Hversu oft er eðlilegt að eiga samlíf ? Svar félagsráðgjafa við fyrirspurn

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Sæl !

Mig langar að varpa einni spurningu fram þar sem þetta er nú undir nafnleynd, en mig langar að vita hversu oft er eðlilegt að eiga samlíf þegar fólk er komið hátt á sjötugsaldurinn ?  Ég tel mig vera í góðu hjónabandi en það hefur dregið ansi mikið úr fjölda skipta sem við maðurinn minn eigum samlíf á seinni árum, ef þú veist hvað ég meina. Ég væri hins vegar til í að eiga samlíf oftar.

Kveðja

Sæl og takk fyrir að hafa samband við www.aldurerbaratala.is  

Þú spyrð um það sem margir hafa ekki kjarkinn í að spyrja um eða ræða, mig langar að hrósa þér fyrir það.  En þegar kemur að samlífi hjóna má segja að ekki sé hægt að gefa upp neina ákveðna magntölu.  Samlíf eða kynlíf á milli para snýst alltaf um samkomulag, oftast óformlegt en stundum eitthvað sem búið er að ræða.  Báðir aðilarnir þurfa að vera tilbúnir og þá er magn ekki endilega sama og gæði. 

Ef þig aftur á móti langar í samlíf oftar en þér finnst hann viljugur til, er þó best að byrja á samtalinu og láta hann vita (án þess að ásaka hann) hverjar þínar langanir eru og hvort þið getið ekki fundið einhverja góða lausn á málinu. Mögulega er einhver fyrirstaða hjá honum sem honum finnst erfitt að hafa frumkvæði af að ræða, það er ýmislegt sem getur haft áhrif á löngun til samlífs s.s þreyta, streita, þunglyndi, líkamlegar breytingar og veikindi. Svo gætir þú líka þurft að kasta út netinu og gera einhverjar breytingar til að veiða hann í fjörið. 

Gangi þér ykkur vel

Tengdar greinar