Ályktun frá landsfundi Landssambands eldri borgara um velferðarmál

eftir Ritstjórn

Í byrjun maí, nánar tiltekið þriðjudaginn 3.maí var landsfundur LEB haldinn í Hafnarfirði. Á fundinum voru miklar umræður um hagsmunamál eldra fólks. Landsfundarfulltrúar skiptu sér í málefnahópa og ræddu einstök mál. Að því loknu bar hver hópur upp sínar tillögur sem allar voru samþykktar einróma af landsfundarfulltrúum alls staðar að af landinu.

Ályktað var um fjögur meginmálefni: KJARAMÁL – VELFERÐARMÁL – HÚSNÆÐISMÁL – STÖÐU HJÚKRUNARHEIMILA

Eftirfarandi er ályktun velferðarnefndar :

Landsamband eldri borgara hefur unnið ötullega að því að vekja athygli stjórnvalda á stöðu
eldra fólks. LEB vill útrýma aldursfordómum og aldurstakmörkunum. Við vekjum athygli á að
tala þarf við alla með virðingu, eldri jafnt sem yngri. Okkar félagsfólk hefur skilað sínum
skerfi til samfélagsins og á kröfu á góðum aðgangi að heilbrigðis- og félagsþjónustu. Eldri
borgarar verða að hafa tök á því að geta átt heimili og aðgang að hjálp við að dvelja þar sem
lengst, enda er það stefna stjórnvalda.
Frá árinu 2019 hafa 150 ný hjúkrunarrými verið tekin í notkun. Til að mæta óbreyttri þörf
þarf að bæta við 136 rýmum á ári. Í drögum að fjármálaáætlun ríksisstjórnarinnar fyrir árin
2023 til 2027 er gert ráð fyrir 364 nýjum rýmum en þörfin er metin vera 504, sem sýnir að
þrátt þessa fjölgun hjúkrunarrýma er enn skortur og vandi við að útskrifa eldri sjúklinga af
sjúkrahúsunum. Aðstandendur, maki og eða börn eru bundin við hjúkrun eldri sjúklinga en
eins og nýverið hefur verið bent á þá lendir þessi umönnun oftast á dætrunum.
Aðstandendur eru gjarnan í vinnu og með eigin heimili og getur álagið orðið óbærilegt.


Að búa heima – með stuðningi:
Ef standa á við þá stefnu stjórnvalda, er enn mikil þörf á að efla stuðning heima.
Heimahjúkrun þarf að vera í boði, líka um helgar og á kvöldin. Dagvistun með þjálfun þarf að
vera til staðar ef að búseta heima á að vera valkostur. Dagdvöl þarf líka vera fyrir hendi um
helgar. Leggja þarf áherslu á að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun eins og gert er í
Reykjavík og víðar um landið. Slíkt tryggir mun betri þjónustu og auðveldar starfsfólki störfin.
Mikilvægt er að huga að fjölbreyttum búsetuúrræðum og hægt er að leita fyrirmynda hjá
nágrannalöndunum. Aðgerðarhópur LEB hyggst taka málið föstum tökum og er þegar
byrjaður. Þar eru ýmsar spennandi hugmyndir að fæðast, eins og t.d. að nota
stúdentagarðana sem einhvers konar fyrirmynd. Við minnum líka á þjónustuíbúðir sem
reknar eru í Reykjavík, en þær eru tæplega 500.


Geðheilbrigðismál:
Fulltrúi LEB tók þátt í stefnumörkun varðandi þunglyndi meðal aldraðra. Ítarleg skýrsla er á
heimasíðu LEB. Þar er m.a lögð áhersla á að: a) stofnað verði fagráð um geðheilsu eldri
borgara, b) stofnuð verði geðgöngudeild eldri borgara á Landsspítala/ Landakoti. c)
Heimaþjónusta og heimahjúkrun hafi aðgang að stuðningi og ráðgjöf frá geðheilsuteymum
heilsugæslunnar d) opnuð verði sérhæfð dagdvöl á höfuðborgarsvæðinu sem sinna
öldruðum sem glíma við þunglyndi og kvíða. Landsfundurinn leggur áherslu á að eldra fólk
eigi greiðan aðgang að geðheilsuteymum um land allt.


Einmanaleiki:
Stöðugt þarf að vinna að því að fylgjast með því hvort eldra fólk glímir við einmanaleika. LEB
Landssamband eldri borgara | www.leb.is | leb@leb.is
hvetur félaga sína til að gerast sjálfboðaliðar hjá td Rauða krossinum. Það hjálpar bæði þeim
sem gefa og þiggja.
Margt getur aukið við einmanaleika eldra fólks. Ýmsir hópar eru viðkvæmari en aðrir, við
minnum á ýmsa jaðarhópa og eins minnum við á samkynhneigða, sem sem stundum geta
þurft að fara aftur inn í skápinn. Fyrir þá getur verið erfitt að eldast og finna sig í hópi
aldraðra.
Sífellt fleiri innflytjendur tilheyra nú okkar hóp. Við þurfum að styðja þá og vinna að því að
þeir séu meðvitaðir um rétt sinn. LEB vill að allt eldra fólk verði virkt í starfi félaga okkar.
Mikilvægt er að félögin í LEB reyni að ná til fólks af erlendum uppruna, m.a. á heimasíðum
sínum.


Vandamál á heimilum – ofbeldi og drykkja:
Ríkislögreglustjóri kynnti skýrslu um ofbeldi gegn öldruðum og nefndi að vilji væri til að fá
LEB til samstarfs um áframhaldandi vinnu. LEB lýsir sig fúst til slíkrar samvinnu. Nauðsynlegt
er að efla fræðslu til eldra fólks um málefnið.


Heilsuefling:
Styrkur sem fékkst frá Félagsmálaráðuneytinu, sem skiptist á milli LEB og ÍSÍ, hefur orðið til
þess að búið er að ráða tvær konur til starfa sem vinna nú að því að skipuleggja starf
íþróttafélaga, heilsugæslu og félaga aldraðra um allt land. Landsfundurinn lýsir ánægju sinni
með þetta starf og vonar að það skili bættri heilsu félagsmanna.


Öldrunarrannsóknir:
Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands hefur sinnt margskonar rannsóknum er varðar málefni
aldraðra. Mikil þörf er á að efla það starf og bent er á félagslega þætti, stefnumörkun
málaflokksins og rannsókn á þjónustunni sem veitt er og hvernig hún nýtist. Sigurveig
Sigurðardóttir, prófessor í félagsráðgjafadeild HÍ hefur rannsakað þjónustu við eldra fólk,
þátt aðstandenda í ummönnun og samskipti kynslóða. Við bendum á Rannsóknarstofu
Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Landspítala ofl. í öldrunarfræðum. Starfsemi
hennar þarf að efla og víkka út hennar hlutverk.
Landsambandið leggur mikla áherslu á að auka og efla allar öldrunarrannsóknir og menntun
heilbrigðisstarfsmanna.


Velferðartækni:
Ekki líður það ár að framfarir verði ekki í Velferðartækni, þeirri þjónustu sem hægt er að
veita eldra fólki í gegnum tölvur, spjaldtölvur eða síma.
LEB mun styðja vel við þá þróun í framtíðinni eins og verið hefur og fylgjast vel með öllum
nýjungum. Það kemur meira og meira í ljós að tölvulæsi er nauðsynlegt, eldra fólk þarf að
öðlast slíkt læsi til að vera lengur sjálfbjarga. Auka þarf notkun öryggishnappa meðal eldri
borgara.


Lokaorð:
Þó að margt hafi áunnist, má ekki sofna á verðinum í velferðarmálefnum sem snerta eldri
borgara. LEB verður áfram samviska stjórnvalda og mun benda á allt sem betur má fara.
Fátækt innan þessa hóps er staðreynd og það getum við sem samfélag ekki liðið.

Sjá nánar á heimasíðu LEB hér

Tengdar greinar