Mannfólkið verður kynverur þegar kynþroskaskeiðinu lýkur sem gerist hjá flestum í upphafi unglingsáranna. Það er þó ekkert samasem merki milli þess að vera kynvera og hafa löngun eða vilja til að stunda kynlíf því það er margt sem hefur áhrif á kynheilsuna og kynlífið. Það sem einkennir þó stóran hóp fólks á efri árum, sérstaklega elsta aldurshóp landsins er lítil umræða og fræðsla tengt kynlífi og kynheilsu þegar viðkomandi voru unglingar og ungmenni miðað við það aðgengi að upplýsingum sem ungt fólk hefur í dag. Það hefur vissulega ákveðna ókosti að vera ekki nægilega vel upplýstur um þessi málefni. Margir hafa þó nýtt sér tæknina síðustu ár til að sækja sér meiri þekkingu þar sem lítil þekking eykur hættuna á að einstaklingar missi af allri þeirri ánægju og vellíðan sem fylgir því að vera kynvera.


Áskorun að stunda kynlíf á hjúkrunarheimilum

Það sem stendur upp úr hjá mér tengt kynlífi og kynheilsu á efri árum er, að hafa í samstarfi við Siggu Dögg kynfræðing boðið upp á kynfræðslu á Hrafnistu þegar ég starfaði þar sem deildarstjóri. Salurinn fylltist af áhugasömu fólki á efri árum sem flest kvörtuðu yfir því að hafa fengið enga eða afar litla fræðslu um það málefni á sínum yngri árum. Í starfi mínu sem iðjuþjálfi á Hrafnistu veitti ég ráðgjöf tengt kynlífi á hjúkrunarheimili með maka. Það er iðja sem getur verið vandmeðfarin þegar einstaklingar eru með færniskerðingu, heilabilun eða búa á heimili sem veitir sólarhringsþjónustu inn á herbergi íbúa og mikilvægt næði stundum af skornum skammti. Ég veitti einnig þeim ráðgjöf sem höfðu farið í liðskiptiaðgerð, höfðu fengið krabbamein, voru með þvaglegg eða annað sem dró úr getu þeirra til að geta stundað kynlíf með maka sínum.

Það sem vakti athygli mína var umræða karla sem sögðust ekki skilja þörf kvenna til að nota öll þessi kynlífshjálpartæki sem eru í boði í dag. Að þeirra mati var það neikvæð breyting frá því áður þegar þess var ekki þörf á þeirra yngri árum. Ef þeir hefðu fengið fræðsluna þá myndu þeir skilja þetta allt svo miklu betur og vona ég að konur séu að leyfa sér að taka meira pláss í kynlífinu með hækkandi aldri, meiri reynslu og sjálfsþekkingu. Þessu málefni tengt þá vil ég nefna greinina tengt kynlífi á hjúkrunarheimili „Þörf fyrir kynlíf fylgir manneskjunni alla ævi“ sem er að finna inn á vefsíðunni Lifðu núna frá 2015.


Fullnæging er verkjastillandi

Talandi um hjálpartæki ástarlífsins þá er töluvert úrval í kynlífstækjaverslunum á Íslandi í dag. Það á ekki einungis við um raftækin heldur einnig alls konar búnað sem styður við hreyfingar og hjálpar til við að halda ákveðinni líkamsstöðu sem getur reynst áskorun ef líkamsstyrkur eða hreyfigeta er skert, ólar, rólur og fleira skemmtilegt. Það er gott að hafa í huga að kaupa tæki og búnað sem er léttur, ágætlega breiður til að ná góðu gripi og helst með sveigju eða sogskálum til að festa búnaðinn ef handstyrkur er lítill eða miklir verkir í höndum.

Það dásamlega við það að fá fullnægingu er að hún er verkjastillandi þar sem hún veldur samdrætti í líkamanum og slökun með auknu blóðflæði og gegnum þau vellíðunarhormón sem flæða um líkamann í kjölfarið. Það má því segja að kynlíf sé form af náttúrulegri verkjameðferð, sérstaklega fyrir konur sem geta fengið raðfullnægingar. Það er fleiri en eina fullnægingu á meðan kynlífið stendur yfir, kynlífshjálpartækin geta hjálpað til við að ná þeim sigri.


Hjálpartæki ástarlífsins í netverslunum

Mynd: www.shutterstock.com

Eitt af því jákvæða við aðstæðurnar í Covid-19 var að netsala tengt matvörum jókst töluvert til að draga úr smithættu og þar sem flestar kynlífstækjaverslanir bjóða upp á netverslun þá geta þeir sem hafa náð leikni í að versla á netinu pantað sér slíkan varning án vanda óháð búsetu. Það hentar einnig vel þeim sem vilja ekki láta sjá sig í slíkum verslunum og vilja frekar fá hann sendan heim í ómerktri pakkningu. Þegar það kemur að vali á kynlífstækjum þá er afar mikilvægt að prófa sig áfram til að finna það sem hentar hverjum og einum eða leita sér ráðgjafar. Kynlífshjálpartækin fást í mismunandi stærðum, gerðum, þyngd og áferð sem er nauðsyn því einstaklingar hafa ólíkar þarfir, langanir og áhuga þegar það kemur að kynlífi, sjálfsfróun og kynlífstækjum. Svo má ekki gleyma sleipiefninu sem er mótsvar við þeim þurrk sem myndast í slímhúðinni á efri árum en bleytan er mikilvægur þáttur í ánægjulegu kynlífi


Kynlíf á efri árum er ekki tabú

Opinská og heiðarleg umræða um heilbrigt kynlíf og kynheilsu verður til þess að auðveldara verður að aðlaga sig að breyttum þörfum og aðstæðum tengt þeim líkamlegu breytingum sem almennt fylgja breytingarskeiði kynjanna. Eins ef geta og löngun til að stunda kynlíf breytist vegna breytinga í blóðþrýstingi, út frá sjúkdómum, veikindum eða aukaverkunum frá nauðsynlegum lyfjum. Breytingarskeiðið hefur áhrif á líkamann og kynheilsu með ýmsum hætti og má stuttlega nefna þar mögulegan þurrk og eymsli í leggöngum og stinningarvanda. Það er þó ýmislegt sem hægt er að gera til að koma til móts við þessar breytingar með náttúrumlegum hætti en einnig með lyfjum eða hjálpartækjum. Svo má ekki gleyma að húðin er stærsta líffæri líkamans og ætti að vera stór hluti af þeirri nánd sem á sér stað í kynlífinu ásamt heilanum sem stýrir hreyfingum líkamans og þar sem tilfinningar myndast. Húðin er stútfull af taugaendum enda aðal skynjunarlíffæri líkamans og því ætti snerting að vera grunnurinn í kynlífi til að njóta þess í stað þess að einblína eingöngu á kynfærin.


Gagnlegar lausnir


Ýmis ráð og lyf eru til sem hafa þann tilgang að mæta breyttum þörfum líkamans og aðstæðum í kynlífi. Til að hlúa vel að góðri kynheilsu alla ævi getur reynst vel að leita sér ráðgjafar t.d. hjá lækni, hjúkrunarfræðingi eða iðjuþjálfa. Nýleg rannsókn sýndi m.a. fram á ákveðið forvarnargildi í Viagra gegn alzheimer sem hefur vakið heimsathygli og verður rannsakað enn frekar á komandi árum líkt og kom fram í grein á vefsíðunni Aldur er bara tala. Forvörn gegn áhrifum öldrunar tengist lífstíl og heilsu og nýtast þau einnig vel til að hlúa að góðu kynlífi og kynheilsu á efri árum. Forvörnin leynist í því að sinna reglulegri hreyfingu, takast á við vitsmunalegar áskoranir sem leynast t.d. í þrautum, handverki, námi og ferðalögum, borða næringarríka fæðu ásamt bætiefnum, halda góðum svefnvenjum og taka þátt í skemmtilegri samveru við annað fólk. Mögulega mætti bæta kynlífi sem tegund af forvörn gegn áhrifum öldrunar ef tekið er mið af þeirri hreyfingu og vitsmunalegu áskorun sem getur fylgt fjölbreyttu kynlífi. Auk þess sem kynlíf getur verið vöðvaslakandi og skemmtileg samverustund ef iðjan gleður og veitir vellíðan.


Kynlíf á efri árum á Netflix


Mig langar að benda áhugasömum á Grace and Frankie sjónvarpsþættina á Netflix með Jane Fonda og Lily Tomlin sem fjalla á skemmtilegan hátt um það að eldast og þann fjölbreytileika sem því fylgir þegar mennirnir þeirra koma út úr skápnum og fara í samband. Þriðja serían fjallar um þegar þær vinkonur ákveða að fara út í kynlífstækjarekstur þar sem fram kemur hversu mikil feimni fylgir oft umræðunni um kynlíf á efri árum.


Námskeið tengt kynlífi og kynheilsu á efri árum

Að lokum vil ég taka fram að í mars 2022 mun ég ásamt fleirum standa fyrir námskeiði um kynlíf eftir sextugt þar sem lögð verður áhersla á kynfræðslu, kynlíf, kynheilsu og hjálpartæki ástarlífsins. Námskiðið verður auglýst á heimasíðu Heimastyrks svo þeir sem hafa áhuga á að taka þátt ættu að fylgjast vel með. Einnig er velkomið að senda fyrirspurning á netfangið gudrun@heimastyrkur.is


Tengdar greinar