Hverjar eru áherslur Framsóknarflokksins í öldrunarmálum ?

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Aldur er bara tala sendi stjórnmálaflokkum í framboði nokkrar spurningar um málefni eldri borgara. Svörin eru birt í þeirri röð sem þau berast. Hér svarar Framsóknarflokkurinn fyrir sínar áherslur

Hvaða áherslur hafið þið varðandi lífeyrismál eldri borgara?

Framsókn leggur áherslu á að almenna frítekjumarkið hækki í skrefum og að lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar.

Hvaða áherslur hafið þið varðandi þjónustu við eldri borgara í heimahúsum þegar færnin minnkar?

Framsókn vill bæta og fjölga endurhæfingarúrræðum og skapa fjölbreyttari þjónustu sem styður eldra fólk til að búa sem lengst heima hjá sér, eftir því sem það vill og heilsa leyfir. Með því móti getur það haldið sjálfstæði sínu, sjálfræði, reisn og virðingu m.a. með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Framsókn vill leggja áherslu á aukna og samhæfða heimaþjónustu, sveigjanleg dagþjálfunarúrræði, aukna tæknivæðingu og markvissan stuðning við aðstandendur eldra fólks. Stórefla þarf samstarf milli félags- og heilbrigðisþjónustunnar m.a. svo þjónustan sé persónumiðuð og sé að mestu veitt á heimilum fólks.

Nútímavæða þarf þjónustuna og aðgengi að henni með aukinni notkun á velferðatækni, rafrænni þjónustu, fjarþjónustu og upplýsingagáttum. Ásamt því væri kvöld- og helgarþjónusta ákjósanleg líkt og Reykjavíkurborg hefur verið að bjóða.

Eru þið með áherslur hvað varðar forvarnir- og endurhæfingu fyrir eldri borgara til að halda færni sem lengst?

Framsókn leggur áherslu á að ráðist verði í endurskipulagningu á málaflokki eldra fólks út frá grunngildum aldursvæns samfélags, samþættingu, persónumiðaðrar þjónustu og skýrrar sýnar á hlutverk og skyldur þeirra sem að þjónustunni koma. Horfa ætti til reynslunnar af endurskipulagningu opinberrar þjónustu við börn sem unnin var á kjörtímabilinu. Lykilatriðin eru aukin samvinna innan kerfisins og samþætting þjónustu þannig að heildaryfirsýn náist yfir málefni hvers einstaklings. Þjónustan á að berast til einstaklingsins svo hann sjálfur, eða aðstandendur hans, þurfi ekki að gerast sérfræðingar í þjónustu við eldra fólk

Eruð þið með á stefnuskránni að fjölga hjúkrunarrýmum eða gera einhverjar breytingar hvað hjúkrunarheimili varðar?

Framsókn vill gera stórátak í uppbyggingu heimahjúkrunar og dagþjálfunarrýma.

Samhæfa þarf fjölbreytt úrræði og sníða að hverju svæði fyrir sig. Sveitarfélög eru misjafnlega sett með aðstöðu út frá stærð, mannfjölda og fl. Sömu úrræðin ganga ekki alls staðar.

Tengdar greinar