Elsti áhrifavaldurinn ?

eftir Guðný Stella Guðnadóttir

Dagny Carlsson er sænskur bloggari sem er í dag 109 ára. Hún byrjaði að blogga þegar hún var að verða 100 ára eftir að hafa lært á tölvu hjá Elenu sem er enn þann dag í dag ritstjórinn hennar. Dagny hefur komið fram í fjölda viðtala í sjónvarpi og blöðum, skrifað bók, mætt í partý hjá ríka og fræga fólkinu og er vinsæl hjá ungu fólki í landinu.

Dagny er fædd i Kristianstad og vann sem saumakona. Hún skildi við fyrsta manninn sinn og giftist svo Henry Carlsson 1951. Henry dó 2004. Hún flutti fyrir rúmu hálfu ári á hjúkrunarheimili en bjó heima þangað til hún var orðin 109 ára. Hún kallar sig Baujuna, á sænsku Bojan eins og sést á blogginu hennar.

Stutta svarið hennar á hvernig er best að verða frísk hundrað ára manneskja er „að vera forvitin og hafa góð gen“.

Hún hefur líka sagt að hennar bestu 5 ráð séu:

1) að hreyfa sig á hverjum degi, a.m.k. 40 mínúta ganga

2) lesa mikið og halda heilanum í þjálfun

3) að borða hollan og fjölbreyttan mat

4) hitta indælt fólk oft og vera góð við annað fólk

5) ekki vera hrædd við að gera mistök

Hún er oft kjaftfor og óhrædd við að segja það sem henni finnst eins og sjá mátti í viðtali við Skavlan sem er frægur skandinaviskur þáttastjórnandi. Hún ber af sér góðan þokka og hefur mikla kímnigáfu. Hún virðist lifa eftir orðum sínum um að vera hreinskilin en jafnframt sýna fólki vinsemd og vera forvitin sem og að hafa ekki of miklar áhyggjur.

Hún hefur oft komið fram og gagnrýnt stjórnvöld fyrir að meðhöndla aldraða eins og fólk sem ekki gefur neitt til samfélagsins. Hún bjó lengi heima við og naut þá þjónustu heimahlynningar og heimahjúkrunar. Hún hefur oft talað mjög fallega um starfsfólk heimahlynningar og hvað þau veittu henni mikla gleði. Margir í þeim hópi eru af erlendum uppruna og Dagny hefur tekið þeim fagnandi.

Eins og áður sagði býr Dagny núna á hjúkrunarheimili. Elena ritstjórinn hennar skrifar því bloggið hennar núna. Dagny virðist halda áfram að prófa nýja hluti á hjúkrunarheimilinu svo sem jóga og box og státaði nýlega af að geta stundað leikfimi og styrktaræfingar í 60 mínútur.

Bloggið hennar Dagnyjar má sjá hér og fleiri greinar og viðtöl hér og hér

Nokkur skemmtileg myndbönd eru einnig um Dagnyju á youtube

Tengdar greinar