Sjö góð ráð við svefnleysi

eftir Soffía Eiríksdóttir

Svefnmynstur okkar breytist í gegnum lífið og um helmingur fólks upplifir einhver svefnvandamál á lífsleiðinni. Með aldrinum aukast líkur á að við upplifum svefnlausar nætur, þörf fyrir svefn minnkar og svefnmynstur okkar breytist, minna er um djúpsvefn þannig að þó að við sofum upplifum við að nóttin hafi gefið lítinn svefn. Einnig gera tíðari klósettferðir oft það að verkum að við vöknum oftar(1).

Ef þú átt í vandræðum með svefninn eru hér eru sjö ráð sem gætu gagnast þér í barráttunni við koddann á kvöldin.

1. Dagleg hreyfing

Hreyfing og líkamleg áreynsla bætir svefninn og getur virkað jafn vel og svefnlyf við svefnleysi.  20- 30 mínútur af rösklegri hreyfingu á dag getur gert undraverk fyrir svefninn.

2. Notaðu svefnherbergið einungis til að sofa

 Það getur verið freistandi að liggja upp í rúmi og horfa á sjónvarp eða lesa, en ef þú átt í vandræðum með svefn, er mikilvægt að fara einungis upp í rúm þegar þú ert að fara að sofa. Ef þú sofnar ekki eftir 20 mínútur farðu þá fram úr aftur í stað þess að bylta þér í lengri tíma. Farðu svo aftur upp í rúm þegar þig syfjar.

3. Ekki leggja þig yfir daginn

Ef þú ert ekki að fá nægan svefn á nóttunni getur skapast vítahringur þar sem þér finnst þú verða að taka síðdegisblund. Þannig skapast enn frekari óregla á svefninum.  Reyndu því að forðast það og hafa t.d. eitthvað fyrir stafni á þeim tíma sem þú veist að svefninn sækir að, farðu út í göngutúr, bjóddu fólki í heimsókn eða skipuleggðu e-ð sem þú veist að heldur þér vakandi.  Þetta getur verið erfitt en margborgar sig á endanum.

4. Farðu alltaf á fætur á sama tíma.

Til að skapa góða og stöðuga dægursveiflu er mikilvægt að fara alltaf á fætur á sama tíma á morgnana þrátt fyrir að þú hafir farið seint að sofa kvöldið áður.

5. Takmarkaðu skjátíma á kvöldin

Blátt ljós úr tækjum eins og GSM símum, spjaldtölvum, tölvum hefur áhrif á dægursveiflu okkar. Mikil notkun slíkra tækja getur seinkað því að þú náir að sofna og þurfir að sofa lengur á morgnana. Því er gott að takmarka notkun þeirra á kvöldin.

6. Ekki borða þunga máltíð seint á kvöldin

Ef líkaminn er á fullu við að melta þungan mat eigum við erfiðara með að slaka á og sofna. Hugaðu að því hvenær þú borðar og hvað þú ert að borða.

7.  Skildu áhyggjurnar eftir frammi

Áhyggjur og hversdaglegt amstur getur verið að naga mann langt fram á nætur. Reyndu að draga línu og skilja slíkt eftir frammi í stofu. Gott ráð getur verið að skrifa á lítinn miða 3 hluti sem hafa verið ánægjulegir yfir daginn og setja á náttborðið. Ef að hugurinn fer á flakk beinist hann frekar að því sem gleður en því sem angrar og þú nærð að slaka betur á.

Tengdar greinar