„Það er æðislegt að vera eldri borgari á Ólafsfirði.“ – Kjarnakonurnar Svava og Ásdís heimsóttar

eftir Elfa Þorsteinsdóttir

Við tókum tali þær Svövu Björg Jóhannsdóttir sem er formaður félags eldri borgara á Ólafsfirði og Ásdísi Pálmadóttur sem er ritari félagsins.  Eldhressar og klárar konur um sjötugt sem báðar titla sig sem sjómannskonur en hafa nú bardúsað ýmislegt annað í lífinu en að sinna heimili og börnum.  

Í ljós kom að þær hafa gegnt fjöldamörgum störfum í sveitarfélaginu, Svava vann m.a í fiski, í versluninni á staðnum og á hjúkrunarheimilinu Hornbrekku í símavörslu, við ræstingar og ýmislegt fleira ásamt því að hafa líklegast lært mest í skóla lífsins að eigin sögn.  Ásdís eða Dísa eins og hún er kölluð vann í frystihúsinu og svo á Hornbrekku í 30 ár við umönnun og tók svo að sér að sjá um félagsstarfið þar.  Maður skyldi þó ekki gefa sér að þær stöllur séu sestar í helgan stein í þeirri merkingu að taka því bara rólega,  þó þær séu bæði löngu búnar að koma börnunum á legg og hættar í launaðri vinnu.  Það er greinilega nóg um að vera fyrir eldri borgara í Ólafsfirði.  

Það þykir öllum vænt um húsið og allir hjálpast að

Í félagi eldri borgara á Ólafsfirði eru milli 60-70 manns í heildina en fólk er misvirkt eins og gengur.  Þær áætla að milli 30-40 manns séu virk í félagsstarfinu.  Yngsti félagsmaðurinn er um sextugt og þeir elstu um nírætt.  Í venjulegu árferði er þó nokkur dagsskrá í boði. Fastir liðir hafa m.a verið dagsferð um nágrennið þar sem farið hefur verið út að borða.   Áður fyrr fór félagið í þriggja daga ferðir en það breyttist eftir að ferðamenn fóru að streyma um allt.  Þær segja að við það hafi rútukostnaður og hótelkostnaður hækkað mjög mikið og erfiðara verið um vik með slíkar ferðir.  Félagið hefur einnig staðið fyrir leikhúsferðum, farið á Akureyri, Hörgárdal og fleiri staði.  Stemning sé líka alltaf í kringum kótilettukvöld á Hauganesi.  Alltaf eru haldin þorrablót og jólafundir sem eru eins konar litlu jól líka.

Félagið hefur aðstöðu í húsi sem bæjarfélagið hjálpaði þeim að eignast, en félagar unnu ötullega í því að gera húsið sem best úr garði. Húsið var byggt sérstaklega fyrir eldri borgara. Starfsemi félags eldri borgara fer öll fram í húsinu og þar er mjög gott aðgengi og huggulegt.    Húsið er líka vinsælt í útleigu í fermingar, giftingar ofl.  Dísa er húsvörður og segir að það þyki öllum vænt um húsið og allir hjálpist að við að halda því í standi. 

Á föstudögum er spilað þar bingó, spjallað og drukkið kaffi.  Síðan hefur verið handavinnudagur einu sinni í viku.  Morgungöngur eru reglulega og það hefur haldist ágætlega, þá er hist klukkan hálf ellefu á morgnana og þá koma þeir sem vilja og geta og svo er sest niður og tekið gott spjall eftir gönguna.  Dagsskráin dettur svo alltaf aðeins niður yfir sumartímann. 

Veiran hefur sett strik í reikninginn

Kórónuveiran  hefur auðvitað haft lamandi áhrif á starfsemina á Ólafsfirði eins og annar staðar, þetta er orðið breytt segja þær stöllur. Bæjarfélagið er farið að koma inn með félagsstarf til okkar og sú starfsemi fer líka fram í húsi eldri borgaranna.  Boðið er upp á mat tvisvar sinnum í viku og þá dettur handavinnudagurinn inn í það líka.  Einnig er boðið upp á sundleikfimi tvisvar í viku, og við getum farið í íþróttasalinn tvisvar í viku, þar er boccia,krulla,ganga og fleira segir Svava.  Reynt hefur verið að halda þessu gangandi eftir fremsta megni.  Einnig er boðið upp á aðgengi að tækjasalnum tvisvar í viku og annan daginn er leiðbeinandi, en salurinn er reyndar lokaður núna vegna veirunnar.  Allt starf datt niður seinni part síðasta vetrar en það hefur verið reynt að halda meiru gangandi núna í haust þar sem hægt er að tryggja tveggja metra regluna. Þetta horfir þó vonandi til betri vegar á næsta ári.

Það er æðislegt að vera eldri borgari í Ólafsfirði

Svövu finnst æðislegt að vera eldri borgari á Ólafsfirði, segist alltaf hafa kunnað vel við sig þar og ekki versni það þegar maður er orðinn gamall, maður getur bara gert nánast hvað sem er segir hún.  Dísa segir einnig mjög ljúft að vera eldri borgari í sveitarfélaginu og segir stutt að ganga um allt, og náttúran sé svo einstök. „Það er auðvitað mikill vetur hérna en Ólafsfjörður er ekki síður fallegur yfir veturinn.“ segir Dísa.  „Þegar það er tunglskin,þá er ekki dimmt hérna, þá endurkastar snjórinn í fjöllunum svo birtunni að það er bara svona milliblá lýsing.“ Einstök fegurð, og væntumþykja yfir umhverfinu og samfélaginu sem þær stöllur búa í leynir sér ekki.  

Skortur á sjúkrabíl skapar óöryggi

En þrátt fyrir dásemdina við að búa á Ólafsfirði hefur Ólafsfjörður ekki farið varhluta af þeirri þjónustuskerðingu sem minni sveitarfélög á landsbyggðinni þurfa að búa við.  Fyrir þremur árum var sjúkrabíllinn tekinn frá þeim og þeim finnst það skapa mikið óöryggi.  Að þurfa að bíða eftir bíl frá Siglufirði finnst þeim ótækt enda þekkt að viðbragðstími eftir sjúkrabíl getur skipt sköpum.  Þær segja einnig að lítil þjónusta sé orðin í kringum verslun og það hafi mikið breyst.  Á Ólafsfirði hafi á tímabili verið tvær matvöruverslanir, tvær blómaverslanir, efnisbúð, sýslumaður og apótek ásamt fleiru.  Nú þurfi að sækja mikið annað.  Það sé auðvitað galli þó kostirnir við búsetuna séu mun fleiri.

Í fullorðinna manna tölu með permanett, í kápu með veski og á hælaskóm eftir fermingu

Svava segir að henni finnist hún ekkert vera neitt gömul, og segir að ef maður sé frískur og mann vanti ekkert sé aldur bara tala.  Dísa segir að það sem skipti mestu máli sé heilsan.  Svo horfi maður á sumt ungt fólk og hugsi “ææ það er búið að eldast svo, tala nú ekki um börnin manns”.  En svo er fullorðið fólk bara eins og unglingar í dag.  Þetta var öðru vísi áður fyrr eins og með foreldrana og ömmu og afa, þá var fólk orðið gamalt um fimmtugt og vinnulúið enda lífsbaráttan harðari í gamla daga.  Dísa segist einmitt vera að komast á þann aldur sem pabbi hennar var á þegar hann dó, henni finnst skrítið að hugsa til þess því henni fannst hann vera gamall þegar hann dó en hún ekki vera svo gömul.  

Ég man eftir mér heima á Dalvík segir Dísa, það var ótrúlegt að fólk var fullorðið þegar það var fermt, komst í fullorðinna manna tölu.  Stelpurnar fengu permanett í hárið, fengu hælaháa skó og gengu með veski, eignuðust kápur og eftir það urðu þær bara dömur.  Núna fá fermingarbörnin bara að vera krakkar lengur.  Sem er æðislegt sagði Dísa að lokum. 

Tengdar greinar