Eru eldri borgarar sérstakir ?

eftir Gísli Valtýsson

Þarf lög um eldri borgara, umfram aðra þegna samfélagsins? Er ekki með því verið að segja að eldra fólk þurfi eitthvað sérstakt ? Þarf sérstök lög til að eldra fólk fái t.d. læknisþjónustu? Tryggir ekki velferðarkerfið, sem allir greiða m.a skattana sína til, – rétt fólks til að fá þjónustu heilbrigðiskerfisins óháð aldri? Eiga ekki allir þegnar í okkar samfélagi að hafa möguleika á þaki yfir höfuðið?

Af hverju þarf sérstök lög til að tryggja eldra fólki samfélagsréttindi? Er ekki eldri borgari venjulegur þegn, þótt laun hans séu greidd úr eftirlaunasjóði/almannatryggingum?

Eldri borgarar eiga að hafa tryggð réttindi og hafa skyldur, eins og aðrir þegnar samfélagsins. Lög sem gera ekki ráð fyrir að eldra fólk sé öðruvísi en annað fólk. Eru málefnum eldra fólks betur komið innan félagsmálaráðuneytisins en heilbrigðisráðuneytis? Með því að málefni aldraðra heyri undir heilbrigðisráðuneytið er óbeint verið að segja að öldrun sé sjúkdómur. Allir vita að svo er ekki en vissulega vita jafn margir að öldrunarsjúkdómar eru til rétt eins og barnasjúkdómar og karlaveiki og konuveiki. Það er því hægt að velta upp þeirri spurningu hvort málefni aldraðra sé einhver sérstakur málaflokkur?

Á ekki eldra fólk rétt á því að fá virðingu samfélagsins rétt eins og aðrir og í samræmi við sitt lífshlaup? Með reisn mannsins og virðingu í huga verður að tryggja að einstaklingar, sem löggjafinn stimplar út af vinnumarkaði við 70 ára aldur, hafi tryggt sér eða séu tryggðir fjárhagslegir möguleikar til að njóta þess að lifa í samfélaginu. Eftirlauna einstaklingar verða líka að axla samfélagsábyrgð eins og aðrir. Það dugir ekki að kvarta bara á torgum.

Tengdar greinar