Áherslur Samfylkingarinnar í öldrunarmálum

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Nú er komið að Samfylkingunni að svara sínum spurningum um öldrunarmál. Aldur er bara tala sendi nokkrar spurningar á öll framboðin semem gefa kost á sér fyrir næstu alþingiskosningar og hafa verið birt hér á síðunni síðustu daga.

Hvaða áherslur hafið þið varðandi lífeyrismál eldri borgara ?

Samfylkingin vill halda sjó í málaflokkum sem varða almenning og þeirra daglega líf og lítur á ríkisfjármál sem langhlaup, en ekki skammhlaup. Ríkið getur tekið á sig byrðar til lengri tíma sem venjulegt fólk sem rekur sín heimili frá degi til dags getur að jafnaði ekki gert.

Samfylkingin vill byggja upp til framtíðar því það er góð fjárfesting.

Því leggur Samfylkingin til að ekki verði dregið úr almannaþjónustu og velferð, heldur gefið í. Þeim til hagsbóta sem lakar standa og eru í viðkvæmri stöðu.

Markmið okkar í Samfylkingunni er að lífeyrir verði ekki lægri en lægstu laun.  Að frítekjumark lífeyristekna verði fjórfaldað, upp í 100.000 kr. Að frítekjumark atvinnutekna verði þrefaldað, upp í 300.000 kr.

Samfylkingin veit að það er ekki hægt að bíða eftir því réttlæti sem ríkisstjórnin lofaði og hefur svikið. Samfylkingin lofar því ákveðnum kjarabótum strax í haust komist hún í ríkisstjórn. Að hækka greiðslur til almannatryggingar til samræmis við krónutöluhækkun kjarasamninga og stöðva kjaragliðnun síðustu ár. Það yrði fyrsta skref í hækkun lífeyris og þess gætt að hækkanirnar hafi ekki áhrif á aðrar greiðslur. Þá mun Samfylkingin tvöfalda strax frítekjumark lífeyristekna upp í 50.000 kr. og hækka frítekjumark atvinnutekna eldra fólks í 200 þúsund krónur.

Einnig að þá strax hefjist endurskoðun laga um almannatryggingar sem miði að því að rétta hlut stórs hóps lág- og meðaltekju eftirlaunafólks. Sérstaklega þarf að horfa til þess að tekjutengingar verði ekki skarpar og þeim ekki beitt af því miskunnarleysi sem hefur einkennt lögin um almannatryggingar sem við höfum búið við allt þetta kjörtímabil.

Skarpar tekjutengingar og skerðingar sem bíta snemma geta hæglega skapað fátæktargildru fyrir fólk í lægri tekjuhópum.

Því viljum við endurskoða almannatryggingar í heild sinni. Einnig þarf að endurskoða skattalöggjöfina svo hinir tekjulægri, þar á meðal eldra fólk á eftirlaunum, sé ekki skattpínt inn að beini eins og nú er.

Hvaða áherslur hafið þið varðandi þjónustu við eldri borgara í heimahúsum þegar færnin minnkar ?

Flestir eldri borgarar búa á og reka eigin heimili, rétt eins og fólk á öðrum aldursskeiðum. Þessum hópi þarf að tryggja fullnægjandi framboð heppilegs húsnæði auk tækifæra til samfélagslegrar virkni. Þeir eldri borgarar sem þurfa aðstoð eiga að njóta fyrsta flokks heimaþjónustu, heimahjúkrunar og geðþjónustu, sem við viljum samþætta í auknum mæli í takti við þarfir hvers og eins. Samfylkingin leggur áherslu á að aldraðir fái stuðning til að geta lifað sjálfstæðu lífi á eigin heimili kjósi þeir það. 

Eru þið með áherslur hvað varðar forvarnir- og endurhæfingu fyrir eldri borgara til að halda færni sem lengst ?

Markmið heilbrigðisþjónustunnar á að vera að sem flestir í íslensku samfélagi njóti hreysti og heilbrigðis og geti átt langt og gæfuríkt líf. Til að ná því marki er ekki síst mikilvægt að fyrirbyggja heilsuleysi eftir því sem það er unnt, svo sem með áherslu á lýðheilsu, forvarnir og heilsueflingu í daglegu lífi. Samfylkingin ætlar sér að setja meira fjármagn í heilbrigðisþjónustu svo hægt verði að bæta þjónustu og tryggja aðgengi að öflugri heilsugæslu um allt land. 

Eruð þið með á stefnuskránni að fjölga hjúkrunarrýmum eða gera einhverjar breytingar hvað hjúkrunarheimili varðar ?

Samfylkingin ætlar að fjölga búsetu- og þjónustuúrræðum fyrir eldra fólk, auka heimaþjónustu og fjölga hjúkrunarrýmum. Leiðrétta þarf greiðslur vegna hjúkrunarrýma. Það eru of fá hjúkrunarrými og ekki er ráðgert að ný húsnæði séu tilbúin til notkunar fyrr en 2024. Fram að því verður engu að síður að fjölga rýmum með einum eða öðrum hætti. Alþingi samþykkti fjárveitingu 90 rýma í desember 2020  en ekkert rými er komið í gagnið ennþá. 

Tengdar greinar