Gefur þú litlu hlutunum í daglegu lífi athygli ? Ef maður staldrar við eru svo ótal margir hlutir á hverjum degi sem vert er að veita eftirtekt
Morgunbollinn í ró og næði
Það er eitthvað sérstakt við fyrstu mínútur dagsins. Ilmurinn af heitum kaffibolla eða tebolla og róin áður en verkefni dagsins taka við skapa litla, en dýrmæta gleðistund. Þetta er augnablikið þar sem maður getur ákveðið að hugsa: „Þetta verður góður dagur.“
Það er svo gott að staldra aðeins við
Ferska loftið og hreyfingin
Stutt ferð út úr húsi, jafnvel bara út í garð eða út á svalir, gerir kraftaverk. Ferskt loft, litir náttúrunnar og smá hreyfing gefa bæði líkama og huga orku. Það þarf ekki að ganga langt – bara nokkur skref til að tengjast umhverfinu og sjálfum sér í leiðinni.
Símtal eða samtal sem yljar
Að heyra kunnuglega rödd getur lyft lundinni á augabragði. Hvort sem samtalið stendur í tvær mínútur eða tuttugu getur það fært okkur hlýju, hlátur og jafnvel skemmtilega sögu. Samskipti stutt sem löng minna okkur á að við erum ekki ein.
Litlu atriðin eru nærandi
Lítil verkefni geta verið ótrúlega gefandi ef við veitum þeim athygli: að klára krossgátu eða púsl, vökva blómin, taka til í kommóðuskúffunni eða finna hlut sem maður hélt að væri horfinn. Það eru oft smáu sigrarnir sem kalla fram jákvæðar tilfinningar og gefa okkur orku
Að taka eftir augnablikinu
Gleðistundir dagsins eru oft hljóðlátar og auðvelt að hlaupa framhjá þeim. En þegar maður staldrar örlítið við og gefur þeim gaum – litunum á himninum, því sen maður sér út um gluggann, góðu lagi í útvarpinu eða einhverju sem fékk mann til að brosa – verða þær fleiri en maður hafði áður áttað sig á. Og þær gera daginn klárlega betri.
Ert þú að staldra við í dagsins önn ?

