Forvitni

eftir Þórir N. Kjartansson
Þórir N.Kjartansson

Í barnæsku fannst mér ég heyra það á fullorðna fólkinu að forvitni væri frekar leiður eiginleiki. En í seinni tíð hef ég sífellt verið að sjá betur að svo er ekki. Forvitni er að mestu fróðleiksfýsn og áhugi á því sem er að gerast í kringum mann og sá sem ekki spyr missir af mörgu sem vert er að vita.  Sérstaklega sakna ég þess að hafa ekki spurt foreldra mína um ótal margt sem ég feginn vildi vita í dag. Margt frá þeirra uppvexti og yngri árum er mér hulið vegna þess að ég hafði ekki hugsun á að spyrja og allt í einu var það of seint.  Nokkrum sinnum hef ég lent í því að ætla mér að fræðast af mér eldri mönnum um áhugaverð málefni og atburði en dregið það of lengi og viðkomandi hvarf af sjónarsviðinu og tók með sér fróðleikinn undir grænu torfuna.

Í gegnum mitt aðal starf sem framleiðandi á íslenskum ullarvörum kynntist ég Tom Holton en hann var sá maður sem mestan þátt átti í að selja þessa vöru á Ameríkumarkaði.  Hann hafði einu sinni í vinnu ungan mann úr Vík sem ég þekkti auðvitað mæta vel. Ég spurði Tom einu sinni hvernig honum hafi líkað við strákinn.  ,,Alveg rosalega vel“ sagði Tom.  ,,Hann var svo forvitinn, hann þurfti allt að vita“.  Forvitnina taldi Tom Holton greinilega til mannkosta.Þess vegna vil ég segja við ungt og miðaldra fólk: Þið skuluð vera forvitin.  Spyrja foreldra ykkar og þá sem eldri eru um allt mögulegt sem ykkur kann til hugar að koma. Eins er með mína kynslóð sem nú er farið að kvarnast úr. Segið börnunum ykkar og yngra fólki frá fyrri dögum og minnisverðum hlutum sem fyrir ykkur hefur borið á lífsleiðinni. Ýmislegt sem kannski telst ekki til merkisatburða kann að verða að dýrmætum minningum hjá þeim seinna meir.

Vík í Mýrdal í desember 2020

Tengdar greinar