Byltur og forvarnir, að vera skrefi á undan byltu

Til að forða sér frá byltu þarf að bregðast við með viðeigandi hætti ef líkamsstaða breytist skyndilega. Bylta á sér stað þegar einstaklingur fellur óviljandi niður á gólf, jörð eða annan lágan flöt. Margar ástæður eru til varast byltu á efri árum s.s. brot, verkir, minni hreyfigeta og óöryggi sem dregur úr sjálfsstæði og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu einstaklings og lífsgæði, einnig hjá aðstandendum. Farið verður yfir helstu atriðin sem ýta undir byltuhættu og hvað sé hægt að gera til að draga úr þeirri hættu. Þetta er þó aðeins brot af þeim upplýsingum er varða byltur og byltuvarnir.

Áhættuþættir

Með hækkandi aldri getur hætta á byltu aukist m.a. ef líkamsstyrkur minnkar, sjón og heyrn skerðist, truflun verður í jafnvægi, lyfjanotkun eykst eða blóðþrýstingur breytist. Einnig ef þvaglátsþörf eykst, matarlyst minnkar, áfengisnotkun er óhófleg og þegar slappleiki eða veikindi eru til staðar. Gæludýr geta ýtt undir fallhættu t.d. með því að hrasa um þau eða ef hundur kippir óvænt í tauminn þegar farið er út um hurð, á göngu í stiga eða á útisvæðum.

Hættan á byltu eykst einnig ef göngulag er óstöðugt, ef þörf er á að styðja sig við húsgögn eða hjálpartæki við göngu, skóbúnaður er lélegur, undirlag er sleipt, mottur, stigar eða þrep eru í umhverfinu eða ef bylta hefur átt sér stað áður. Til að fyrirbyggja byltu þarf að skoða bæði færni og hegðun einstaklings en einnig umhverfið sem iðjan fer fram í, húsnæðið og nágrenni ásamt félagslegar aðstæður og efnahag. Því er gjarnan tala um innri og ytri áhrifaþætti tengt byltuhættu.

Forvarnir og lausnir

Mynd: shutterstock

Ef óöryggi eykst gagnvart byltu er mikilvægt að leita til heilsugæslu því óöryggi ýtir undir kyrrsetu og hreyfingarleysi sem á sama tíma eykur hættuna á byltu. Regluleg hreyfing og æfingar eru lykilatriði þegar kemur að forvörnum, sérstaklega jafnvægisæfingar. Fjölbreytt iðja yfir daginn heima og að heiman, ýmist ein eða í félagsskap með öðrum er heilsueflandi.

Öll iðja, hvort sem það er leikfimi eða matarinnkaup, getur verið skemmtileg í góðum félagsskap. Eftir því sem hlutverkum utan heimilis fækkar eykst hættan á meiri inniveru, minni hreyfingu og einhæfari iðju. Þá er gott að búa sér til ástæðu til að fara út úr húsi helst daglega, amk oft í viku í góðum útifatnaði og með mannbrodda í hálku. Svo er það næringin sem er mikilvægur orkugjafi líkamans og því þarf hún að vera fjölbreytt, orku- og próteinrík og regluleg yfir daginn. Í kjölfar byltu og brota getur næringin haft mikil áhrif á bataferlið.

Heimilið

Góð lýsing er eitt af lykilatriðum öryggis, ef ekki sést í það sem er í umhverfinu þá er síður hægt að aðlaga hegðun og hreyfingar með viðeigandi hætti í samræmi við umhverfið til að forðast byltu. Lausamunir, bleyta, snúrur, mottur og hæðarmismunur á gólfi auka hættu á byltu sem og lélegur fótabúnaður. Léttir inniskór sem eru festir yfir rist og um ökkla eða sokkar með stömu undirlagi geta dregið úr byltuhættu.

Tíðar salernisferðir, sérstaklega á nóttunni geta reynst hættulegar. Næturljós sem vísa veginn frá svefnherbergi inn á baðherbergi reynast vel þar sem þau ættu ekki gefa frá sér birtu sem hefur neikvæð áhrif á nætursvefninn en næga til að forðast byltu. Handfang á veggi, við salerni, sturtu og rúm getur orðið nauðsyn þegar færni skerðist ásamt gönguhjálpartæki.

Þegar jafnvægi er skert, blóðþrýstingur er óstöðugur eða svimi til staðar þá á málshátturinn „Góðir hlutir gerast hægt“ að ráða ríkjum. Ekki hætta að sinna iðju eða bregðast við þegar þegar einhver dinglar bjöllunni eða síminn hringir en gefðu þér tíma og flýttu þér hægt. Fyrir þá sem eiga gæludýr þá getur verið ráð að setja góða bjöllu um hálsinn á þeim til að heyra í þeim ef þau eru á hreyfingu og velja sér gæludýr sem er hvorki of stórt né mjög kraftmikið þegar líkamsstyrkur, jafnvægi eða göngufærni er að breytast.

Hjálpartæki og velferðartækni

Ýmis hjálpartæki og tæknilausnir fást í dag til að auka öryggi og sjálfstæði við iðju hversdagsins. Þeir sem eru komnir með varanlega færniskerðingu, meir en 3 mánuði, eiga möguleika á að sækja um lán á viðeigandi hjálpartækjum gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Hægt er kynna sér þau m.a. í greininni Hjálpartæki geta reynst mikilvæg auðlind í lífi margra.

Ráðgjöf og þjónusta iðjuþjálfa

Iðjuþjálfar sinna heimilisathugun sem hefur þann tilgang að meta innri og ytri áhrifaþætti tengt byltuhættu til að stuðla að öryggi, sjálfstæði við iðju, hreyfingu og félagslegri þátttöku. Þar er færni og hegðun einstaklings metin inn á heimilinu eða í grennd við heimilið á meðan hann framkvæmir ólíka iðju. Rýnt er í það samspil sem á sér stað milli þessara áhrifaþátta og mögulegar lausnir metnar í samráði við einstaklinginn og mögulega aðstandendur. Iðjuþjálfar eru sérfræðingar í iðju og geta því nýtt ýmis úrræði til að draga úr byltuhættu. Má þar m.a. nefna ráðgjöf tengt hreyfingu, breytingum á umhverfi, aðlögun á framkvæmd iðju, orkusparandi vinnuaðferðir og aðstoð við hjálpartækjaumsóknir. Heimilisathugun er forvörn gegn byltu og nauðsyn í kjölfar byltu á heimili til að stuðla að heilsuvernd og öryggi á heimili.

Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir. (2021). Hjálpartæki geta reynst mikilvæg auðlind í lífi margra. Aldur er bara tala.

Fréttablaðið. (2020). Fjölbreytt og virkilega gefandi starf.

Iðjuþjálfun í byltu- og beinverndarmóttöku. Iðjuþjálfinn, 42(1), 31-32 . https://www.ii.is/media/idjuthjalfinn/Idjuthalfinn_2021-2.pdf Landspítali. (e.d.).

Byltur og byltuvarnir. https://www.landspitali.is/fagfolk/reglur-leidbeiningar-handbaekurog-frettabref/byltur-og-byltuvarnir/ Landspítali. (e.d.).

Skynörvandi jafnvægisþjálfun. https://www.landspitali.is/library/Sameiginlegarskrar/Gagnasafn/Fraedsla/Byltur-og-byltuvarnir/Skynþjálfun%20-%20Copy%20(1).pdf Pirruccio, K., Yoon, Y.M. og Ahn, J. (2019).

Fractures in Elderly Americans Associated With Walking Leashed Dogs. JAMA Surgery, 154(5), 458-459. doi:10.1001/jamasurg.2019.0061

Slysavarnarfélagið Landsbjörg. (2018).

Örugg efri ár – Nokkur góð ráð er varða öryggi eldra fólks.

Hvernig má koma í veg fyrir byltur hjá öldruðum? Tímarit hjúkrunarfræðinga, 92(5), 44-48.

Tengdar greinar