Hvernig er að eldast? – Geir Jón Þórisson með sitt sjónarmið

eftir Geir Jón Þórisson

Þegar ég lít til baka finnst mér lífskeið mitt ekki hafa verið svo langt. Þannig að mér finnst ég vera bara enn ungur og hress. En auðvitað er það blekkingin ein en ég vil þó halda í að ég sé bara enn hress. Kannski sé ég það best á börnunum mínum að ég er tekinn að eldast en er það bara ekki í lagi? Auðvitað er þetta gangur lífsins og ég þakka fyrir að fá að eldast og njóta þess sem lífið hefur gefið mér og vonina sem ég hef um að það gefi mér áfram fram á veg. En auðvitað er það ekkert sjálfsagt eða sjálfgefið að fá að eldast en ég er þakklátur fyrir það.

Á ákveðnum tímamótum í lífi mínu fór ég íhuga hvernig og hvar ég ætlaði að eyða síðasta hluta ævi minnar. Ég get skipt lífshlaupi mínu í fernt. Fyrstu 20 árin í Reykjavík síðan 19 ár í Vestmannaeyjum og svo aftur 20 ár í Reykjavík. Á loka árum mínum í Reykjavík var ég algjörlega sannfærður um að lokatímabilinu ætlaði ég eyða í Vestmannaeyjum. Ákvað að ljúka starfsferli mínum fimm árum fyrr en ég þurfti því Eyjarnar mínar toguðu svo rosalega fast í mig. Ég gat ekki og það kom aldrei til greina að hunsa þá einlægu sannfæringu. En hvers vegna? Því er auðsvarað. Þegar ég kom hingað fyrst fann ég sterka tengingu við fólkið, samfélagið og fegurðina.

Eftir að ákvörðunin var framkvæmd var ég fyrst tilbúinn að eldast. Eldast með mínu fólki enda alltaf staðið hjarta mínu næst. Hér á ég HEIMA.

Smáeyjar / Mynd: Ingi Gunnar Gylfason @ingi.photo
Geir Jón Þórisson / Mynd: althingi.is

Það vaknar upp spurning á þessum tímamótum í lífi mínu, get ég eitthvað gert, orðið að gagni fyrir samfélagið mitt og samferðafólk? Það gæti kannski verið. Ég lít á þetta allt sem verkefni, verkefni til að takast á við og ná árangri. Hvert gæti þá verið verkefnið? Þar stendur kannski hnífurinn í kúnni. Ég er viss um að við sem erum á seinni hluta æviskeiðs okkar höfum áfram verk að vinna. Þar dettur mér helst í hug að við gætum verið hvetjandi, sýnt þakklæti, jákvæðni, umburðarlyndi og eflt samfélagsandann. Ungt fólk þarf á hvatningu að halda. Þau þurfa að finna að okkur er ekki sama um þau. Þau hafa tekið við keflinu og kannski finnst okkur að þau eigi að feta í okkar fótspor en er það endilega rétt? Þau hafa og eru að finna sér sinn farveg sem við eigum að veita athygli. Þau eru að gera sitt besta og því eigum við að sýna áhuga. Hér höfum við svo sannarlega verk að vinna, við erum til staðar fyrir okkar glæsilega unga fólk og fyrir samfélagið okkar.

Mér er þakklæti í huga fyrir hvað okkar góða sveitarfélag hefur staðið myndarlega að því í mörg ár að efla starf okkar sem eldri erum. Starf félags eldri borgara í eyjum er myndarlegt og gefur okkur mikil tækifæri til að njóta efri áranna. Þetta skiptir miklu máli og þetta kunnum við vel að meta. Það er gott að eldast en vont að verða gamall. Því þurfum við að huga vel að andlegri og líkamlegri heilsu okkar svo efri árin verði okkur sem allra lengst ánægjuleg og skemmtileg.

Guð gefi okkur öllum gleðilega aðventu.

Geir Jón Þórisson

ánægður eldri borgari

Tengdar greinar