Ég hef verið að pæla – Er rétt að flokka búsetu fólks eftir aldri?

eftir Gísli Valtýsson

Er rétt að flokka búsetu fólks eftir aldri? Nú er það mjög í tísku, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og reyndar annars staðar líka, að t.d. fólk eldri en 60 ára búi í sérblokkum eða fjölbýli og þar megi þeir sem yngri eru ekki búa. Hvers vegna skyldi eldra fólk vilja það? 

Jú það er víst ónæði af yngra fólki með börn. Eða er það ekki annars aðal ástæðan? Sumir segja að eldra fólk þurfi sérútbúnar íbúðir, þar sem það hafi oft einhverjar hreyfihamlanir og íbúðirnar þurfi að taka mið af því. Svo eigi eldra fólk meira sameiginlegt, bæði áhugamál og umræðuefni.

Hvers vegna í alvöru eru svona margir eldri borgarar, sem kjósa að búa í sérstökum húsum, en ekki meðal annars fólks á öllum aldri ? Hvað gerir okkur eldri borgara svona sér á parti?

Kannski verður framtíðin þannig að einhleypir karlar búa í sérstökum húsum, einhleypar konur í sérstökum húsum. Eða 20 til 30 ára líka í sérstökum húsum o.s.frv.

Ég held að eldri borgarar séu á villigötum hvað þetta varðar.

Gísli Valtýsson eldri borgari í Vestmannaeyjum

Tengdar greinar