Heimaspítalinn á Selfossi – grein Guðnýjar Stellu Guðnadóttur öldrunarlæknis

eftir Guðný Stella Guðnadóttir

Í janúar á þessu ári opnaði heimaspítalinn á Selfossi. Hann er byggður á Borgholmmódelinu sem ég hef skrifað um hér á Aldur er bara tala, sem og bráðavitjanateyminu við Sahlgrenska spitalann í Gautaborg. Heimaspítalinn er hugsaður fyrir annars vegar hruma og fjölveika aldraða og hins vegar fyrir fólk á öllum aldri sem er á líknandi meðferð.

Með því að veita meiri þjónustu heima við, jafnvel þjónustu sem hingað til hefur bara verið veitt á sjúkrahúsum, vonumst við á Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) til að þessir hópar finni fyrir meira öryggi og geti búið heima við lengur. Líklega minnkar þá þörfin á heimsóknum á bráðamóttöku og innlögnum. Það er a.m.k. reynslan frá Gautaborg og Borgholm.

Einnig er ætlunin að læknar og hjúkrunarfræðingar heimaspítalans styðji við lífslokameðferð í heimahúsum sem heimahjúkrun HSU Selfoss veitir, sé það ósk sjúklings.

Undirbúningsvinnan var mjög skemmtileg þar sem starfsfólk frá heimahjúkrun, bráðamóttöku, lyflækningadeild, félagsþjónustu, heilsugæslu og sjúkraflutningum kom saman í vinnustofum og ræddu hvernig þjónustu við viljum veita og hvernig gera megi betur.

Sérstaklega hefur starfsfólk heimahjúkrunar og félagslegrar stuðningsþjónustu í Árborg verið að hittast endurtekið og við vonumst til að geta samhæft þjónustu þessara aðila ennþá frekar

Bráðavitjanateymið er þegar farið af stað og var fjallað um það á stöð tvö nýlega 1).

Á næstu vikum mun heimahjúkrun HSU á Selfossi láta 50 einstaklinga sem eru með hjartabilun fá spjaldtölvur og þessir einstaklingar senda inn gögn um líðan og lífsmörk eins og blóðþrýsting og púls og þyngd. Þetta er samvinnuverkefni HSU og Öryggismiðstöðvarinnar sem nýtir tækni norska fyrirtækisins Dignio 2).

Með svona eftirliti má sjá strax ef versnun verður á líðan einstaklings með langvinnan sjúkdóm og þá bregðast við áður en þörf er á bráðamóttökuheimsókn.

Þá er það ósk okkar að heimahjúkrun sem HSU rekur og félagsleg stuðningsþjónusta sem sveitafélagið Árborg rekur auki ennþá frekar samvinnuna og við munum leita lausna sem veita möguleika á að samþætta gögn úr félagsþjónustu og heilbrigðiskerfinu líkt og verið er að vinna að í Fjallabyggð 3).

Heimildir

  1. https://www.visir.is/g/20232369660d
  2. https://www.vb.is/frettir/dregur-ur-kostnadi-og-baetir-thjonustu/
  3. https://www.origo.is/frettir/origo-og-fjallabyggd-undirrita-samstarfssamning

Tengdar greinar