Þau hreinlega elska að vera öll saman – Vel heppnað heilsueflingarverkefni fyrir 60 ára og eldri á Höfn í Hornafirði

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Á Höfn í Hornafirði er ótrúlega skemmtilegt heilsueflingarverkefni í gangi sem velferðarsvið sveitarfélagsins ákvað að fara af stað með sem tilraunaverkefni í samstarfi við eiganda Sporthallarinnar Kolbrúnu H. Björnsdóttur einkaþjálfara, jógakennara og markþjálfa svo fátt eitt sé nefnt.

Kolla Bjöss þjálfari (mynd KB)

Verkefnið sem hefur verið í gangi síðan s.l haust er partur af Höfn sem heilsueflandi samfélagi og á að stuðla að vellíðan og betri heilsu þeirra sem taka þátt.  Markmiðið er einnig að hvetja fólk til að stunda styrktarþjálfun og kynna fjölbreytta möguleika til hreyfingar sem viðkomandi verði svo sjálfstæðir í að stunda. Þörf hafði skapast hjá ákveðnum hópi á þessari þjónustu og því tók sveitarfélagið ákvörðun að fara af stað með verkefnið sem er að reynast mjög vel. Verkefnið passar vel inn í þær áherslur sem eru í auknum mæli farnar að sjást hjá ríki og sveitarfélögum hvað varðar farsæla öldrun um að auka forvarnir og heilsueflingu. 

Mikill munur á liðleika, styrk og þoli

Í byrjun var haldinn kynningarfundur sem gekk gríðarlega vel og byrjuðu alls 20 manns í verkefninu en eru í dag 28, bæði karlar og konur og einnig er mikið um að hjón komi saman.

Kolla Bjöss eins og hún er kölluð hefur tímana sem fólk mætir í 2x í viku fjölbreytta og hefur kynnt fyrir þeim auk styrktarþjálfunar, liðleikaþjálfun, stólajóga og hóptíma. Hún segir að tímarnir séu frá kl.10:30 til 12 og sumir séu jafnvel að koma fyrr og það sé gott flæði í gegnum tímana. Skemmtilegast finnist hópnum þegar hann er allur saman.

Allir fara í gegnum ástandspróf, mælingu á vöðvastyrk og þolpróf og segir Kolla að árangurinn hafi svo sannarlega ekki látið á sér standa. Mikill munur sé á liðleika, styrk og þoli hjá þátttakendum. Hægt og rólega hefur verið bætt inn nýjum æfingum og í byrjun fengu allir möppu með æfingunum.

Félagslegi þátturinn skiptir ekki síður máli

Kolla segir að það sé ótrúleg stemning í hópnum, mikið spjallað og þau hreinlega elski að vera öll saman.  Hún segir hópinn svo glaðan og þakklátan og þetta gefi þeim sem taka þátt mikið félagslega. Margir höfðu aldrei komið inn í líkamsræktarstöð áður, en hafa komist að því að það er bara skemmtilegt

Verkefnið er alltaf opið og öllum velkomið að koma og prófa tíma

Kolla segir að alltaf sé hægt að koma og taka þátt þó ekki sé nema að prófa einn tíma.  Það leynir sér ekki að hún er stolt af heilsueflingunni sem hún hefur lagt sig fram við að þróa og segist hún einnig stolt af því að það sé byggt upp af heimafólki og sveitarfélaginu. Hún hvetur einnig önnur sveitarfélög til að gefa heilsueflingu eldri aldurshópa gaum, það þurfi ekki að vera flókið að koma því í framkvæmd. 

Köllum þetta “fimleikana” okkar segir Gerður

Við heyrðum í Gerði eða Hildigerði Skaftadóttur 77 ára sem hefur tekið þátt í verkefninu frá upphafi ásamt Unnsteini eiginmanni sínum.  Hún segir hópinn vera þéttan og góðan og þau gantist með það að kalla þetta fimleikana sína.  Hún segir þetta alveg frábært verkefni og tímarnir byrji með upphitun og búið sé að kenna þeim vel á æfingatækin og þeim sé vel fylgt eftir. 

Gerða og Unnsteinn á brettinu / Mynd: KB

Hún segir að eftir að fólk hætti að vinna sé mikilvægast að hreyfa sig markvisst og hitta annað fólk. Hún segist finna mikinn mun eftir að hún byrjaði bæði á styrk og liðleika og tími varla að sleppa úr en þau hjónin hafi þó verið að koma úr heilsudvöl í Hveragerði þar sem þau tóku líka þátt í öllu sem þar var boðið upp á.  Þau hafi síðan farið beint í að mæta áfram til Kollu í heilsueflinguna

Geggjað verkefni og ágæt leið til að ná sér upp úr sófanum segir Gulli

Gulli eða Guðlaugur Vilhjálmsson 67 ára og eiginkona hans Alla (Jónína Aðalbjörg Baldvinsdóttir) hafa líka tekið þátt í heilsueflingunni frá byrjun. Gulli segir þetta alveg “geggjað”. Þau hafi byrjað í þessu þegar sveitarfélagið auglýsti verkefnið í upphafi og taki það þátt í kostnaðinum við heilsueflingu eldri borgaranna.

Gulli og Alla taka á því / Mynd: KB

Gulli segir þetta ágæta leið til að stíga upp úr sófanum þó hann sé nú ekki verkefnalaus þrátt fyrir að vera hættur að vinna en hann vann hjá Rafmagnsveitum ríkisins sem línumaður. Kolla þjálfari heldur vel utan um mælingarnar og segist hann finna mikinn mun á sér og þá helst á styrk og liðleika, sé bæði fljótari og liðugri en áður. Gulli segist ekki hafa verið að æfa áður en þetta sé orðinn ómissandi þáttur.

Við munum birta viðtal við Þorstein Sigurbergsson á næstu dögum en hann er einnig mjög virkur í heilsueflingunni á Höfn

Tengdar greinar