B12 vítamín og skortur á því

eftir Thelma Rut Grímsdóttir

B12 vítamín er vatnsleysanlegt vítamín, sem þýðir að það leysist upp í vatni og þegar líkaminn hefur nýtt það sem hann þarf skilst umfram magn út með þvagi. Líkaminn geymir smá birgðir af B12 vítamíni í lifrinni sem við getum nýtt ef við erum ekki að fá nóg úr fæðunni. 

B12 vítamín tekur þátt í myndun á erfðaefninu (DNA), eðlilegri blóðmyndun, frumuskiptingu og eflir taugakerfið.

B12 vítamín skortur er algengari hjá eldra fólki en hjá þeim sem yngri eru vegna þess að getan til að frásoga B12 vítamín virðist minnka með aldrinum. Einnig er meiri hætta á skorti hjá einstaklingum sem borða ekki dýraafurðir og eru ekki að taka B12 vítamín eða nota aðrar B12 vítamínbættar vörur. 

Helstu ástæður B12 vítamínskorts eru

  • Hár aldur 
  • Mikil áfengisneysla
  • Vegan mataræði og ekki fæðubótarefni
  • Magabólgur, sjúkdómar í meltingarvegi eða skurðaðgerðir á meltingarvegi
  • Skortur á intrinsic factor sem hjálpar til við upptöku á B12 vítamíni
  • Langtímanotkun ýmissa lyfja

Fæðutegundir sem innihalda B12 vítamín

B12 vítamín er helst að finna í dýraafurðum eins og t.d. Kjöti, innmat, feitum fiski, mjólk og mjólkurafurðum. En B12 vítamín er einnig að finna t.d. Í vítamínbættu morgunkorni, vítamínbættri jurtamjólk og í næringargeri. 

Einkenni B12 vítamínskorts koma aðallega fram sem

  • Einkenni frá blóði eða blóðmyndun, sem getur leitt til fækkunnar rauðra og hvítra blóðkorna sem getur komið fram sem þreyta og slen, aukin sýkingarhætta, auknir marblettir og blæðingar úr sárum.
  • Einkenni frá taugakerfi, svo sem skert hreyfigeta handa og fóta, dofi eða kitl í höndum og fótum, minnistap, sjóntruflanir, rugluð hugsun, ofskynjanir og rangskynjanir
  • Einkenni frá húð og slímhúð, eins og særindi á tungu og rýrnun á magaslímhúð sem getur leitt til niðurgangs, ógleði og uppkasta.

Lyf sem geta haft áhrif á upptöku B12 vítamíns

Langtímanotkun ýmissa lyfja getur haft áhrif á upptöku B12 vítamíns og þannig leitt til B12 vítamínskorts. Ef þú ert að taka þessi lyf að staðaldri getur verið gott að fylgjast með B12 vítamín gildum í blóði. Þessi lyf eru t.d.:

  • Metformin (Sykursýkislyf)
  • Omeprazol og önnur magasýruhemjandi lyf (notað við brjóstsviða og bakflæði)
  • Colrefuz (lyf við þvagsýrugigt)

Hvernig er B12 vítamín skortur greindur?

B12 vítamín er mælt í blóðprufu. B12 vítamín er oft mælt ef fólk fer reglulega í blóðprufur og er oftar mælt hjá eldra fólki vegna frekari hættu á skorti. Ef þú hefur einkenni B12 vítamínskorts, ert á lyfjum sem hafa áhrif á upptöku B12 vítamíns eða grunar B12 vítamínskort er um að gera að spyrja heimilislækninn hvort til séu nýlegar blóðprufur þar sem B12 var skoðað og athuga stöðuna á því. 

Meðferð við B12 vítamínskorti fer eftir hversu lágt einstaklingur mælist í blóðprufu og er undir eftirliti heilbrigðisstarfsfólks. Yfirleitt er mælt með B12 vítamín ríku mataræði ásamt B12 vítamín hleðsluskammti sem getur verið með B12 vítamín töflum eða sprautum þar til eðlilegu gildi er náð. 

Hvernig er hægt að reyna að koma í veg fyrir B12 vítamínskort?

  • Borða matvæli sem innihalda B12 vítamín eða eru bættar með B12 vítamíni. B12 vítamín er helst að finna í dýraafurðum t.d. Kjöti, innmat, feitum fiski, mjólk og mjólkurafurðum. Einnig í vítamínbættu morgunkorni, vítamínbættri jurtamjólk og í næringargeri. 
  • Taka B12 vítamín daglega ef þú ert í meiri hættu á skorti. Hægt að taka inn sem töflur eða sprey
  • Forðast mikla áfengisneyslu
  • Fylgjast með B12 vítamín gildi í blóði ef þú ert á lyfjum eða með sjúkdóm sem getur haft áhrif á upptöku, t.d. 1x á ári eða skv. ráðleggingum heilbrigðisstarfsfólks 
  • Leita til læknis ef þú hefur ekki þegar gert það vegna ómeðhöndlaðra meltingareinkenna 

Ráðlagður dagskammtur á B12 vítamíni er 2,0 µg á dag fyrir karla og konur eftir 10 ára aldur. Stundum er þörf á hleðsluskammti á B12 vítamíni ef um skort er að ræða og er það undir eftirliti heilbrigðisstarfsfólks. 

Heimildir

Embætti Landlæknis. (2013) Ráðlagðir dagskammtar af vítamínum og steinefnum. https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item21457/Radlagdir_dagskammtar_af_vitaminum_og_steinefnum_2013.pdf

Evidence-based-medicine consult. (2015). Medications known to decrease vitamin B12 levels. https://www.ebmconsult.com/articles/vitamin-b12-medication-interactions-lower-levels 

Nordic Council of Ministers. (2014). Nordic Nutrition Recommendations 2012. Part 3: Vitamins A, D, E, K, Thiamin, Riboflavin, Niacin, Vitamin B6, Folate, Vitamin B12, Biotin, Pantothenic acid and vitamin C. Nordisk Ministerråd. DOI: 10.6027/Nord2014-002

Tengdar greinar