Hjálpartæki geta reynst mikilvæg auðlind í lífi margra

eftir Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir

Í þessari grein verður farið yfir helstu hjálpartæki sem geta einfaldað daglegt líf og stutt okkur í að sinna þeirri iðju sem eru okkur nauðsynleg og mikilvæg. Hjálpartæki er tækjabúnaður sem hjálpar okkur að auka færni okkar og sjálfsbjargargetu þegar við erum í þörf fyrir hjálp og stuðning vegna veikinda, slysa, sjúkdóma eða fötlunar. Þau geta haft jákvæð áhrif á líðan okkar, lífsgæði og félagsþátttöku og þrátt fyrir að hjálpartæki hafi fyrst litið dagsins ljós fyrir meir en hundrað árum þá hafa þau líklegast aldrei verið jafn áberandi í almennri umræðu og núna. Á tímum þegar breytingar gerast hratt og þörfin fyrir persónumiðaðar lausnir er mikil.

Hjálp til sjálfshjálpar

Hjálpartæki er oft einfaldur búnaður eða tæki sem gerir fólki kleift að sinna meðal annars eigin aðhlynningu, heimilisstörfum, sjálfboðavinnu, íþrótta- og félagsstarfi af sjálfsdáðum og án aðstoðar annarra. Þetta getur verið skurðarhnífur með sveigðu skafti, hnífapör með breiðu skafti eða fjölnota skaft til að snúa tökkum, lyklum eða mælum þegar hendur eru verkjaðar af slitgigt, sinaskeiðabólgu eða eftir handleggsbrot. Gleraugu og heyrnartæki þarf vart að kynna og hefur úrvalið aukist til muna síðustu áratugi til að koma til móts við þarfir sem flestra. Stækkunargler með ljósi reynist þeim dýrmætt sem eru komnir með mjög skerta sjón og eiga erfitt með að lesa t.d. dagblöð og bækur. Þá má ekki gleyma vinsæla Daisy búnaðinum, hljóðbókaspilaranum sem hefur gert þeim sem eru orðnir nánast blindir kleift að halda áfram að njóta ævintýra bókanna. Einnig er baðbursti eða hárgreiða með löngu skafti mikil hjálp þegar hendin nær ekki lengur t.d. upp að höfði vegna slits í öxl eða axlarbrots. Púðar sem veita stuðning fyrir framhandleggi stuðla að góðri setstöðu og draga úr togi og álagi á axlir hjá þeim sem sitja mikið t.d. í hjólastól. Þeir eru líka mikill stuðningur við meðal annars handverksgerð fyrir konur sem eru með sogæðabjúg í höndum og handakrika í kjölfar krabbameinsmeðferðar.

Sturtustóll, baðbretti og handfang á veggi hafa bjargað mörgum frá falli þegar jafnvægi er ekki gott eða styrkur í fótum ekki nægur til að standa af sér sturtuferðina. Snúningslak í rúm bætir svefngæði þeirra sem eru með vefjagigt, mikla verki, parkinson eða MS svo eitthvað sé nefnt sem hefur áhrif á getu þeirra til að snúa sér í rúminu á meðan þau sofa. Handfang við rúm og salerni eða stuðningsstöng breytir miklu þegar vöðvastyrkur rýrnar í fótum sem veldur óöryggi við það eitt að setjast niður og standa upp úr rúmi eða af salerninu. Fyrir þá sem eru með hjarta- eða nýrnabilun getur rafknúinn vinnustóll í eldhúsið gefið þeim meiri orku til að matreiða, þrífa og ganga frá matvöru eftir matarinnkaup. Einnig er hægt að rúlla stólnum inn á bað til að sitja í meðan verið er að raka sig, blása hárið eða farða sig sem getur reynt á líkamskrafta og þrek þeirra. Þríhjól fyrir fullorðna henta þeim vel sem eru með skert jafnvægi út af t.d. heilaskaða, lömun eða parkinson og hættir til að detta á venjulegum hjólum og slasa sig.

Að láni eða til kaups

Sum hjálpartæki er hægt að sækja um að láni á meðan önnur þarf að kaupa og á það þá oftast við um minni hjálpartæki, svokölluð smáhjálpartæki. Það er þó sá vandi til staðar í samfélaginu okkar að dýrmæt hjálpartæki eru ekki alltaf aðgengileg fyrir alla. Til þess að geta fengið hjálpartæki að láni gegnum hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands (HTÍ) eða Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, þarf að uppfylla ákveðin viðmið samkvæmt lögum, reglugerð og vinnureglum stofnananna. Það er því ekki sjálfgefið að þessi viðmið séu uppfyllt þrátt fyrir verki eða færniskerðingu sem dregur úr sjálfsbjargargetu og lífsgæðum. Í slíkum tilfellum er aðgengið að hjálpartækjum hindrað og fyrir þá sem ekki hafa fjármagnið til að kaupa sér búnaðinn þá er aðgengið fjarlægt alveg. Eftir sitja þeir með vanlíðan og skerta þátttöku í samfélaginu, eitthvað sem hjálpartæki hefði annars geta leyst og einfaldað.

Það er mín von og trú að í framtíðinni verði hjálpartæki aðgengilegri en þau eru í dag. Þá verði frekar tekið tillit til þeirra áhrifa sem færniskerðing hefur á lífsgæði og tækifæri til þátttöku í samfélaginu í stað greininga. Því ef okkur líður vel og við erum fær um að sjá um okkur sjálf þá aukast líkurnar á að því að við tökum virkan þátt í að byggja upp samfélag sem endurspeglar fjölbreytileika og velferð sem er ávinningur fyrir alla. Fallegt velferðarsamfélag fyrir okkur öll.

*Myndir fengnar að láni á internetinu hjá þjónustuaðilum hjálpartækja.

Hægt er að skoða myndir af ýmsum hjálpartækjum og velferðartækni inn á heimasíðu Heimastyrks, www.heimastyrkur.is undir Fréttir og fróðleikur.

Heimastyrkur, fréttir og fróðleikur – Hjálpartæki og velferðartækni.

https://www.heimastyrkur.is/post/hjálpartæki-og-velferðartækni

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands – Reglugerð um greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar.

https://hti.is/index.php/is/heyrnartaeki/kostnadhur-nidhurgreidhsla/greidsluthattaka-rikisins-i-samskiptataekjum.html

Sjúkratryggingar Íslands – Lyf og hjálpartæki.

https://www.sjukra.is/lyf-og-hjalpartaeki/um-hjalpartaeki/

Stjórnarráð Íslands, heilbrigðisráðuneytið 2019 – Hjálpartæki, skýrsla starfshóps.

Tengdar greinar