Karlar í skúrum í Vestmannaeyjum

eftir Ritstjórn
Sigmar Georgsson, Þórður Rafn Sigurðsson, Páll Guðjónsson

Í gær var formlega opnuð aðstaða verkefnisins KARLAR Í SKÚRUM í Vestmannaeyjum. KARLAR Í SKÚRUM er úrræði sem gefur karlmönnum stað og stund til þess að hittast og vinna að sameiginlegum og eða eigin verkefnum á sínum hraða. Markmið verkefnisins er að skapa aðstæður þar sem heilsa og vellíðan karla er höfð í fyrirrúmi og þeir geti haldið sér við líkamlega, andlega og félagslega. Megináhersla er lögð á vinnu í tré og hvers konar annað handverk og er tilgangurinn að auka lífsgæði í gegnum handverk, tómstundir og ekki síst samveru.

Glæsileg aðstaða hefur verið útbúin í kjallara Hraunbúða i húsnæði sem er í eigu Vestmannaeyjabæjar. Þar hefur einnig verið komið fyrir fullkomnum tækjabúnaði fyrir allt handverk.

Gestkvæmt var við opnunina sem haldin var í sal dagdvalarinnar Bjargsins sem er á svæðinu. Það er Lionsklúbbur Vestmannaeyja sem haft hefur veg og vanda að því að útbúa aðstöðuna en Ingimar Georgsson og Sævar Þórsson ávörpuðu gestina í dag fyrir hönd klúbbsins og sögðu frá verkefninu. Jafnframt afhentu Lionsmenn Hollvinasamtökum Hraunbúða, Dagdvölinni Bjarginu og félagi eldri borgara í Vestmannaeyjum 300.000 kr styrki hverju. Bæjarstjórinn Íris Róbertsdóttir heiðraði viðburðinn einnig með nærveru sinni og hélt tölu þar sem hún hrósaði Lionsmönnum fyrir framtakið.

Gestir frá Hafnarfirði og Mosfellsbæ mættu og kynntu starfsemina í sínum KARLAR Í SKÚRUM klúbbum fyrir viðstöddum. Í dag verða gestirnir síðan með námskeið í rennismíði og námskeið í og útskurði, ásamt því sem farið verður yfir umgengni um verkfæri og brýningu renni- og útskurðarjárna.

Tengdar greinar