Heilsuefling aldraðra, niðurstöður skýrslu

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins (www.hrn.is) segir að starfshópur sem ráðherra fól að skoða leiðir til heilsueflingar aldraðra hafi skilað niðurstöðum sínum. Starfshópnum var falið að fjalla um fyrirkomulag samstarfsverkefna á sviði heilsueflingar sem gera öldruðum kleift að búa í heimahúsum eins lengi og kostur er. Sérstaklega skyldi horft til samstarfs og verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, en heilsuefling er mikilvægur þáttur í stuðningi við sjálfstæða búsetu og önnur lífsgæði aldraðra. Leiðarljósið í vinnu starfshópsins var að finna leiðir í þessum efnum sem eru til þess fallnar að auka lífsgæði aldraðra og stuðla að auknum lífslíkum við góða heilsu.

Starfshópurinn var skipaður Dagmar Huld Matthíasdóttur formanni, Birnu Sigurðardóttur, tilnefndri af félagsmálaráðuneytinu, Gígju Gunnarsdóttur, tilnefndri af Embætti landlæknis, Guðlaugu Einarsdóttur, Hlyn Hreinssyni, tilnefndum af fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Sigrúnu Ólafsdóttur, tilnefndri af forsætisráðuneytinu og Valdimari Víðissyni, tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. María Kristjánsdóttir var áheyrnarfulltrúi.

Framtíðarsýn og meginmarkmið til ársins 2030

Í skýrslunni eru sett fram metnaðarfull markmið fyrir næsta áratug. Markmiðin eru m.a að sveitarfélög móti sér stefnu og aðgerðaráætlun varðandi heilsueflingu. Að öldruðum verði boðið upp á reglulega fræðslu um heilbrigða lifnaðarhætti og hafi viðeigandi forsendur til að vernda og bæta eigin heilsu, að heilsueflandi samtöl séu framkvæmd í sveitarfélögum í samstarfi heilbrigðis- og félagsþjónustu, heilsueflandi móttökur séu til staðar á öllum heilsugæslustöðvum og hlutverk beggja þjónustuþátta gagnvart heilsueflingu aldraðra sé eflt. Markmiðið er einnig að öllum öldruðum sé gert kleift að búa við öryggi, sjálfræði, ástunda heilbrigða lifnaðarhætti og hlúa að sinni heilsu og líðan m.t.t. áhuga, heilsufars og færni hvers og eins. Að fylgst sé vel með heilsu og líðan aldraðra, lifnaðarháttum og félagslegum aðstæðum

Bætt heilsa er þjóðhagslega hagkvæm

Bætt heilsa aldraðra hefur ekki einungis jákvæð áhrif á líf þeirra sem hlut eiga að máli. Hún er einnig þjóðhagslega hagkvæm samkvæmt skýrslunni, þar sem aldraðir geta lengur búið í sjálfstæðri búsetu án stuðnings frá félagsþjónustu sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins. Fram kemur að aldraðir séu breiður hópur fólks með ólíkar þarfir, þar sem bæði eru einstaklingar með fulla færni til sjálfsbjargar og einstaklingar sem þurfa mismikla aðstoð vegna sjúkdóma eða fötlunar. Markmiðið sé að allir geti búið sem lengst heima og verið sjálfstæðir í lífi og starfi með þá aðstoð sem þeir þurfa hverju sinni hvort sem búið er í eigin húsnæði eða í einhvers konar þjónustuúrræði

Metnaðarfullt markmið um að ríki og sveitarfélög eyði gráum svæðum sín á milli

Eitt af markmiðum skýrslunnar er að ríki og sveitarfélög eyði gráum svæðum sín á milli. Grá svæði á milli ríkis og sveitarfélaga eru of mörg í dag enda eiga öldrunarmál, forvarnir og úrræði að snúast um að efla lífsgæði aldraðra sem best má vera og þar má togstreita á milli kerfa ekki standa í veginum. Í skýrslunni er bent á að ríki og sveitarfélög vinni sameiginlega að því að setja og tryggja gæða- og þjónustuviðmið. Markmiðið sé að öllum standi til boða sambærileg þjónusta óháð búsetu þannig að allir hafi sama möguleika hvað varðar stuðningsþjónustu, heimahjúkrun og endurhæfingu í heimahúsi

Í skýrslunni er sett fram sú tillaga að samstarf ríkis og sveitarfélaga varðandi heilsueflingu fyrir aldraða verði formgert enn frekar, þar með talið skipulag og fjármögnun slíks starfs enda hlýtur það að vera lykilatriði til að markmiðið nái fram að ganga að hafa það skýrt hver borgi fyrir hvað. Lagt er til að heilsueflandi, styðjandi og aldursvæn samfélög verði efld og til þess verði tryggt fjármagn. Einnig að ábati ríkis og sveitarfélaga af slíku forvarnarstarfi verði metinn.

Heilsueflandi samtöl

Meðal þeirra verkefna sem lögð er áhersla á í skýrslunni að sé unnin í samstarfi ríkis og sveitarfélaga er að komið verði á einstaklingsbundnum heilsueflandi samtölum fyrir aldraða í hverju sveitarfélagi. Samtölin hefjist í formi símtala eða skjáheimsókna og í framhaldi verði metin þörf fyrir frekari eftirfylgni og aðstoð. Framkvæmdin verði á hendi þverfaglegs teymis heilsugæslunnar og félagsþjónustunnar á hverjum stað.

Til að auka skilvirkni og gæði þjónustunnar er bent á að mikilvægt sé að samvinna sé milli þjónustuveitenda í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Í því skyni væri gagnlegt að fyrsta viðtal væri sameiginleg milli heilbrigðis- og félagsþjónustu þar sem þarfir einstaklings væru metnar þverfaglega út frá einstaklingsmiðaðri en heildrænni sýn.

Markviss þjálfun og heilsuefling eru mikilvæg forvörn

Fram kemur að mikill árangur hafi náðst með markvissri hreyfingu og heilsueflingu eldri aldurshópa en gera megi enn betur með jöfnu aðgengi allra að heilsueflingu. Með því móti sé hægt að seinka því að fólk þurfi aðstoð vegna heilsu- og færnitaps og draga úr þörf fyrir hjúkrunarrými, heilbrigðisþjónustu og annarri stuðningsþjónustu við aldraða segir að lokum í skýrslunni.

Ljóst er að skýrslan er metnaðarfull en mjög mikilvægt er að hafa mótaða opinbera stefnu til að vinna við forvarnir og heilsueflingu aldraðra verði markviss og skili árangri. Samvinna á milli kerfa er þar lykilatriði. Það verður því áhugavert að fylgjast með hvernig unnið verður með niðurstöður skýrslunnar.

Skýrsluna í heild má finna hér:
https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Heilsuefling%20aldra%c3%b0ra%2014012021.pdf

Tengdar greinar