Hverjar eru áherslur Pírata í öldrunarmálum ?

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Í dag fáum við að vita um áherslur Pírata í öldrunarmálum. Nú þegar höfum við fengið að lesa um áherslur frá Framsóknarflokkunum, Sjálfstæðisflokknum, Flokki fólksins og Sósíalistaflokknum. Píratar vildu koma eftirfarandi á framfæri áður en spurningunum var svarað;

Eldra fólk hefur búið við ósanngjarnt lífeyriskerfi og ófullnægjandi þjónustu allt of lengi. Við viljum koma fram við fullorðið fólk eins og fullorðið fólk, það fái að ráða sínu eigin lífi en sé ekki fast í boðum, bönnum og skerðingum. Við viljum tryggja framfærslu þeirra sem eru komin á efri ár, viðunandi heilbrigðis- og velferðarþjónustu og öryggi í húsnæðismálum. Meginstef Pírata í málefnum eldra fólks eru velsæld, öryggi, samráð og virðing.

Hvaða áherslur hafið þið varðandi lífeyrismál eldri borgara?

Í stuttu máli sagt, burt með skerðingar, enda skerða þær tækifæri einstaklinga til að lifa með reisn og valdi yfir eigin lífi. Skerðingar koma niður á mannhelgi einstaklingsins, draga úr sjálfstæði, færni og getu, og viðhalda fólki í fátækt, sem er hrein og bein pólitísk ákvörðun.
          Enginn í okkar samfélagi á að þurfa að líða skort, allra síst á efri árum. Lífeyrissjóðirnir gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi en lífeyriskerfið er ófullkomið, eins og sést á stöðugum hækkunum á iðgjaldi og áhrifum á samkeppni. Píratar vilja meira gagnsæi í starfsemi lífeyrissjóða, meira lýðræði og aðhald með stjórnum þeirra og skoða alvarlega hvort núverandi kerfi geti staðið undir sér til framtíðar.
     Við viljum þá lögfesta lágmarksframfærsluviðmið fyrir alla íbúa landsins, hækka frítekjumark ellilífeyris í lágmarksframfærslu og afnema skerðingar. Mikilvægast er að afnema skerðingar vegna atvinnutekna enda er áframhaldandi þátttaka í atvinnulífi mörgum mikilvæg því hún eflir félagslega, líkamlega og vitsmunalega virkni, sem er mikilvæg forvörn í heilbrigðismálum lífeyrisþega. Þess vegna vilja Píratar standa vörð um rétt eldra fólks til að hætta að vinna við 67 ára aldur. Á sama tíma viljum við tryggja valfrelsi hvers og eins til að vinna lengur og fresta töku ellilífeyris án þess að hann skerðist. Starfslok eiga að vera á forsendum fólks og færni, ekki aldurs, annað eru aldursfordómar.
          Útrýmum fátækt eldra fólks sem reiðir sig einvörðungu á lögbundinn ellilífeyri. Það verður einungis tryggt með því að lögbundinn ellilífeyrir og frítekjumark fylgi almennri launaþróun, þó þannig að breytingar á ellilífeyri verði aldrei lakari en breytingar á lágmarkslaunum. Lífeyrir á að duga fyrir framfærslu allra sem hann þiggja. Við viljum óháða sérfræðinga til að reikna út kjaragliðnun ellilífeyris undanfarinna ára og vinna hana upp með reglubundnum hækkunum á kjörtímabilinu.
          Við Píratar viljum að sjóðsfélagar lífeyrissjóða kjósi stjórnarmeðlimi í lýðræðislegum kosningum. Við viljum einnig auka gagnsæi í starfsemi lífeyrissjóða, það þýðir að lífeyrissjóðir þurfi að gera upplýsingar um fjárfestingar og rekstur sjóðanna aðgengilegri. Veita þarf fólki ítarlegar upplýsingar um starfshætti og stefnu lífeyrissjóðanna á auðskiljanlegu máli við ákvörðun um val á lífeyrissjóði.
          Píratar vilja styðja lífeyrissjóði í mótun grænnar fjárfestingarstefnu og búa til hvata til fjárfestinga í grænum verkefnum frekar en í óumhverfisvænum iðnaði. Skylda þarf lífeyrissjóði til að veita upplýsingar um kolefnisspor fjárfestinga sinna. Vel er hægt að fjárfesta og ávaxta sjóði lífeyrisþega með grænum leiðum og er það úreld mýta að halda að ekki séu til góðar fjárfestingar sem eru einnig grænar. Það er mikilvægt okkur öllum, á öllum aldri, að gefa engan afslátt á umhverfismálum í öllum manngerðum kerfum samfélagsins.
          Kominn er tími á heildarendurskoðun lífeyriskerfisins til þess að sjálfbærni lífeyrissjóðakerfisins verði tryggð.

Hvaða áherslur hafið þið varðandi þjónustu við eldri borgara í heimahúsum þegar færnin minnkar ?

Við sem þjóð erum afar rík af fagfólki, víða um land, sem starfar í öldrunar- og umönnarþjónustu af ástríðu og fagmennsku, þetta eru t.d.iðjuþjálfar, þroskaþjálfar, sjúkraliðar, félagsliðar, tómstunda- og félagsmálafræðingar, félagsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkraþjálfar o.fl. Öll vinna þau að því að ekki bara lengja líf, heldur auka einnig lífsgæði, sjálfstæði og valdefla. Það er nefnilega afstaða okkar Pírata að það þurfi að valdefla fólk og leggja áherslu á endurhæfingu og félagslega þátttöku. Þá þarf líka að tryggja aðgengi að slíkri þjónustu. 
          Hjá Reykjavíkurborg hefur á síðasta kjörtímabili verið öflugt verkefni í gangi, sem kallast einfaldlega endurhæfing í heimahúsi, og hefur það skilað afar góðum árangri. Slíkt verkefni hugnast okkur vel þar sem það samræmist vel gildum okkar um sjálfræði, sjálfstæði og valdeflingu einstaklingsins. Einnig er vert að nefna nýtt samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands, SELMA, sem er bráðaþjónusta fyrir aldraða. Samningur var gerður til fjögurra ára og var undirritaður í desember 2020 en starfsemin hófst í byrjun árs 2021. Reynsla Pírata í Reykjavík af þessu verkefni er afar góð og Píratar munu styðja það að það haldi áfram og verði enn stærra.


„Með þjónustu SELMU er markmiðið að forða skjólstæðingum frá innlögn á bráðamóttöku vegna veikinda sem hægt er að meðhöndla heima fyrir. Einnig að styrkja samvinnu heimilislæknis og heimahjúkrunar. Teymið er ráðgefandi bakland fyrir starfsfólk heimahjúkrunar og stuðlar að auknu öryggi og betri líðan aldraðra í heimahúsi.”


Lesa má frekar um SELMU hér: 
https://reykjavik.is/sites/default/files/skjol_thjonustulysingar/selma_kynningarblad_upplysingar_fyrir_heimasidu_velferdarsvids.pdf  

Eru þið með áherslur hvað varðar forvarnir- og endurhæfingu fyrir eldri borgara til að halda færni sem lengst ?

Við Píratar viljum koma á gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu. Við viljum auka félagslegan stuðning við eldra fólk með aðgerðum til að draga úr einangrun og auka virkni. Einnig viljum við styrkja fjölbreytt félagsstarf þvert á kynslóðir og efla stuðning til sjálfshjálpar. Allt verði þetta gert í samráði og samstarfi við eldra fólk, enda er aðkoma fólks að eigin málefnum lýðræðisleg, valdeflandi og í anda Pírata. Þannig tryggjum við einnig að fjármunir í málaflokknum nýtist sem best, eldra fólki öllu til hagsbóta. 

Allt þetta stuðlar að forvarnarstarfi og endurhæfingu fólks sem mun leiða af sér aukin lífsgæði samhliða hækkandi lífaldri. Slíkt verður afar mikilvægt í nánustu framtíð þar sem mannfjöldaspár sýna skýrt að mikil fjölgun er að verða meðal eldra fólks á meðan unga fólkið er að eignast færri börn. En fyrst og fremst er það mikilvægt að auka þessi lífsgæði af þeirri augljósu ástæðu að það eiga allir að eiga farsælt líf og farsæla öldrun, það er í rauninni engin ástæða til þess að gera það ekki. Það að stuðla að góðum lífsgæðum er hluti af velsældarhagkerfinu sem Píratar vilja innleiða í íslenskt samfélag. 

Meðal aðgerða sem munu geta skilað þessum árangri er að efla félagsstarf, skapa samfélag byggt á algildri hönnun þar sem tryggt aðgengi er að samfélaginu, efla tækniþekkingu og notkun fullorðinna á snjalltækni og tækjabúnaði (tæknilæsi fyrir fullorðna), hafa sveigjanlegri opnunartíma í félagsstarfi og dagdvölum sem og efla dagdvalir (líkt og gert var á Öldrunarheimilum Akureyrar), efla kynslóðablöndun, þá þarf að fara af stað með vitundarvakningu yngri kynslóða gagnvart málefnum eldra fólks, því vonandi verða þau líka öldruð í framtíðinni og það er ósk okkar allra að þau muni eiga farsæla öldrun. Þá er einnig gríðarlega mikilvægt að takast á við aldursfordóma, í allar áttir.

Eruð þið með á stefnuskránni að fjölga hjúkrunarrýmum eða gera einhverjar breytingar hvað Hjúkrunarheimili varðar?

          Píratar taka undir þá umræðu sem nú er í gangi í bæði samfélaginu, og hagsmunasamtökum aldraðra og ekki síst sérfræðinga í öldrunarmálum, að setja þurfi áherslu á að efla þjónustu heim. Hjúkrunarheimili eru ekki að fara neitt, en við þurfum að sporna gegn þeirri þróun að þeim þurfi stöðugt að fjölga og að það sé eðlilegt að flytjast inn á hjúkrunarheimili á einhverjum tímapunkti í lífinu. Það er vilji fólks að fá að búa lengur heima, hvert svo sem búsetuform þeirra er, það getur verið heimilið sem þau sköpuðu með maka og afkomendum, eða þau geta verið flutt í þjónustu- og öryggisíbúðir (bæði sem eru reknar af einkafyrirtækjum sem og hinu opinbera á borð við þjónustuíbúðir velferðarsviðs Reykjavíkurborgar), það getur verið sambýli með öðrum sem þeim finnst þau eiga samleið með (Þorpið vistfélag hyggst byggja fyrir eldri feminista á Bræðraborgarstíg), eða jafnvel að vera elsta kynslóðin á heimili með þremur kynslóðum.  

Píratar taka því undir ályktun Landsambands eldri borgara um að víða vanti millistig milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimili. Brýnt er að byggja upp fjölbreytt búsetuform til hagsbóta fyrir eldra fólk. Fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra á einungis að verja til byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu við þá eins og kveðið er á um í lögum.
          Tryggja á húsnæði og þjónustu við hæfi í heimahéraði, koma í veg fyrir hreppaflutninga og að hjónum sé stíað í sundur. Píratar vilja efla heimaþjónustu til að gera eldra fólki kleift að búa sem lengst á eigin heimili kjósi það svo. Jafnframt þarf að byggja upp fjölbreytt húsnæði þannig að eldra fólk geti valið sér búsetu eftir persónuleika og áhuga, hvort sem það vill búa nálægt iðandi mannlífi eða í rólegri sveitasælu.
          Við sem eldumst setjum nefnilega ekki stefnuna á að ætla í framtíðinni að flytja á hjúkrunarheimili. Það er í huga flestra eitthvað sem ætti að vera allra síðasta úrræði. Það þarf þó á sama tíma að vera mjög skýrt að þjónustan og umönnunin á hjúkrunarheimilum sé fullnægjandi, fagleg og hlý. Þar á öllum, íbúum fyrst og fremst en einnig starfsfólki, að líða vel. Starfsfólk þar, sem og reyndar á öðrum öldrunarheimilum, á að vinna undir þeirri hugmyndafræði að hjúkrunarheimilið sé ekki fullt af fólki sem er á vinnustað þeirra, heldur að þau komi og starfi á heimilum fólks. Á sama tíma er mikilvægt að starfsumhverfi og kjör starfsfólks séu góð og að þeim líði vel í sínu starfi. Við viljum að þessi störf séu eftirsóknarverð og ekki síður spennandi, því það leiðir af sér hamingjusamt starfsfólk sem veitir þá þjónustu í samræmi við eigin líðan. 

Starfsemi, almennt í öldrunarþjónustu, á að vera opin fyrir þróun, nýsköpun og nýrri menningu og nálgun í öldrunarþjónustu. Til að efla allt er dýrmætt hversu hratt og örugglega velferðartæknin þróast og hversu öflug hún getur verið sem verkfæri til að auðga, bæta og efla líf þeirra sem hana nota. Velferðartæknin hefur þá einnig þau áhrif á samfélagið að ættingjaaðstoð hætti að snúast um umönnun og fari frekar að snúast um gæðastundir ástvina. Slíkar samverustundir kalla á kynslóðablöndun, en kynslóðablöndun hefur gríðarlega jákvæð áhrif á líðan allra sem lifa daglegu lífi útfrá henni.  Víða er verið að breyta félagsmiðstöðvum eldri borgara í svokölluð samfélagshús og eru þau opin öllum á öllum aldri, það ýtir heldur betur undir kynslóðablöndunina. Þó er vert að nefna í þessu samhengi að allar félagsmiðstöðvar Reykjavíkurborgar hafa verið opnar öllum, 18 ára og eldri í yfir 20 ár. Þátttaka í félagsstarfi er eitt stórt forvarnarstarf, þar fer fram starf sem valdeflir fólk, tekur á einmanaleika og einangrun fólks, er heilsueflandi og fræðandi.

Tengdar greinar