„Ég ráðlegg fólki að leyfa öllum tilfinningum að koma“. Viðtal við Kollu um baráttuna við krabbameinið og um félagið Krabbavörn

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Bleika slaufan er árvekniátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni fyrir krabbameini hjá konum. Í október ár hvert er bleikt þema til að minna á átakið. Í dag er svokallaður bleikur dagur en þá eru landsmenn hvattir til að klæðast bleiku og lýsa umhverfið upp í bleikum lit. Átakið er einnig fjáröflunarátak og er ár hvert fenginn hönnuður til að hanna hálsmen eða nælu sem tileinkuð er átakinu og seld.

Í átakinu í ár er lögð áhersla á að vera til. Lifum lífinu og verum til staðar þegar kona greinist með krabbamein og tilveran breytist snögglega. Árlega greinast um 850 konur með krabbamein og með bættum lífstíl og betri meðferðarúrræðum eykst alltaf hlutfall þeirra sem ná bata.

Mörg stuðningsfélög fyrir þá sem greinast með krabbamein eru starfrækt um land allt og ákvað Aldur er bara tala að kynna sér Krabbavörn í Vestmannaeyjum sem er mikið fyrirmyndarfélag sem stendur þétt við bakið á þeim sem greinast. Ekki var verra að við fréttum af henni Kollu sem er í stjórn félagsins og ekki er annað hægt en að dást að þeirri staðfestu, dugnaði og jákvæðni sem hún hefur sýnt í baráttu sinni gegn meininu.

Við fengum að ræða aðeins við hana Kollu eða Kolbrúnu Önnu Rúnarsdóttir um Krabbavörn og baráttu hennar við krabbameinið.

Hvaða hlutverki gegnir félagið Krabbavörn ?

Krabbavörn hefur það hlutverk að styðja við þá einstaklinga sem greinast með krabbamein í Vestmannaeyjum og aðstandendur þeirra. Krabbavörn í Vestmannaeyjum er svæðisfélag sem er undir Krabbameinsfélagi Íslands.

Félagið hefur einnig það hlutverk ásamt Krabbameinsfélagi Íslands að stuðla að þekkingu og menntun um krabbamein og krabbameinsvarnir, efla krabbameinsrannsóknir, m.a. með söfnun og vísindalegri úrvinnslu upplýsinga, beita sér fyrir leit að krabbameini á byrjunarstigi, styðja framfarir í meðferð krabbameina og umönnun krabbameinssjúklinga. Krabbavörn stendur fyrir kaffi alla þriðjudaga og einnig var settur á fót sérstakur karlahittingur. Í stjórn félagsins er einvala lið af góðum konum sem hjálpast að við að halda félaginu og starfsemi þess gangandi.

Hvað er Krabbavörn að gera í tilefni af bleikum október ?

Krabbavörn í Vestmannaeyjum stóð í gær fyrir bleiku boði á veitingastaðnum Einsa Kalda. Glæsilegur matseðill var og rann hluti af verði matarins til Krabbavarnar. Síðan vorum við með styrktarhappdrætti þar sem veglegir vinningar voru í boði
Síðan voru tónlistaratriði og salurinn fullur af konum en það seldist mjög fljótt upp á viðburðinn. Stemningin var hreint út sagt frábær.  Krabbavörn var einnig að selja fána með bleiku slaufunni til fyrirtækja í bænum og rann ágóðinn einnig til Krabbavarnar.

Hver er þín saga sem tengist baráttu við krabbamein ?

Ég greinist með brjóstakrabbamein vorið 2019 og fer í brjóstnám í kjölfarið. Eftir aðgerðina tók við  bið þar sem þurfti að greina meinið. Biðin er erfiðust, þegar maður veit ekki hvernig þetta verkefni verður. Það kemur svo í ljós að ég er með   „multifocal ífarandi ductal cancer“, gráðu 2, brjóstakrabbamein . Æxlið sem var í brjóstinu er hormónaháð og því þarf að bæla niður allt hormón í líkamanum og var ég sett á lyf  sem ég mun taka næstu 10 árin. Annað sem kom í ljós er að ég er með BARDI 1 erfðabreytingu sem eykur líkur á að fá þetta brjóstakrabbamein og einnig krabbamein í eggjaleiðara, og þurfti ég því að gangast undir aðgerð þar sem eggjaleiðarnir voru teknir.  Þetta er mikið inngrip og erfiðar aðgerðir og það tekur líkamann tíma að jafna sig.

Hvað hefur þú verið að gera hvað varðar heilsuna otil að vinna í bata ?

Ég hafði verið að æfa crossfit áður en ég greindist með krabbann og fannst mjög erfitt að geta ekki farið á æfingu. Á tímabili leið mér ekki vel, ég var döpur og vildi helst bara vera upp í sófa og hitta sem fæsta.  Ég byrjaði svo í sjúkraþjálfun hjá Hildi Sólveigu og fór reglulega út að ganga til að koma þolinu upp aftur, því eftir svona aðgerð verður maður mjög þollítill.  Batinn eftir aðgerðina gekk ágætlega, fyrir utan að ég var að glíma við sýkingar í skurðinum í nokkrar vikur.

Það var svo í desember sem ég prófaði að fara aftur á æfingu, það gekk ekki alveg nógu vel, mér var virkilega íllt í skurðsvæðinu og ég þurfti að gefa þessu lengri tíma. 

Ég setti mér svo markmið í byrjun árs 2020 um hvernig ég ætlaði að vinna upp þrekið og styrkinn aftur, einnig fór ég að spá meira í næringu og vítamín og hef síðan verið dugleg að borða þannig að orkan sé góð.

Hvernig hefur það gengið ? Hefur þú verið að ná góðum árangri ?

Mynd: Kolbrún Anna Rúnarsdóttir og Birgir Nielsen í Galwey Run á Írlandi

Batinn gengur mjög vel, ég er á fullu í crossfit og byrjaði svo að hlaupa mér til ánægju seint á síðasta ári og hef tekið þátt í þremur hlaupum ( Puffin Run 5 km, Vestmannaeyjahlaupið 10 km og Galwey Run á Írlandi 10 km ). Greinarhöfundur getur greint frá því að sjá má Kollu flesta morgna í alls konar veðrum hlaupandi um bæinn fyrir allar aldir. Það er magnað að sjá og heyra hvernig henni tókst að vinna orkuna sína frá byrjunarreit upp í það að geta tekið þátt í langhlaupum innanlands sem utan.

Hvað getur þú ráðlagt öðrum sem lenda í því að fá krabbamein ?

Það er mjög erfitt að setja sig í spor þeirra sem greinast með krabbamein, því það er svo misjafnt hvernig fólk upplifir þetta, það er visst ferli sem fer af stað hjá manni, maður verður hræddur, hræddur um fjölskylduna sína, reiður yfir því að hafa fengið þetta verkefni, yfir í að maður ætli sko að sigra krabbann og bara allt þarna á milli.

Ég ráðlegg fólki að leyfa öllum tilfinningum að koma, þetta er allt eðlilegt. Við hjá Krabbavörn höfum stundum farið heim til fólks og kynnt fyrir því hvaða þjónustu við bjóðum upp á og svo koma oft þeir nýgreindu í kaffið til okkar og þar getur fólk rætt sína hluti og í hóp þar sem flestir hafa gengið í gegnum sömu hluti.

Kolla vildi að lokum koma því á framfæri fyrir þá sem vilja styrkja Krabbavörn að reikningsnúmerið er 582-26-2000, kt. 651090-2029 (krabbavorn@krabb.is)

Aldur er bara tala þakkar Kollu fyrir einlægt viðtal og fyrir að vilja deila sögu sinni. Víst er að margir geta tekið staðfestu hennar til fyrirmyndar hvort sem þeir hafa greinst með krabbamein eður ei. Við óskum Kollu og Krabbavörn velfarnaðar.

Tengdar greinar