Farsæl efri ár í Vestmannaeyjum rædd á þingi í Eldheimum

eftir Ritstjórn

Á síðasta miðvikudag var haldið framtíðarþing um farsæl efri ár í Vestmannaeyjum. Að þinginu stóð starfshópur sem skipaður var af Vestmannaeyjabæ til að vinna að framtíðarsýn í öldrunarþjónustu sveitarfélagsins. Ákveðið var að á fyrstu stigum vinnunnar væri mjög mikilvægt að fá að heyra um þarfir, hugmyndir og langanir fólksins sjálfs sem framtíðaráætlun og sýnin á að snúast um.

Markmiðið var einnig að skapa umræðu meðal áhugasamra um öldrunarmál og var fólki á öllum aldri boðið að mæta á þingið. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri setti þingið, Sólrún Gunnarsdóttir hjá Aldur er bara tala var með fyrirlestur um þær lýðfræðilegu breytingar sem eru að eiga sér stað með breyttri íbúasamsetningu en t.d eru íbúar 67 ára og eldri tæplega 16 % af íbúunum í Vestmannaeyjum í dag en hlutfallið var helmingi lægra fyrir 20 árum síðan. Það þarf því að huga að ýmsum áskorunum s.s hvernig hægt er að halda góðum lífsgæðum sem lengst og hvaða leiðir sé best að fara í heilsueflingu og þjónustu. Sólrún fór einnig yfir þá þjónustu sem Vestmannaeyjabær er að veita eldri borgurum í dag sem er umfangsmikil. Ragnheiður Geirsdóttir starfandi deildarstjóri í dagdvöl fór stuttlega yfir breytingar, stækkun og fyrirkomulag í dagdvöl.

Thelma Rós Tómasdóttir verkefnastjóri í öldrunarmálum hjá Vestmannaeyjabæ fór yfir lykilspurningar sem lagðar voru fyrir í 6 manna hópum á þinginu og kynnti framkvæmdina. Meðal umræðuefna var „Hvernig sérð þú farsæl efri ár fyrir þér“ ? „Hverjir eru kostir þess að lifa efri árin í Vestmannaeyjum“? „Hvað getur þú sjálfur gert til að stuðla að því að efri árin þín verið farsæl“? Ásamt því að spyrja hvernig fólk vilji sjá hina ýmu þætti þróast í sveitarfélaginu.

Hressilegar umræður sköpuðust á borðunum og margar góðar hugmyndir og punktar komu fram sem unnið verður úr og starfshópurinn mun nýta sem innlegg í vinnu við framtíðarsýn Vestmannaeyinga fyrir efri árin.

Þær Sólrún, Thelma og Ragnheiður skipa starfshópinn ásamt Kolbrúnu Önnu Rúnarsdóttur deildarstjóra stuðningsþjónustu.

Tengdar greinar