Austfirðingar taka heilsuna með trompi !

eftir Ritstjórn

Í vikunni var haldinn fyrsti kynningarfundur um heilsueflingarverkefni Janusar fyrir 65 ára og eldri í Fjarðabyggð en sveitarfélagið hefur ákveðið að bjóða sínu fólki upp á heilsueflinguna „Leið að farsælum efri árum“. Verkefnið er heilsutengt forvararnverkefni sem hefur verið starfrækt í nokkrum sveitarfélögum við gott orðspor síðan árið 2017.

Með verkefninu er lagt upp með markvissa þol- og styrktarþjálfun, reglulegar heilsufarsmælingar á 6 mánaða fresti fræðslu og ráðgjöf um holla næringu og aðra heilsueflandi þætti. Markmiðið er m.a að hægja á öldrunareinkennum með markvissri þjálfun og auka þannig líkur á að einstaklingar geti sinnt athöfnum daglegs lífs sem lengst.

Austfirðingar ætla að sjálfsögðu að taka þetta með trompi og er á vef Austurfréttar haft eftir dr. Janusi Guðlaugssyni sem stýrir verkefninu að hann hafi sjaldan fengið jafn góð viðbrögð og fyrir austan og það sé algjör metþátttaka. Þar hafa 120 manns 65 ára og eldri skráð sig til leiks og fara þeir allir í ítarlegar heilsumælingar áður en verkefnið hefst fyrir alvöru um miðjan mánuð.

Einnig er haft eftir Janusi að það hafi verið viss vakning undanfarin ár að heilsuefling þeirra sem eldri eru borgar sig margfalt aftur fyrir samfélagið enda sýnt sig að slíkt bætir líðan og almenna heilsu nægilega mikið í flestum tilfellum til að fólk geti verið lengur heima við án sérstakrar aðstoðar Þetta sé það sem kallað er að vera sjálfbær á eigin heilsu.

Framundan eru kynningarfundir verkefnis Janusar bæði í Hafnarfirði og í Reykjavík en einnig er hægt að óska eftir þátttöku þar sem verkefnið er í gangi (Reykjanesbæ, Seltjarnarnesi, Grindavík, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði) á heimasíðu Janusar www.janusheilsuefling.is

 

Tengdar greinar