Ómetanlegt starf í þágu samfélags / viðtal við Björn Þór Ólafsson

Ólafsfjörður er blómlegur og fallegur bær. Óbilandi kjarkur og dugnaður hefur einkennt Ólafsfirðinga gegnum árin en ægifögur náttúran og oft óblíð veðrátta hefur líklegast haft mótandi áhrif á þá sem þar búa og styrkt þá. Það má líka segja að Ólafsfjörður hafi verið vagga margra skíðakappa í gegn um tíðina og í dag ætlum við að kynnast honum Birni Þór Ólafssyni (80 ára) íþrótta- og smíðakennara sem jafnan er kallaður Bubbi. Á nýársdag á þessu ári var hann sæmdur riddarakrossinum fyrir framlag til skíðaíþrótta, félagsmála og menningarlífs í heimabyggð. Í honum finnum við þessi sterku persónueinkenni, kjarkinn og dugnaðinn svo vel.

Við hittum Björn og konu hans Margréti fyrir nokkru á fallegu heimili þeirra sem skartar glæsilegu útsýni yfir Ólafsfjörðinn. Það var eitthvað svo áhrifaríkt að koma á heimili þeirra og finna bæði hlýjuna og kraftinn sem frá þeim stafar. Björn fæddist í Glaumbæ hjá móðurforeldrum sínum en foreldrar hans fluttu eftir fæðingu hans í Miðbæ til föðurforeldra hans. Þar bjó hann og 5 manna fjölskyldan á loftinu hjá ömmu og afa fyrstu sjö æviárin. Það er greinilegt að Björn á hlýjar og góðar minningar frá því að alast upp með ömmu sinni og afa og sagðist hann hafa verið svo heppinn að hafa átt tvö pör af þeim.  Hann greindi okkur frá því að hafa átt góða æsku, pabbi hans og hans ætt var öll frá Ólafsfirði en ætt mömmu hans frá Snæfellsnesi, Hann á tvo bræður en systir hans dó tæplega tveggja ára.

Afrekin í skíðaíþróttinni

Mynd fengin hjá Birni Þór Ólafssyni, tekin í apríl 1980 þegar hann varð íslandsmeistari í stökki í 10. skipti

Skíðin urðu fljótt mjög áberandi í lífi Bubba, allir voru á skíðum segir hann, krakkarnir tóku skíðin með sér í skólann og byggðu stökkpall við skólann úr snjó en síðan var farið út að stökkva í frímínútum. Það vildi nefnilega þannig til að barnaskólinn var í brekku. Skíðin voru líka oft notuð til að koma sér til og frá skóla.  

Bubbi vann fyrsta íslandsmeistaratitilinn aðeins 15 ára gamall í unglingaflokki, síðan kom fyrsti íslandsmeistaratitillinn í karlaflokki árið 1965. Hann varð 10x íslandsmeistari í skíðastökki og 11x íslandsmeistari í skíðagöngu og stökki, sem heitir norræn tvíkeppni og einu sinni í bolgöngusveit Ólafsfjarðar. Bubbi á því glæstan feril að baki í skíðaíþróttinni. Hann var og er mikill frumkvöðull og átti stóran þátt í uppbyggingu skíðaíþróttarinnar á Ólafsfirði, Hann kenndi skíðaíþróttina lengi vel og komu margir meistararnir í íþróttinni þaðan. Bubbi fór fyrir smíðanefndinni sem  stóð fyrir byggingu skíðalyftunnar sem tekin var í notkun 1978 og olli straumhvörfum hvað aðstöðu skíðafólks varðar. Bubbi fer enn á skíði þó áttræður sé og tekur m.a þátt í fjarðargöngunni svokölluðu sem er árleg skíðaganga á Ólafsfirði.

Íþróttakennarinn og smíðakennarinn Bubbi

Bubbi fór árið 1960 í íþróttakennaraskólann en hafði lítið farið í burtu frá Ólafsfirði á þeim tíma fyrir utan eina vertíð sem hann var í Keflavík. Hann gerðist síðan íþróttakennari við Hagaskóla árið 1961 í hálfri stöðu en komst síðan á samning í smíðakennaranum samhliða og gat fengið að sleppa einhverjum fögum út af íþróttakennaranáminu.  Skólastjóri Hagaskóla bauð honum síðan að starfa sem smíðakennari með íþróttakennarastöðunni eftir útskrift en honum langaði bara svo mikið norður og hafði þá tilfinningu að hann gæti kannski áorkað einhverju meira þar. En þar var að losna staða til tveggja ára sem hann stökk á til að byrja með. Þau hjónin tóku svo að sér forstöðu saman fyrir sundlauginni sem var ein staða.  Bubbi átti einnig eftir að fara í nám við íþróttaháskóla í Noregi 1973-1974 og kynnti sér þá m.a betur þjálfun í stökki og göngu.

Ástarfundur í Austurstræti

Bubbi og Margrét hittust fyrir tilviljun í Austurstræti, þegar hann var í námi í Reykjavík en hann fór oft niður í bæ á laugardögum og keypti helgarmoggann. Í eitt skiptið þegar hann var á leiðinni heim flautaði einhver á hann á gömlum jeppa og kallaði til hans. Það var þá strákur sem var með honum á skíðum í Jósefsdal, sem hét Guttormur, hann var með kærustuna sína í bílnum og vinkonu hennar Margréti. Þar með voru örlögin ráðin og hafa Bubbi og Margrét verið saman meira og minna síðan. Margrét er úr Reykjavík, af  Toft ættinni svokölluðu. Faðir hennar var danskur kaupmaður sem flutti til Íslands en var giftur þýskri konu, og var því töluð þýska á æskuheimili Margrétar. Krakkarnir töluðu við mömmu sína á íslensku en hún svaraði á þýsku og þau hjónin töluðu alltaf þýsku við hvort annað.

Um haustið  fluttu svo Bubbi og Margrét á Ólafsfjörð. Þau þurftu ekki að hugsa sig lengi um hvort þau vildu eyða ævinni saman, kynntust í apríl, fluttu norður í september og giftu sig 12.október. Bubbi segist eiga óskaplega góða konu og hún og börnin séu sín mesta gæfa í lífinu. Þau hjónin hafi átt sameiginleg áhugamál og hafi til dæmis gengið mikið á fjöll saman þegar þau voru yngri.  

Hjónin fluttu til að byrja með á efri hæðina hjá foreldrum hans en byrjuðu svo að byggja húsið sitt fljótlega og hafa búið í því síðan 1966.  Þegar búið var að steypa upp húsið voru fáir iðnaðarmenn sem þurftu að koma eftir það í vinnu, Björn sá um mjög margt sjálfur enda smíðakennari og með áhuga á framkvæmdum. Þegar þau fluttu inn var ekkert í loftum, steypa á gólfum, engar hurðar og engir skápar. Eitthvað sem sést minna af í dag.

Börnin öll viðriðin skíðaíþróttina

Bubbi og Margrét eignuðust þrjú börn Ólaf fæddan 1967, Kristinn fæddan 1972 og  Írisi fædda 1976.  Alls eru barnabörnin sjö og segir Bubbi þau hjónin vera svo ánægð með afkomendur sína þó auðvitað hefðu þau viljað hafa barnabörnin nær sér

Ólafur sonur þeirra varð 6x íslandssmeistari í skíðastökki og svipað oft í norrænni tvíkeppni og Kristinn varð sá skíðamaður sem náð hefur lengst á Íslandi en hann varð tvisvar sinnum númer tvö á heimsbikarmóti þar sem þeir bestu í heiminum kepptu. Íris keppti einnig lengi í alpagreinum.

Ólafur býr ásamt fjölskyldu sinni á Akureyri svo það er ekki svo langt að fara þangað en hin tvö búa ásamt fjölskyldum í Noregi. Bubbi og Margrét reyna að komast í heimsókn þangað amk einu sinni á ári og hafa eftir að þau urðu eldri borgarar tvívegis farið út yfir vetrartímann. Þá leigðu þau sér litla íbúð og var sá tími mjög dýrmætur nálægt börnunum.  Auðvitað náðu þessi virku hjón að koma sér þar inn í hóp eldri borgara sem þau gátu skíðað með.

Virkur í öllu félagsstarfi og þýtur svo upp brekkurnar á hjólinu

Bubbi hefur verið mikið í kringum íþróttastarf í Ólafsfirði. Þegar hann kom heim úr námi var hann svo aktívur að hann tók að sér allt sem mögulega var hægt að gera. Stofnaði sunddeild, þjálfaði sund á vorin og fram á haust.  Var fótboltaþjálfari og körfuboltaþjálfari. Þetta voru mest ólaunuð störf og hann hefur til dæmis aldrei tekið pening fyrir skíðaþjálfun. Hann segist muna eftir að þeir hafi einhvern tímann viljað borgað fyrir notkun á bílnum. Hann var á launum hjá ríki og bæ í sínum aðalstörfum og segist vera þannig þenkjandi að vilja gefa af sér til samfélagsins án þess að taka fyrir það. Hann segir samfélagið á Ólafsfirði einstakt, fólk hafi alltaf verið mikið til í að vinna sjálfboðaliðastörf að ýmsum málum. Við værum ekki með stökkpallinn, skíðabrautina og sundlaugina nema fyrir velvilja og samhljóm fólksins hér til að leggja alla þessa vinnu í hlutina. Ungmennafélagið byggði til dæmis sundlaugina og gaf bænum.

Hann segist hafa eignast marga góða vini eftir allt þetta starf sitt en á móti var hann ekki alltaf mikið heima. En áhugamál Bubba voru fleiri en íþróttirnar hann var líka í kór, byrjaði fyrst 15-16 ára og svo aftur síðar og þá fór hann tvisvar í viku á Dalvík á karlakórsæfingar. Bubbi og Stefán bróðir hans hafa farið reglulega og tekið lagið á elliheimilum á Ólafsfirði, Siglufirði og Dalvík til að gleðja þá sem þar búa.

Þau hjónin taka þátt í starfi eldri borgara og hafa mikla ánægju af því. Bubbi segist vera stoltur af því að geta verið svona virkur eldri borgari, það sé ekki sjálfsagt. Þau hjónin eru dugleg að fara í gönguferðir og svo hjólar hann líka.  Hann segir að fyrir 20-25 árum hafi það þótt hálf skrítið þegar hann var að hjóla út um allt og hann hjólaði þá stundum gamla múlaveginn til Dalvíkur.  Nú séu allir á hjólum.  Bubbi fylgir auðvitað tækninni og í tilefni áttræðisafmælisins keypti hann sér rafmagnshjól svo nú þýtur hann upp brekkurnar og hjólar oft 15-20 km á dag. 

Pálshús er samstarfsverkefni heimamanna

Pálshús er eitt elsta hús bæjarfélagsins en það er í dag orðið safn, menningar- og fræðslusetur. Bubbi hefur síðustu sex árin ásamt fleiri heimamönnum unnið að því að koma því í sýningarhæft ástand og hýsir það í dag Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar og hina skemmtilegu grunnsýningu “Flugþrá”. Þar má skoða alla íslensku fuglaflóruna ásamt því að fjallað er um flugþrá mannsins og draum hans að geta flogið. Bubbi segir að hugmyndin sé svo að grafa út kjallarann og setja þar upp eins konar undraveröld fyrir börn.

Stálheppni hjónanna

Aðspurður segist Bubbi vera stoltur af því að hafa haldið sambandi við allt það fólk sem hann ólst upp með og vera enn í sambandi við nemendur sína, svona upp til hópa.  Hann segist alltaf hafa átt mjög gott með að umgangast börn og unglinga og haft gaman af.  Hann segir gott að vera eldri borgari á Ólafsfirði og vill meina að eldri borgarar í svona bæ verði sjaldnar einmana, fólk hlúi vel að hvort öðru.  Hann segir þau hjónin vera svo stálheppin að hafa verið frísk og því sé aldur bara tala í því samhengi. Þau eru mjög sátt við hversu gott líf þau hafi átt og getað gert ýmislegt en umfram allt verið hraust og fengið að njóta.

Tengdar greinar