Tilgangsmikil iðja eflir heilsuna!

Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu er heilbrigði einstaklings metið út frá líkamlegu, andlegu og félagslegu sjónarhorni og er það kjarninn í fræðum heilbrigðisstarfsfólks þegar verið er að meta heilsu fólks.

Í rannsókn á iðju eldri borgara kom fram mikilvægi þess að sú iðja sem mótar líf þeirra hafi tilgang fyrir þá, sé þýðingarmikil í daglegu lífi og í takt við þau hlutverk sem skipta þau máli í lífinu. Niðurstöðurnar sýndu mun á vali við iðju hjá kynjunum sem þarf að hafa í huga þegar verið er að móta þjónustu fyrir eldri borgara. Helstu niðurstöður verða kynntar hér í þessari grein.

Hlutverk og venjur

Lífsvenjur okkar mótast oft út frá þeim hlutverkum, venjum og iðju sem við tökumst á við yfir ævina. Þegar hlutverkum fækkar t.d. vegna þeirra tímamóta að verða eldri borgari og vera ekki lengur hluti af vinnuafli samfélagsins þá er mikilvægt að finna sér ný hlutverk sem teljast þýðingarmikil og veita lífinu og tilverunni tilgang. Við þurfum öll á því að halda að finna fyrir þeim drifkrafti innra með okkur á morgnana til að sjá tilgang í því að fara fram úr rúmi til að takast á við hversdaginn, líka á efri árum.

Heilsuefling gegnum iðju

Iðjuþjálfunarfræðin líta svo á að hægt sé að hafa áhrif á heilsu einstaklings með þeirri iðju sem hann sinnir. Iðja getur verið eitthvað sem þarf að gera, skiptir máli að geta gert eða það sem einstaklinginn langar til að gera. Oft tengjum við nauðsynlega iðju sem þarf að gera við athafnir eins og að sofa, baðast, klæðast og nærast. Iðja sem skiptir máli getur verið að hitta fjölskyldu og vini, hreyfa sig, sinna tómstundaiðju og að ferðast, á meðan iðja sem flokkast undir löngun getur verið að læra eitthvað nýtt á námskeiði, taka þátt í ákveðnum félagasamtökum eða fara í heimsókn á æskuslóðir. Einsleit og tilgangslítil iðja sem þarf að sinna dag eftir dag getur þannig haft neikvæð áhrif á heilsuna, þegar lítið af því sem við gerum nærir okkur andlega og veitir ánægju. Á meðan tilgangsmikil og skemmtileg iðja sem gleður getur haft jákvæð áhrif á heilsuna, veitt mikla ánægju og aukið lífsgæðin. Það má því með sanni segja að orka býr til orku og þá skiptir litlu hvort það sé orka sem myndast við að sinna tilgangsmikilli iðju eins og tómstundum, vera í skemmtilegum félagsskap eða stunda hreyfingu.

Persónumiðuð þjónusta

Áhugasvið einstaklings er því eitt af aðalatriðum í þjónustu iðjuþjálfa þegar verið er að útbúa endurhæfingaráætlun, þjónustuáætlun eða æfingaráætlun sem á að hafa það markmið að efla heilsu einstaklings. Almennt nýta iðjuþjálfar matstæki sem kallast Iðjusaga (e. occupational performance history interview) til að fá heildarsýn á lífsögu einstaklings, venjur hans og þau hlutverk sem hann hefur sinnt yfir ævina. Það veitir skilning á þeirri iðju sem hefur mótað og einkennt líf hans og félagsskap, jákvætt og neikvætt. Einnig þarf að taka tillit til og skoða upplifun einstaklings af því að framkvæma iðjuna og ánægju hans með eigin frammistöðu þar sem þær upplýsingar gefa ákveðna innsýn í upplifun einstaklings af því að sinna iðjunni og gera iðjuþjálfar það með matstækinu Mæling á færni við iðju (e. canadian occupational performance measure).

Þessar upplýsingar veita tækifæri á að móta þýðingarmikil markmið og þjónustuáætlun sem er sérsniðin að þörfum einstaklingsins, í takt við þá iðju sem hann hefur gert og langar að gera eða geta gert. Þessu ferli má líkja við að fara til klæðskera og því líkleg til ávinnings fyrir heilsuna með heildrænni nálgun.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt áherslu á að hægt sé að efla heilsuna með því að sinna iðju sem hefur mikla þýðingu fyrir einstaklinginn og er í takt við gildi hans, sem eykur einnig lífsgæðin. Hugtakið hrumleiki er ætlað að lýsa mikilli færniskerðingu hjá einstaklingi sem á sér stað líkamlega, vitrænt, andlega og félagslega. Slík færniskerðing veldur alvarlegum heilsubresti, gerir einstaklinginn viðkvæman gagnvart álagi og streitu og ýtir undir mikla kyrrsetu sem getur leitt af sér félagslega einangrun og þunglyndi.

Til að sporna gegn eða draga úr færniskerðingu hjá einstaklingi er mikilvægt að skapa tækifæri innan samfélagsins til að sinna iðju sem er tilgangsmikil fyrir hann og hans lífsvenjur með fjölbreyttri þjónustu og nauðsynlegum stuðningi og hvatningu.

Niðurstöður rannsóknar

Rannsókn á hrumleika og heilsueflingu eldri borgara, karla og kvenna, leiddi í ljós að gagnlegt sé að skoða samhengið milli hrumleika og þýðingarmikillar iðju hjá karlmönnum en hjá konum þurfi að skoða iðju sem er þeim þýðingarmikil en einnig hvernig þær upplifa eigin frammistöðu við að framkvæma iðjuna.

Hrumleiki skapar óöryggi og ýtir undir iðjuleysi vegna ótta um að slasast eða lenda í vanda. Fram kom að tómstundaiðja sem ýtir undir líkamlega hreyfingu dregur úr líkum á hrumleika og að karlmenn eyddu almennt meiri tíma í tómstundaiðju yfir daginn en konur. Eldri konur voru líklegri til að velja tengsl og samskipti við fjölskyldu og að sinna heimili sem tilgangsmikla iðju. Þær nýttu því meiri tíma yfir daginn í að sinna húsverkum sem þær tengdu við hlutverkið að vera hússtjórnandi.Frammistaða þeirra við að sinna þeirri iðju hafði einnig mikið vægi hjá þeim.

Fyrir bæði kynin var ánægja mikill hvati fyrir því að sinna iðju og hlutverkum. Sérstaklega iðja sem ýtti undir þá tilfinningu að hafa tilgang, hlutverk og að vera að nýta tímann sinn til gagns. Þjónusta sem byggir á því að aðlaga iðju og það umhverfi sem hún fer fram í getur því reynst gagnleg nálgun við að efla heilsu eldra fólk sem er orðið hrumt, lífsgæði þeirra og ánægju með eigin frammistöðu við framkvæmd iðju.

Vert er að taka fram að höfundur þessarar greinar fékk sambærilegar niðurstöður í rannsókn sinni á upplifun eldri karlmanna af því að vera búsettir á öldrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu sem hún framkvæmdi tengt meistaraprófsritgerðinni „Þegar heilsan brestur þá breytist margt„.

Iðja skapar tækifæri

Það má því gleðjast yfir því að breytingar á tilgangsmikilli iðju veitir tækifæri á að halda áfram að iðka það sem gefur lífinu gildi og gæði, draga úr hættu á hrumleika og efla um leið heilsuna og færnina. Það má því flokka það sem einstaklega góða fjárfestingu að nýta þjónustu iðjuþjálfa, fjárfesting sem ávaxtar sig með margvíslegum hætti. 

Akaida, S., Tabira, T., Nakai, Y., Maruta, M., Taniguchi, Y., Tomioka, K., Sato, N., Wada, A. og Makizako, H. (2023). Are satisfaction and performance of meaningful activities associated with frailty in older adults? Archives of Gerontology and Geriatrics, 105, 104847. https://doi.org/10.1016/j.archger.2022.104847

Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir. (2014). Þegar heilsan brestur þá breytist margt. Upplifun aldraðra karlmanna af búsetu á öldrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu [Meistararitgerð, Háskóli Íslands]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/17822

Lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007.

Tengdar greinar