Hafnarfjarðarbær bregst við umsögn öldungaráðs um aukna þjónustu

eftir Ritstjórn
Mynd: Canva

Akstursþjónusta eldra fólks í Hafnarfjarðarbæ var efld frá 15. maí s.l. Tvöfalt fleiri ferðir verða í boði. Þeim var fjölgað úr 8 í 16. Bæjarfélagið bregst þannig við umsögn sem öldungaráð vann fyrir fjölskylduráð og þakkar ráðinu fyrir vandað starf. Breytingarnar eru gerðar í baráttunni við einmanaleika og einangrun eldra fólks og fleiri tækifæri gefin til mannlegra samskipta til að mynda í dagdvöl og félagsstarfi.

Þjónustan verður notendavænni og hún bætt. Markmiðið er að tryggja aukna félagslega virkni fólks. Gjaldskrá þjónustunnar breytist nú einnig. Greiðsla fyrir þjónustuna verður tekjutengd. Tekjulágir greiða almennt strætófargjald en tekjuhærri greiða 1100 krónur fyrir hverja ferð.

Þeir sem eiga rétt á þessari akstursþjónustu eru íbúar í Hafnarfirði sem eru 67 ára eða eldri. Annað sem þarf að uppfylla er að búa sjálfstætt, eiga ekki bíl og vera ófær um að nota almenningssamgöngur.

Eldra fólk sem getur ekki nýtt sér strætó getur fengið akstursþjónustu til að komast til læknis, í sjúkraþjálfun, endurhæfingu eða dagdvöl.  Aksturstími er alla daga frá kl. 06:30–00:00. Á stórhátíðum er akstur frá kl. 10–22.

Frétt frá www.hafnarfjordur.is

Tengdar greinar