Sannur jólaandi á Dalvík

eftir Elfa Þorsteinsdóttir

Við hittum hana Kolbrúnu Pálsdóttur 83 ára á Dalvík.  Það var yndislegt að heimsækja hana á aðventunni því heimilið hennar er svo hlýlegt og fallega skreytt.  Það má segja að sannur jólaandi hafi svifið yfir í heimsókninni enda Kolbrún sjálf einstaklega hlýr persónuleiki. Kolbrún er fædd og uppalin á Dalvík og hefur mestmegnis búið þar.  Hún er gift Jóni Finnssyni, fyrrverandi sjómanni og útgerðarmanni og eiga þau hjónin tvö börn, fimm barnabörn og eitt langömmubarn svo jólakúlan svokallaða er fljótfyllt hjá þeim.  Þau hjónin kynntust þegar hún réði sig sem ráðskonu í Keflavík og hann var þar einnig til vinnu.  Kolbrún hefur unnið hin ýmsu störf um ævina, s.s við verslunarstörf og í Dalbæ hjúkrunarheimili aldraðra. Kolbrún hefur starfað ötullega að félagsstörfum og má segja að það hafi verið hennar helsta áhugamál.  Hún segist hafa kynnst mörgu fórnfúsu fólki í gegnum það starf og skapað í leiðinni dýrmætar minningar.  Kolbrún var í yfir 30 ár í slysavarnardeildinni, var í kirkjustjórn, kvenfélaginu og fleiru.  Hún er í dag formaður félags eldri borgara á staðnum og hefur gegnt því hlutverki í fjögur ár næsta vor.

Uppeldi barna þá og nú

Ég er alin upp við að fara niður á bryggju að veiða og vera hér og þar og alls staðar. “Þú gætir þín, þú dettur ekki.“ var bara sagt.  Þú myndir ekki leyfa börnunum sínum þetta í dag, að fara einum niður á bryggju með spotta til að veiða.  Það ætti að koma því í skólakerfið í dag að kenna börnunum að bjarga sér. Við vorum alin upp þannig að við vorum orðin sjálfbjarga um fermingu, þú átt að geta skipt um ljósaperu og kló á rafmagnstæki, en við erum ekkert að kenna börnunum okkar það.  Ég skil ekki hvernig unga fólkið í dag nær að koma undir sig fótunum.

Jólagardínurnar og maturinn

Kolbrún byrjar að skreyta snemma, segist skreyta mest allt fyrir aðventuna, hún segir okkur sögu af eldhúsgardínunum; Gardínurnar eru orðnar 62 ára gamlar, þetta eru fyrstu eldhúsgardínurnar sem ég saumaði þegar ég byrjaði að búa, þær eru úr hvítu lérefti.  Svo var ég orðin svo leið á þeim og var búin að setja upp í skáp og hætt að nota. Svo fannst mér leiðinlegt að láta þær liggja svona svo ég þrykkti á þær jólamyndir og málaði á þær. Svo kom að því að gardínurnar voru slitnar og hengu saman á lyginni, ég fékk mér nýjar jólagardínur og ætlaði að setja upp en þá sögðu krakkarnir og karlinn; hvar eru hinar? Svo ég setti þær bara upp aftur. Jólatréð er búið að fylgja henni alla tíð og er því 83 ára gamalt.  Kolbrún er mikið jólabarn og bakar líka mikið fyrir jólin.

Þegar Kolbrún og Jón byrjuðu að búa eldaði hún svínakótilettur á aðfangadag eins og mamma hennar hafði gert, það breyttist svo í hamborgarhrygg en hangikjötshefðin hefur haldið sér á jóladag líkt og á mörgum íslenskum heimilum. Dóttir þeirra er svo fædd á jóladag svo þau voru alltaf með alla fjölskylduna í boði á jóladag, þannig að það varð hefð til í kringum það. Aðspurð um fleiri jólahefðir sagði Kolbrún að skrautið á heimilinu skapi hefðir, eitthvað sem alltaf hefur verið verður að fá að vera áfram.  Eiginmaðurinn er í dag enn að bæta við jólaskrautið, hann hefur gert keramikjólatré með ljósum, stenslað handklæði o.fl. 

Við höfum það svo gott á Íslandi að við metum það ekki

Það er gott að vera borgari á Dalvík segir Kolbrún og gott að eiga heima hér.  Við eldra fólkið þurfum ekki að kvarta, við höfum það bara svo gott á Íslandi að við metum það ekki.  Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að fara út í búð og það sé byssumaður á næsta horni, maður getur orðið svo reiður þegar fólk er að vanþakka það sem er gert.  Við höfum það svo gott, hérna á Dalvík til dæmis erum við með mjög góðan bæjarstjóra og gott fólk sem stjórnar, við höfum fundið það vel á þessu ári. 

Það þarf svo bara að leyfa fólki að halda sinni reisn, halda aurunum sínum og þá er okkur engin vorkunn.  Annars er aldur bara afstæður, kerfið lítur of mikið á kennitöluna.  Aldurinn fer þó misjafnlega með okkur, skrokkurinn segir að maður sé ekkert svo ungur en meðan að fólk er heilt í hausnum og hefur heila hugsun að þá er okkur engin vorkunn. Þú getur verið 83 ára eins og ég og svo getur verið einhver 55 ára við hliðina sem er ekki með okkur. 

Félag eldri borgara á Dalvík 30 ára og húsnæðið 20 ára

Á venjulegu ári er heilmikið starf hjá félagi eldri borgara á Dalvík þar sem Kolbrún hefur sinnt formennsku í hátt í fjögur ár.  Félagið var stofnað 1990 og 1999 afhenti bæjarfélagið félaginu húsnæði til eignar ásamt peningaupphæð til að dytta að eftir þörfum.  Árið 2000 var Mímisbrunnur tekinn formlega í notkun og síðan hefur verið þar blómlegt starf ef frá er talið árið í ár af ástæðum sem allir þekkja. 

Félag eldri borgara heldur úti kóræfingum, félagsvist, léttri leikfimi, eru með opið hús þar sem fólk kemur m.a saman með handavinnu. Hjúkrunarfræðingur kemur hálfsmánaðarlega. Eitthvað er í gangi alla daga vikunnar í venjulegu árferði.  Svo er markaður fyrstu helgina í nóvember og þá kemur fólk saman og er kökusala og kaffi.  Síðastu helgina í nóvember er jólabingó. Síðan er haldinn aðventufagnaður, þorrablót og 3 fastir fundir á ári þar sem koma fyrirlesararar.  Svo hefur myndast mjög góður siður sem er samvinna við grunnskólann, en þá förum nokkur að hlusta á krakkana lesa.  Svo koma börnin í 1.-6. bekk til okkar í eina viku í febrúarmánuði og við spilum.  Það gefur svo mikið, og er svo yndislegt að geta gefið af sér.  Þessir krakkar eru svo opin og skemmtileg, við höfum þá gefið þeim djús og heimabakað bakkelsi. 

Brúskvöld

Í vetrarstarfinu eru alltaf haldin brúskvöld á mánudögum.  Brús er svarfdælskt spil sem nokkrir áhugasamir hafa haldið á lofti. Brús er gamalgróið spil og spilað með hefðbundnum spilum. Spilið hefur lengi verið vinsælt í Svarfaðardal og nágrannabyggðum hans en er minna þekkt annars staðar á landinu. Þetta er fjögurra manna spil og spila tveir og tveir saman og sitja andspænis hvor öðrum eins og í mörgum öðrum spilum. Brús er óvenjulegt spil að því leyti að ekki eru öll spilin í spilastokknum notuð og spilagildi eru önnur en venjulega gerist. Úr spilastokknum eru teknir tvistar, þristar, fjarkar og fimmur, eftir verða 36 spil.  Í sveitarfélaginu er svarfdælskur mars og þá er  hátíð í bæ og haldin heimsmeistarakeppni í brús. 

Að lokum kvaddi Kolbrún  okkur með þeim orðum að mikilvægt væri að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og að þrátt fyrir allt byggjum við á góðu landi. 

Tengdar greinar