Unnið er að því að koma upp samþættri heimaþjónustu fyrir eldra fólk í Árborg og sjá til þess að rétt þjónusta sé veitt af réttum aðila og á réttum tíma. Samkomulag þessa efnis var staðfest í Árborg í dag. Viðstödd voru Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar, og Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, auk fjölda gesta.
Samkomulagið er á milli HSU og Árborgar og er gert á grundvelli þróunarverkefnis um samþætta heimaþjónustu sem er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda, Gott að eldast. Þessi formlegi samvinnuvettvangur sem samkomulagið kveður á um verður upphafið að frekari samþættri heimaþjónustu íbúum Árborgar til heilla. Áhersla er lögð á einstaklingsmiðaða nálgun og að flétta saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin. Auglýst var eftir samstarfi við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir um þátttöku í þróunarverkefnunum og voru Árborg og HSU meðal þeirra sem valin voru.
Þverfagleg heimaendurhæfing og móttöku- og matsteymi
Liður í samþættingu heimaþjónustunnar í Árborg er að koma upp sérstöku móttöku- og matsteymi og munu allar beiðnir um heimaþjónustu berast til teymisins. Þá verður unnið að því að koma upp einni þjónustugátt fyrir allar beiðnir.
Þverfaglegu heimaendurhæfingarteymi verður einnig komið á fót og gert ráð fyrir að flestir sem sæki um heimaþjónustu fari í þjónustu teymisins til að byrja með. Heimaendurhæfingin felur í sér tímabundna þjálfun til sjálfshjálpar, ráðgjöf til að auka færni, virkni og bjargráð í athöfnum daglegs lífs sem og samfélagsþátttöku, meðal annars með aðstoð tengiráðgjafa en hlutverk hans er að vinna gegn félagslegri einangrun ásamt því að vera í góðum tengslum við staðbundna aðila til að nýta sem best þær bjargir sem fyrir eru í samfélaginu. Endurhæfingarteymið mælir færni og getu einstaklinga í upphafi meðferðar og í lokin. Eftir þrjá mánuði í þjónustu teymisins er þörfin endurmetin og hámarkstími þjónustunnar er hálft ár. Að því loknu tekur samþætt heimaþjónusta við ef þörf er á.
Eldra fólk fái að búa sem lengst heima við góðar aðstæður
„Ég óska íbúum Árborgar hjartanlega til hamingju. Samþætt heimaþjónusta og þær aðgerðir sem grípa á til í Árborg eru lykillinn að því að gera fólki kleift að búa sem lengst heima við góðar aðstæður. Þetta skiptir því miklu máli. Markmið mitt er skýrt: Að gera eldra fólki kleift að lifa með reisn og tryggja eldra fólki öryggi og sjálfstæði á eigin heimili,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
„Það er virkilega ánægjulegt að með verkefninu Gott að eldast getum við haldið áfram að efla samstarf Sveitarfélagsins Árborgar og HSU með það að markmiði að þjónusta við eldri íbúa verði markvissari og betri,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar.
„Með þessu samstarfi tryggjum við að þjónustan sé veitt á réttum tíma, af réttum aðilum og með heildstæða sýn á þarfir hvers og eins. Þetta er mikilvægt skref í átt að samfelldri og einstaklingsmiðaðri þjónustu þar sem heilbrigðis- og félagsþjónusta vinna saman í þágu notandans,“ segir Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Gott að eldast er samvinnuverkefni félags- og húsnæðismálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið fjármagnar auk þess tímabundið stöðugildi tengiráðgjafa í Árborg og heilbrigðisráðuneytið fjármagnar stöðugildi hjá HSU til að koma á fót áðurnefndu heimaendurhæfingarteymi.

Frétt og myndir af www.stjornarradid.is