíma. Gerðu það sem þú treystir þér til þegar þú treystir þér til þess og á þínum hraða.

Til þeirra sem vilja sýna stuðning

Við sem þekkjum einhvern sem er í sorgarferlinu í kringum jólahátíðarnar getum hjálpað til og boðið fram stuðning. Setningin „láttu mig vita ef ég get gert eitthvað“ skilar oftast litlu, því syrgjandinn áttar sig ekkert endilega á því sjálfur hvað það er sem getur létt undir.

Þú getur boðið viðkomandi í mat, á rafræna tónleika, boðið út í bíltúr eða göngu, slegið á þráðinn eða hvaðeina sem býður upp á samveru og stuðning. Þú gætir líka boðið fram aðstoð s.s við að pakka inn eða við að hengja upp jólaskrautið. Verum til staðar því sá sem syrgir hefur ekki alltaf frumkvæði að því að biðja sjálfur um stuðninginn.

Hér má skoða bækling sorgarmiðstöðvarinnar sem hefur að geyma fleiri ráð til að komast i gegnum hátíðarnar með sorgina sér við hlið : Jólin og sorgin

Tengdar greinar