Hugsar þú nógu vel um tennurnar þínar ?

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Nýlega hefur verið umræða í fjölmiðlum um tannheilsu aldraðra og sér í lagi bága stöðu íbúa á hjúkrunarheimilum þegar kemur að tannheilsu. Mikil áhersla hefur verið í gegnum tíðina á að kenna börnum og ungmennum að passa upp á tennurnar sínar með ýmsum ráðum . Minni áhersla hefur verið á tannheilsu fullorðins fólks enda líklegast gert ráð fyrir því að þeir fullorðnu kunni þetta allt saman.

Heilbrigði tanna skiptir miklu máli fyrir almenna heilsu og vellíðan fólks en rannsóknir benda til að eldra fólki geti verið hættara við t.d. hjartasjúkdómum og lungnabólgu ef munnurinn er illa hirtur. Ástæðan fyrir þessu er talin tengjast ákveðnum bakteríum í munnholi sem borist geta með blóðrásinni um líkamann (1).

Vönduð tannhirða er einmitt lykillinn að því að tennurnar endist út lífið. Þetta eru ekki flóknir hlutir, það þarf bara sinna þeim.

Tannvernd felst fyrst og fremst í því að venja sig á að borða hollan mat á matmálstímum og halda sykurneyslu í hófi, góðri munnhirðu og reglulegu eftirliti hjá tannlæknir. Nota ætti vatn sem svaladrykk, borða sem minnst af sætindum og velja holla sykurlausa millibita.

Rétt notkun á tannþræði

Hreinsun milli tanna með tannþræði er mikilvæg einu sinni á dag. Tannbursti kemst ekki alls staðar á milli tannanna.

Tannburstun kvölds og morgna

Gefa ætti sér tvær til þrjár mínútur til að bursta tennurnar í senn a.m.k kvölds og morgna. Ekki skal skola munninn eftir tannburstun til að flúorið virki lengur. Mælt er með því að nota mjúkan tannbursta með þéttum hárum og flúortannkrem.

Tannvernd á þremur mínútum

Í þessu bráðskemmtilega myndbandi þar sem m.a bræðurnir Jón Jónsson og Frikki Dór koma við sögu er minnt á ýmsa þætti sem gott er að hafa í huga til að passa upp á tennurnar sínar. Þetta er ekki flókið !

Við hvetjum að lokum alla til að fara reglulega til síns tannlæknis og láta yfirfara tennurnar. Það er betra að grípa inn í á frumstigum ef skemmd er að byrja að þróast heldur en að bíða með það.

Heimildir: www.landlaeknir.is og www.heilsuvera.is

Tengdar greinar